Varnarefni

Til varnarefna teljast sæfivörur og plöntuverndarvörur. Þetta eru vörur sem innihalda eitt eða fleiri virk efni og er ætlað að eyða skaðlegum lífverum, bægja þeim frá, gera þær skaðlausar, koma í veg fyrir áhrif þeirra eða halda þeim með öðrum hætti í skefjum með efna- eða líffræðilegum aðferðum.

Sæfivörur hafa víðtækt notagildi og koma víða við sögu í daglegu lífi. Sæfivörum er skipað í fjóra aðalflokka sem eru: sótthreinsandi efni, rotvarnarefni, útrýmingarefni og önnur sæfiefni.

Plöntuverndarvörur eru notaðar í landbúnaði og garðyrkju við ræktun skrautjurta, matjurta, ávaxta, korns og fleiri nytjaplantna til þess að koma í veg fyrir eða draga úr skaða af völdum sveppa, illgresis, skordýra og annarra meindýra eða til að þess að stýra vexti þeirra.

Samkvæmt gildandi reglum um varnarefni er plöntuverndarvörum og sæfivörum skipað í 2 flokka; annars vegar er um að ræða vörur sem ætlaðar eru til almennrar notkunar og hins vegar vörur sem eingöngu eru ætlaðar til notkunar í atvinnuskyni (tiltekin varnarefni). Notendaleyfi þarf til þess að kaupa og nota plöntuverndarvörur og útrýmingarefni sem eingöngu eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni. Sömuleiðis þurfa þeir notendaleyfi sem nota plöntuverndarvörur eða útrýmingarefni í atvinnuskyni.

Ekki er heimilt að setja varnarefni á markað hér á landi nema viðkomandi efni hafi markaðsleyfi sem Umhverfisstofnun veitir skv. 35. gr. efnalaga nr. 61/2013.

Í markaðssetningu felst að bjóða vöru fram á markaði, hvort heldur er gegn greiðslu eða án endurgjalds. Innflutningur telst vera markaðssetning.

Um skyldur þeirra sem markaðssetja tiltekin varnarefni segir í reglugerð nr. 980/2015 um meðferð varnarefna :

 • Dreifingaraðili sem markaðssetur varnarefni til notkunar í atvinnuskyni skal tilgreina nafngreindan ábyrgðaraðila til að tryggja að nægjanleg fagþekking sé innan fyrirtækisins. Slíkur einstaklingur skal vera til taks þegar sala fer fram til að veita viðskiptavinum fullnægjandi upplýsingar að því er varðar notkun varnarefna og áhættu fyrir heilbrigði og umhverfið,
 • Tilgreindur ábyrgðaraðili skal hafa lokið námi eða námskeiði sem Umhverfisstofnun metur gilt og staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans. Láti viðkomandi ábyrgðaraðili af störfum hjá hlutaðeigandi verslun eða birgi skal tilkynna til Umhverfisstofnunar um nýjan ábyrgðaraðila sem uppfyllir skilyrði,
 • Sá sem markaðssetur varnarefni ber ábyrgð á því að einungis þeim sem eru handhafar gilds notendaleyfis frá Umhverfisstofnun séu afhent tiltekin varnarefni,
 • Halda skal skrá yfir sölu tiltekinna varnarefna og skal afhenda Umhverfisstofnun gögn um magn og tegund  tiltekinna varnarefna sem sett eru á markað á því formi sem stofnunin tilgreinir,
 • Tilteknum varnarefnum skal komið þannig fyrir á útsölustöðum að þau séu ekki aðgengileg viðskiptavinum heldur skulu þau afhent sérstaklega,
 • Öryggisblöð á íslensku skulu fylgja við afhendingu varnarefna til notkunar í atvinnuskyni.

Varnarefni ná yfir fjölbreyttan hóp efnavara eins og t.d. illgresiseyða, skordýraeyða og útrýmingarefni og gilda um þau strangar reglur. Þann 15. október 2015 tók gildi reglugerð nr. 980/2015 um meðferð varnarefna þar sem meginmarkmiðið er að vernda menn og umhverfi fyrir hugsanlegri hættu sem stafar af meðferð varnarefna og tryggja að þeir sem koma að markaðssetningu, meðferð og notkun varnarefna hafi aflað sér nægilegrar þekkingar á öruggri meðferð þeirra. Með reglugerðinni er innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/128/EB frá 21. október 2009 um aðgerðaramma Bandalagsins til að ná fram sjálfbærri notkun varnarefna.

Meðal helstu nýmæla í reglugerðinni mætti nefna að:

 • útbúa skal aðgerðaáætlun til 15 ára um notkun plöntuverndarvara þar sem sett eru mælanleg markmið um aðgerðir til að draga markvisst úr notkun þeirra og stuðla að sjálfbærni á þessu sviði,
 • skylt er að skoða og prófa reglulega búnað sem notaður er til dreifingar á plöntuverndarvörum,
 • notkun varnarefna á friðlýstum svæðum er bönnuð nema í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu ágengra tegunda eða bregðast við tjóni af völdum skaðvalda sem ógna lífríki á staðnum,
 • dreifing varnarefna úr loftförum er bönnuð,
 • sett eru fyrirmæli um sértækar ráðstafanir til verndar vatnavistkerfisins.

Inn í hina nýja reglugerð verða felld ákvæði úr reglugerð nr. 350/2014 um meðferð varnarefna og notendaleyfi og fellur sú reglugerð úr gildi um leið og hin nýja tekur gildi.

Hér má kynna sér texta tilskipunar 2009/128/EB í heild sinni. 

Einstaklingar sem nota varnarefni í atvinnuskyni vegna starfa sinna við eyðingu meindýra eða í landbúnaði og garðyrkju, þ.m.t. garðaúðun, skulu sækja um notendaleyfi til Umhverfisstofnunar. Þeir sem nota varnarefni til eyðingar meindýra skulu hafa notendaleyfi fyrir útrýmingarefnum og þeir sem nota varnarefni í landbúnaði og garðyrkju skulu hafa notendaleyfi fyrir plöntuverndarvörum.

Notendaleyfi skulu gefin út til tiltekins tíma og gilda að hámarki í fimm ár sbr. reglugerð nr. 980/2015 um meðferð varnarefna.

Skilyrði fyrir veitingu notendaleyfis eru eftirfarandi:
 • Umsækjandi skal hafa lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um meðferð varnarefna, þ.e. plöntuverndarvara og útrýmingarefna, svo og um lög og reglur sem á því sviði gilda. Umsækjandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans,
 • Umsækjandi skal hafa yfir að ráða aðstöðu og búnaði sem Vinnueftirlit ríkisins hefur viðurkennt og er nauðsynlegur til þess að tryggja örugga og rétta meðferð á þeim vörum sem sótt er um notendaleyfi fyrir,
 • Umsækjandi skal vera eldri en 18 ára.

Notendaleyfi skal gefið út á einstakling og í því skal tilgreina notkunarsvið og þær takmarkanir sem um meðferð efnanna gilda. Heimilt er að binda notendaleyfi því skilyrði að aðstaða eða búnaður leyfishafa sé yfirfarinn reglulega af Vinnueftirliti ríkisins.

Leyfishafi skal ávallt hafa notendaleyfiskírteini meðferðis kaup og alla meðferð á þeim vörum sem leyfið nær til.

Heimilt er að endurnýja notendaleyfi til allt að fimm ára í senn að undangenginni skoðun Vinnueftirlits ríkisins á aðstöðu og búnaði umsækjanda. Skilyrði fyrir endurnýjun er jafnframt að umsækjandi hafi sótt sér viðeigandi endurmenntun í a.m.k. 3 kennslustundir á því tímabili sem liðið er frá síðustu útgáfu notendaleyfis.

Reglulega eru haldin námskeið um meðferð varnarefna, sem ætluð eru þeim sem vilja verða sér úti um notendaleyfi fyrir plöntuverndarvörum eða útrýmingarefnum. Síðast var haldið slíkt námskeið í nóvember 2015 á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands.

Listi fyrir einstaklinga sem eru með notendaleyfi í gildi.

Umsóknir

Með meindýrum er átt við rottur og mýs annars vegar og skordýr og aðra hryggleysingja hins vegar, sem valda tjóni eða umtalsverðum óhreinindum í eða við híbýli manna, í peningahúsum, farartækjum, vöruskemmum o.s.frv.

Sá einn má starfa við eyðingu meindýra í atvinnuskyni sem er handhafi gilds notendaleyfis fyrir útrýmingarefnum sem Umhverfisstofnun gefur út skv. reglugerð nr. 980/2015 um meðferð varnarefna.

Nánar um notendaleyfi

Reglulega eru haldin námskeið um meðferð varnarefna, sem ætluð eru þeim sem vilja verða sér úti um notendaleyfi fyrir útrýmingarefnum til eyðingar meindýra. Síðast var haldið námskeið í nóvember 2015 á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands.

Umsókn - Notendaleyfi fyrir útrýmingarefnum

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur, í samræmi við ákvæði efnalaga, gefið út aðgerðaáætlun um notkun varnarefna sem gildir til ársins 2031. Í áætluninni koma fram upplýsingar um notkun plöntuverndarvara hér á landi og sett eru fram mælanleg markmið og tímaáætlun um aðgerðir og stefnumörkun í því skyni að draga markvisst úr notkun þeirra til hagsbóta fyrir heilsu og umhverfið.

Þetta er í fyrsta sinn sem aðgerðaáætlun um notkun varnarefna er útbúin hér á landi og í henni er tekið saman hversu mikið af plöntuverndarvörum er sett á markað, í hvaða ræktun þær eru notaðar og af hverjum, auk þess sem fram kemur samanburður við notkun á plöntuverndarvörum í öðrum löndum.

Í áætluninni eru sett fram tímasett markmið sem miða að því að draga úr áhættu af völdum plöntuverndarvara gagnvart heilsu og umhverfi og má þar nefna að:

 • eftir 31. desember 2021 skal allur búnaður til dreifingar á plöntuverndarvörum hafa verið skoðaður af Vinnueftirliti ríkisins
 • eftir 31. desember 2025 skulu allar plöntuverndarvörur sem leyfðar eru til almennrar notkunar hafa undirgengist viðeigandi áhættumat áður en þær fá að fara á markað.
 • fyrir árslok 2019 skal útbúa áætlun sem miðar að því að dregið verði úr notkun plöntuverndarvara í þéttbýli, meðfram vegum og í öðru manngerðu umhverfi.

Í samræmi við ákvæði í reglugerð nr. 980/2915 um notkun varnarefna eru í áætluninni settir fram áhættuvísar varðandi markaðssetningu og notkun plöntuverndarvara.  Áhættuvísarnir koma fram í töflunni hér að neðan og þeir gagnast til þess að meta hvort þróun í notkun plöntuverndarvara sé í samræmi við það markmið að draga úr notkun þeirra á tímabilinu sem aðgerðaáætlunin nær yfir.

Áhættuvísir

Hámarksgildi

Innflutningur á plöntuverndarvörum í kg alls á ári

12000

Innflutningur á plöntuverndarvörum í kg af virku efni á ári

3000

Innflutningur á plöntuverndarvörum í kg af virku efni á hvern ha nytjaðs landbúnaðarlands

0,04

Sala á plöntuverndarvörum sem einungis eru ætlaðar til notkunar í atvinnuskyni í kg af virku efni

2400

 

Mikilvægur liður í því að draga úr notkun plöntuverndarvara gegn skaðvöldum í landbúnaði og garðyrkju er að styðjast við valkosti í plöntuvernd sem ekki byggjast á notkun efna. Sömuleiðis skipa samþættar varnir mikilvægt hlutverk í þessu tilliti, þar sem bæði er stuðst við aðgerðir sem byggja á notkun efna og aðferða sem gera það ekki. Umhverfisstofnun er falið að upplýsa almenning og atvinnulífið um hættu samfara notkun efna gegn skaðvöldum í landbúnaði og garðyrkju og jafnframt að benda á valkosti til að draga úr notkun þeirra.

Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna er gefin út til 15 ára og endurskoða skal hana á 5 ára fresti.

Texta aðgerðaáætlunarinnar má nálgast hér
Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira