15. júní 2017

62% upplifa hávaða í leik- og grunnskólum


Umhverfisstofnun hefur gefið út skýrslu um hávaða í umhverfi barna í leik- og grunnskólum á Íslandi. Skýrslan byggir á samstarfsverkefni Heilbrigðiseftirlits sveitafélaganna og Umhverfisstofnunar. Samtals voru 122 leik- og grunnskólar skoðaðir og tóku öll heilbrigðiseftirlitssvæðin þátt í verkefninu.

Markmið verkefnisins var að framkvæma almenna úttekt á hávaða í leik- og grunnskólum landsins með spurningakönnun sem lögð var fyrir starfsfólk. Helstu niðurstöður verkefnisins eru að 62% svarenda upplifa hávaða og telja hljóðvist í rýmum ófullnægjandi. Helmingur svarenda álítur að of mikill hávaði stafi af hávaðasömum börnum og/eða of mörgum börnum í sama rými. Könnunin leiðir einnig í ljós að skólayfirvöld nota ekki sem skyldi möguleika til að bæta hljóðvist í skólum með viðbótarhljóðeinangrun eða önnur úrræði.

Í skýrslunni eru lagðar fram nokkrar aðgerðir, meðal annars að:
- Athuga hvort fylgja eigi könnun eftir með ómtímamælingum á hávaða.
- Skoða hvort grundvöllur sé fyrir breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012 hvað varðar hljóðvist og færa skóla úr flokki C í flokk B.
- Athuga hvernig hægt sé að koma betur á framfæri aðgerðum til að bæta hljóðvist, til dæmis með eyðublaði, tékklista, samantekt aðgerða sem hafa reynst vel eða öðru.

Hægt er að nálgast skýrsluna hér.
Til baka
Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira