Heimilið

Rekstur heimila á Íslandi er frekar umhverfisvænn þökk sé góðum aðgangi að hreinu vatni, jarðvarmahitaveitu og endurnýjanlegum auðlindum til rafmagnsframleiðslu. Þrátt fyrir að við séum svo heppin að hafa aðgang að hreinum auðlindum þurfum við að vernda þær, tryggja sjálfbæra nýtingu og bera virðingu fyrir þeim. Það er þó margt annað sem tengist heimilisrekstri sem getur aukið mjög á notkun auðlinda og losun gróðurhúsalofttegunda s.s. kaup og notkun á fatnaði, mat, tækjum, leikföngum og öðru til heimilisins.  

 

Húsgögn eins og stólar, borð og skápar eru framleidd úr mismunandi efnum s.s. timbri, áli, stáli, plasti eða öðru og geta innihaldið efni sem eru skaðleg fyrir umhverfið og heilsunu. Þessi efni geta gufað upp af húsgögnunum við notkun en einnig við framleiðslu og förgun.

Auk þess þarf mikið af hráefnum og auðlindum til að búa til hvern hlut fyrir sig. Við að búa til stól þarf námuvinnslu til að ná í málma, olíuvinnslu til að framleiða plastið og skógarhögg fyrir timbrið. Svo þarf að flytja efnið þangað sem það er unnið. Í verksmiðjunni eru síðan notuð ýmis konar efni til framleiðslunnar ásamt vatni, orku og eldsneyti. Húsgögn eru svo stundum galvaniseruð með nikkel eða krómi. Þau húsgögn sem eru úr plasti geta innihaldið ýmis konar íblöndunarefni og svo eru oft efni sett í textíl sem settur er á húsgögn s.s. eldtefjandi efni (Brominated flame retardants). Eftir framleiðslu er  stólnum er svo pakkað inn í t.d. pappír, plast, frauðplast og hann sendur á milli landa í skipi, flugvél, bíl og bíður í verslunarhúsnæði þar til hann er keyptur og færður heim. Þegar við erum svo orðin leið á stólnum eða hann ónýtur, er hann fluttur í förgun, mögulega enduvinnslu ef hægt er að flokka hann eða að hann endar á urðunarstað þar sem hann fær að brotna hægt og rólega niður.

Hér skiptir því miklu máli að við spyrjum okkur fyrst: þarf ég á þessu að halda? Ef svo er, þá verðum við að velja vörurnar sem við kaupum vel t.d. með hliðsjón af endingu og gæðum, vottun eða öðru. Að síðustu verðum við að nýta þá hluti sem við kaupum vel. 

Þegar við kaupum vörur er því gott að þekkja nokkur umhverfismerki sem veita okkur leiðbeiningar um hvaða kostur sé sá besti. Í húsgögnum er t.d. hægt að skoða vottanir eins og Svaninn og FSC (Forest Stewardship Council) en merkið gefur til kynna m.a. að viðurinn sem notaður er við framleiðsluna er ræktaður með hliðsjón af umhverfinu og framtíðinni (á sjálfbæran hátt). Fleiri og fleiri framleiðendur vinna í því að draga úr umhverfisáhrifum framleiðslu sinnar og því ættum við neytendur að geta spurt út í hvort húsgögnin séu umhverfisvottuð.

Nokkur góð ráð

 • Veldu umhverfismerkt húsgögn ef þau eru í boði, t.d. með Svaninum eða Evrópublóminu
 • Veldu trégarðhúsgögn með FSC merkinu en þar eru gerðar kröfur um að efniviðurinn komi úr skógi þar sem skógræktin tekur mið af sjálfbærri þróun.
 • Láttu lofta vel um ný innihúsgögn í nokkra daga af því að þau geta gefið frá sér skaðleg efni til að byrja með. Regluleg loftræsting er alltaf til bóta.
 • Forðastu húsgögn með gervileðri sem framleitt er úr PVC-plasti með mýkingarefnum úr þalötum. Athugið að vörum sem innihalda PVC skal skila til endurvinnslu.
 • Veldu húsgögn sem eru lökkuð með vatnsþynnanlegu lakki.
 • Reyndu að velja húsgögn úr gegnheilu efni, sérstaklega ef mikið mæðir á þeim, t.d. eldhússtólar og eldhúsborð.
 • Lengdu líftíma húsgagna með því að gefa eða selja gömul og heil húsgögn sem þú hefur ekki not fyrir lengur. 

Það er ýmislegt hægt að gera til að garðurinn verði sem sjálfbærastur. Væri ekki frábært ef maður gæti komið í veg fyrir efnanotkun í garðinum eða að flutt sem minnst af efni úr garðinum?
Þegar um er að ræða venjulega umhirðu garða þá er það vel hægt. Með því að molta gras, greinar, blóm og annað sem fellur til erum við komin með góða og næringarríka mold til að bera á beðin.

Heimajarðgerð

Stór hluti heimilisúrgangs okkar eru matarleifar en með því að jarðgera hann heima, getum við dregið verulega úr magni þess sorps sem við sendum frá okkur. Við jarðgerð er lífrænum úrgangi umbreytt í moltu sem þykir einn besti jarðvegsbætir sem völ er á, gerir jarðveginn frjósamari, léttari og um leið heilbrigðari. Leiðbeiningar fyrir heimajarðgerð má finna hér: Heimajarðgerð.

Efnanotkun og garðurinn

Allir ættu að kappkosta að halda efnanotkun í garðinum í lágmarki. Hér eru nokkur góð ráð til garðeigenda:

 • Hafðu fjölbreyttan gróður í garðinum til að auka líkurnar á því að þar byggist upp fjölbreytt dýralíf. Ýmsir fuglar og gagnleg skordýr geta aðstoðað í baráttunni við skaðvalda á plöntum, því fjölbreyttara sem lífríkið er, þeim mun betra!
 • Týndu skaðvaldana af plöntunum með höndunum í þeim tilfellum sem það er hægt,  t.d. lirfur sem herja á berjarunna og snigla undir salatinu.
 • Notaðu aðferðir sem ekki byggjast á notkun efna til að uppræta illgresi t.d. með því að reita það í höndunum, nota verkfæri eða sprauta á það með heitu vatni.
 • Komdu í veg fyrir að illgresið nái sér á strik með því að rækta þekjandi plöntur og nota yfirlagsefni til þekja jarðveginn.
 • Sprautaðu vatni á plönturnar til að vinna á trjámaðki þegar hann herjar á plönturnar snemma sumars. Maðkurinn fellur á jörðina og verður fuglum að bráð.
 • Notaðu gildrur til að veiða snigla í.
 • Beittu skiptiræktun í matjurtagarðinum með því að rækta mismunandi tegundir á hverjum stað á hverju ári, t.d. kartöflur í eitt tímabil, salat það næsta, svo tegundir sem vaxa beint upp af fræi og þannig koll af kolli. Plöntur nýta næringarefni í jarðveginum á mismunandi vegu og því getur skiptiræktun aukið frjósemi jarðvegsins.
 • Notaðu nytjadýr í staðinn fyrir skordýraeyða í gróðurhúsum, þú getur keypt í sumum  garðyrkjuverslunum.
 • Athugaðu að öll notkun eiturefna dregur úr líffræðilegri fjölbreytni í garðinum og fækkar nytjadýrum eins og köngulóm, sníkjuvespum og jarðvegsdýrum.

 

Ef þú vilt lesa meira plöntuverndarvörur, garðaúðun og köngulær, smelltu þá hér

Allt í kringum okkur eru efni sem koma góðum notum í okkar daglega lífi, bæði í efnablöndum og hlutum. Sum innihaldsefni geta þó verið varasöm og skaðleg heilsu manna og umhverfis. Þess vegna er það besta sem við getum gert að draga úr notkun efna. Oft erum við bara að nota efni af vana en ekki vegna þess að þau eru nauðsynleg.

Við þurfum líka alltaf að hafa í huga að öll efni sem við notum við sturtur, vaska og þvottavélar, enda í frárennslinu okkar (sápur, sjampó, hreinsiefni, þvottaefni, tjöruhreinsir, málning af penslum sem við skolum) og þaðan ómeðhöndlað beint út í sjó. Þess vegna er mikilvægt að hafa alltaf í huga hvaða efni við erum að nota, kaupa frekar umhverfisvottuð efni eða einfaldlega sleppa efnum þar sem hægt er. Það er bæði gott fyrir umhverfið og sparar pening.

Mörg þvotta- og hreinsiefni geta verið ertandi og jafnvel ætandi, eins og t.d. efni notuð í uppþvotta- og þvottavélar auk ýmissa sértækra hreinsiefna. Hreingerning með hreinsiefnum skilur alltaf eftir efnaleifar í umhverfinu og eru smábörn sérstaklega berskjaldaðri fyrir þessum leifum þegar þau skríða um á gólfinu. Því minna sem notað er af hreinsiefnum því minna fá börnin í sig af þessum efnum. 

Góð leið til að minnka áhrif hreinsiefna á heimilum er einfaldlega að nota minni skammta. Hægt er að prófa sig áfram með því að minnka skammtinn hægt og rólega og halda sig við þann minnsta skammt sem gefur góðan árangur. Á Íslandi er vatnið steinefnasnautt (mjúkt) en minna þvottaefni þarf í slíkt vatn heldur en í steinefnaríkt (hart) vatn. Reynslan hefur sýnt að fólki hættir til að  nota allt of stóra þvottaefnaskammta.

Nokkur góð ráð

 • Drögum almennt úr allri notkun á efnum
 • Búum til eigin efni úr einföldum hráefnum svo sem matarsóda, sítrónu, ediki og öðru. Uppskriftir eru margar og ýmislegt hægt að finna á ýmsum vefsíðum
 • Drögum úr umbúðanotkun með því að kaupa þvotta- og hreinsiefni í stærri umbúðum og svo er hægt að fylla á minni umbúðir
 • Veljum umhverfisvottaðar vörur s.s. Svaninn eða Evrópublómið en við framleiðslu þeirra er tekið tillit til bæði heilsu og umhverfis. Vörurnar innihalda lágmarksmagn af efnum og við framleiðslu þeirra er losun á hættulegum efnum og gróðurhúsaloftegundum haldið niðri. 
 • Ekki geyma efni nálægt börnum - hættulegustu efnin eiga að vera merkt með hættumerki.

Sæfivörur er samheiti yfir vörur sem með efnum vernda fólk, dýr, vatn, yfirborð efni og vörur fyrir skaðvöldum t.d. meindýrum, bakteríum, sveppum eða öðrum óæskilegum lífverum.

Sæfivörur eru t.d. notaðar til að:

 • lengja líftíma vöru
 • koma í veg fyrir vonda lykt
 • koma í veg fyrir rotnun
 • takmarka útbreiðslu baktería.

Ef varan þín hefur einhvern af þessum eða sambærilega eiginleika er líklegt að hún flokkist sem sæfivara.

Almennt má segja um sæfivöru að hún drepur, fælir eða laðar að sér lifandi meinvalda eins og þörunga, sveppi eða meindýr vegna þess að í henni eru tiltekin efni sem hafa þessi áhrif. Sæfivörur eru notaðar til ýmissa daglegra starfa, bæði á heimilum og í atvinnulífinu. Sæfivörur eru mikið notaðar bæði í iðnaði og þjónustu.  Sumar sæfivörur eru nauðsynlegar til að verjast lífverum sem eru skaðlegar heilsu eða valda skemmdum þetta á t.d. við um rottueitur, á meðan aðrar eru ekki nauðsynlegar í daglegu lífi.

Þú getur séð hvort vara er sæfivara með því að skoða hvort eftirfarandi hugtök séu á vörunum:

 • bakteríudrepandi (antibacterial)
 • bakteríuhemjandi (bacteriostatic)
 • myglueyðandi (anti-mould)
 • mygluhemjandi (mould-repellent)
 • lyktarlaus (odourless)
 • vinnur gegn ólykt (anti-odour)

Fáðu upplýsingar í búðinni um hvaða efni varan inniheldur þannig að þú getir tekið upplýsta ákvörðun um að kaupa vörur sem innihalda virk efni. Ef varan er merkt með hættumerki er mikilvægt að lesa upplýsingarnar á vörunni. Efni í sæfivörum geta valdið ofnæmi og verið skaðleg heilsu fólks og umhverfi. Það er því góð hugmynd að íhuga hvort þú getur leyst vandamálið á annan hátt án þess að nota vöru með sæfandi efnum. Sem neytandi, ættir þú að vera meðvitaður um að vörur sem innihalda sæfandi virk efni eru til þess gerðar að berjast gegn lífverum og ætti ekki að nota nema það sé nauðsynlegt.

Veldu vörur sem eru merktar eru með Svaninum eða Evrópublóminu þegar það er hægt.

Ef þú vilt lesa meira um sæfivörur, smelltu þá hér

Matvæli 

Það getur verið skemmtileg áskorun á heimilinu að draga úr matarsóun og mikilvægt að kynna sér ráð sem geta hjálpað manni að breyta um venjur.

Matarsóun er alþjóðlegt vandamál og á heimsvísu er talið að um þriðjungur af framleiddum mat til manneldis eyðileggist eða sé sóað, það gerir um 1.3 milljarður tonna á ári.  Sóun á matvælum er hluti af kolefnisfótspori heimila og töluverður hluti af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi kemur frá urðun á lífrænum úrgangi, m.a. matvælum.

Með því að draga úr matarsóun ásamt því að vera meðvituð um hrávörur, svo sem uppruna þeirra og kolefnisfótspor, er hægt að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið. Meiri neysla á afurðum úr jurtaríkinu og minni neysla dýraafurða hjálpar til, sem og að velja árstíðabundin matvæli og mat úr heimabyggð.

Gott er að tileinka sér ýmis húsráð eins og að skipuleggja innkaup betur, nýta frystinn og borða afganga. Fleiri ráð og innblástur er hægt að kynna sér á heimasíðunni Matarsóun.is: 

Flest okkar nota margar og mismunandi tegundir af snyrtivörum á dag. En hér þarf að vanda valið því ýmsar snyrtivörur innihalda efni sem geta haft skaðleg áhrif á heilsu og umhverfi. Þetta eru t.d. rotvarnarefni, ilmefni, litarefni eða önnur efni sem geta valdið ofnæmi. 

Helstu ofnæmisvaldarnir eru rotvarnar- og ilmefni og ættu þeir sem eru viðkvæmir að forðast þau. Framleiðendur snyrtivara eru skyldugir að gefa upp innihaldsefni á umbúðum.

Hér þurfum við líka sérstaklega að minnast á hárlitunarefni en bæði fastir litir og skollitir geta valdið ofnæmi eða haft önnur neikvæð áhrif á heilsu. Hver kannast ekki við yfirgnæfandi efnalyktina þegar setið er í klippingu?

Nokkur góð ráð:

 • Draga úr notkun snyrtivara eins og hægt er
 • Veldu vörur sem eru umhverfisvottaðar t.d. með Svaninum eða Evrópublóminu, þær taka bæði tillit til heilsu og umhverfis og standast strangar kröfur um efnainnihald. Þegar keyptar eru vottaðar vörur þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að þær innihaldi rotvarnarefni, ofnæmisvaka, efni sem geta verið hormónaraskandi eða eru ekki ákjósanleg í náttúrunni.
 • Kaupa t.d. sápur í stærri umbúðum og fylla á minni umbúðir. Einnig er hægt að draga úr umbúðanotkun með því að kaupa handsápu í stykkjum en ekki fljótandi. Hjá sumum hársnyrtistofum er t.d. hægt að koma með gamla hársjampó brúsann og fá áfyllingu. 
 • Búðu til eigin krem og farða. T.d. er mjög þægilegt að nota örlítið af kókosolíu sem augnfarðahreinsi og þvo hana og farðann af með margnota klút.
 • Fara á hárgreiðslustofu sem er með náttúrulegri liti og síður skaðlega umhverfi og heilsu fólks.
 • Hvetja eigin hárgreiðslustofu til að nota umhverfisvænni liti

 

Ef þú vilt lesa meira um efni í snyrtivörum, smelltu þá hér.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira