Leikföng og leiktæki

LeikföngReglur um leikfangaframleiðslu eru mjög strangar, bæði er varðar öryggi og efnainnihald. Flest leikföng á heimsmarkaði í dag eru framleidd í Asíu og meirihluti leikfanga í íslenskum verslunum eru framleidd í Kína. Á þessum mörkuðum ríkir mikil samkeppni og fara sumir framleiðendur ekki eftir settum reglum. Því finnast reglulega leikföng á markaði sem ekki standast settar kröfur og innihalda of mikið af varasömum efnum eins og t.d. þalötum og þungmálmum. Þessi efni geta verið hættuleg bæði heilsu barnsins og umhverfinu og er hættan á heilsutjóni mest ef varan er notuð á rangan hátt, t.d. ef barn borðar eða sýgur slíka hluti. Þegar hugað er að öryggi barnsins við leik almennt er ekki síður mikilvægt að velja leikföng eftir aldri barnsins, því mörg leikföng geta verið skaðleg eða jafnvel hættuleg barni sem ekki hefur þroska til leiksins.

Góð ráð þegar velja á leikfang

 • Veldu CE merkt leikfang. CE merkið er yfirlýsing framleiðandans um að leikfangið uppfylli grunnkröfur Evrópu um öryggi leikfanga. Leikföng sem markaðssett eru hér á landi eiga að vera CE-merkt.
 • Ekki kaupa leikföng með sterka lykt því ilmefnin geta valdið ofnæmi.
 • Veljið vönduð leikföng og forðist eftirlíkingar. Þó þær séu oftast ódýrari þá eyðileggjast þau fljótt og enda í ruslinu.
 • Gott er að þvo leikföng upp úr heitu vatni og mörg leikföng passa jafnvel í uppþvottavélina, þannig er hægt að lágmarka áhrif innihaldsefnanna á barnið.

Á heimasíðu Neytendastofu má finna frekari ráðleggingar til að velja börnum leikföng við hæfi með öryggi og velferð barnsins í huga. Neytendastofa upplýsir einnig reglulega á heimasíðu sinni um hættulegar vörur á markaði í Evrópu, þar á meðal leikföng. Á heimasíðu RAPEX, sem er tilkynningakerfi Evrópu um ólöglegar vörur á markaði er hægt að skoða hvaða ólöglegu vörur finnast á markaði í Evrópu.

Upplýsingar um leikföng (Noregur)

Börn og leikföng (Danmörk)

Barn andlitsmálað

Mörgum finnst andlitsmálun ómissandi hluti af öskudeginum, og jafnvel 17. júní og hrekkjavökunni. Við kaup á slíkum litum er mikilvægt að vanda valið. Á Íslandi sem og annars staðar í Evrópu gilda strangar reglur um andlitsliti og aðrar snyrtivörur sem eiga að tryggja að vörurnar valdi ekki heilsutjóni við eðlilega notkun. Andlitslitir skulu auk þess uppfylla kröfur sem gerðar eru til leikfanga og eiga því að vera CE merktir. CE merking er staðfesting framleiðanda á því að varan uppfylli kröfur um heilsu, öryggi og umhverfi sem gerðar eru til leikfanga í Evrópu. 

Andlitslitir og lituð hársprey geta innihaldið litarefni, ilmefni og rotvarnarefni sem geta verið varasöm. Mörg litarefni og ilmefni geta valdið ofnæmi eða verið ertandi og geta rotvarnarefni eins og paraben haft hormónaraskandi áhrif. Paraben geta farið inn um húð og haft áhrif á það hvernig estrógen og aðrir hormónar haga sér, ýmist með því að herma eftir þeim eða loka fyrir þá. Nýlega var framleiðsla snyrtivara með eftirfarandi gerðum parabena bönnuð hér á landi og annarsstaðar í Evrópu og má ekki selja snyrtivörur með þeim parabenum eftir 30. júlí nk.: Isoprobylparaben, Isobutylparaben, Phenylparaben, Benzylparaben og Pentylparaben. 

Umhverfisstofnun undirbýr nú eftirlit með andlitslitum, lituðum hárspreyjum og fleiri álíka vörum og mun heimsækja helstu fyrirtæki/verslanir með slíkar vörur á næstu dögum. Lögð verður áhersla á að athuga hvort innihaldsefni og merkingar uppfylli kröfur sem gerðar eru til slíkra vara. 

Umhverfisstofnun tekur við ábendingum um vörur sem ekki eru taldar uppfylla framangreindar kröfur á netfangið ust@ust.is

Góð ráð til að forðast varasöm efni í andlitslitum og lituðum hárspreyjum

 • Gætið þess áður en andlitslitir eru keyptir að þeir séu ætlaðir fyrir húð, séu CE merktir og hafi upplýsingar um innihaldsefni á umbúðum. Lesið vel innihaldslýsinguna. 
 • Forðist að kaupa liti sem ekki hafa innihaldslýsingu og bendið starfsfólki á að þær upplýsingar vanti. 
 • Hægt er að slá upp efnaheitum og fá upplýsingar um verkun efnanna á netinu, t.d. hjá Environmental Working Group og Forbrugerkemi. 
 • Veldu andlitsliti sem ætluð eru börnum ef varan er keypt fyrir börn. 
 • Veldu andlitsliti án parabena ef mögulegt er. 
 • Ekki er ráðlegt að nota andlitsliti á börn eða aðra sem eru ofnæmisgjarnir eða með viðkvæma húð, því að þrátt fyrir að vara uppfylli settar kröfur getur hún valdið ertingu.

Upplýsingar um andlitsmálun frá Klima- og forureiningsdirektoratet í Noregi.
Upplýsingar um andlitsmálun frá Miljøstyrelsen í Danmörku.

Stúlka að leikMótunarleir  inniheldur og getur gefið frá sér margskonar efni. Sumar tegundir leirs eru gerðar að verulegu leyti úr PVC plasti að viðbættu mýkingarefni sem getur haft slæm áhrif á heilsu. Hættan á heilsutjóni eykst ef barnið borðar leirinn eða sleikir leiruga fingur. Mótunarleir er ekki fyrir svo lítil börn að hætta sé á að þau borði hann. Lesið leiðbeiningar, farið eftir aldursmörkum á notkun og skýrið út fyrir börnunum hvernig á að nota/ekki nota leirinn. Þvo skal hendur eftir leik með mótunarleir. Ætilegar fígúrur er hægt að baka úr t.d. bollu- eða piparkökudeigi.

Upplýsingar um mótunarleir af heimasíðu Miljøstyrelsen í Danmörku.

Fjarstýrður bíll og fjarstýringÍ rafmagnsleikföngum má finna ýmis efni, bæði í rafbúnaði og plasti. Sum þessara efna geta verið skaðleg bæði heilsu og umhverfi. Efnin myndast við framleiðsluna og leka lítið út í umhverfið á meðan leikfangið er notað. Þegar henda á leikfanginu skal fara með það á endurvinnslustöð þar sem því er fargað á öruggan hátt. Öllum rafhlöðum skal skila á endurvinnslustöðvar því þær innihalda ýmis skaðleg efni.

Á heimasíðu Neytendastofu má finna ráðleggingar við val á leikföngum sem gefa frá sér hljóð.

Upplýsingar um rafmagnsleikföng frá Klima- og forureiningsdirektoratet í Noregi.

SívalningsperlurPlastmódel, perlur, málning og litir geta innihaldið varasöm efni. Því ætti ætíð að gæta þess að kaupa vörur sem eru sérstaklega ætluð börnum því reglur um efni í vörum fyrir börn eru strangari en fyrir fullorðna. Gott er að reyna að forðast að börn máli á húðina, nema um sérstaka andlitsliti sé að ræða, eða setja hluti upp í sig.

Upplýsingar um módelvörur frá Klima- og forureiningsdirektoratet í Noregi.

barnaleikföng úr plastiMjúkir plasthlutir eru oft í umhverfi barna hvort sem það eru leikföng, eins og t.d. plastendur, bækur og boltar, eða aðrir hlutir sem notaðir eru af börnum, eins og t.d. dýnur, föt, ábreiður, smekkir og uppblásanlegir hlutir eins og kútar. Sumir hlutir eru beinlínis til þess gerðir að börn stingi þeim upp í sig, eins og t.d. snuð, túttur, naghringir.

Þalöt hafa áratugum saman verið notuð í þeim tilgangi að mýkja hluti úr PVC plasti. Þau hafa mikið verið rannsökuð og komið hefur í ljós að nokkur algengustu þalötin sem notuð eru í þessum tilgangi geta dregið úr frjósemi með því að líkja eftir hormónum í líkamanum og dregið þannig úr eðlilegum þroska lítilla barna og á fósturskeiði. Því er vert að gæta þess að lítil börn stingi ekki upp í sig plasthlutum sem talin eru innihalda þalöt.

Þrjú hættulegustu þalötin hafa verið bönnuð í leikföngum síðan árið 2007 og þrjú önnur þalöt eru bönnuð í leikföngum sem börn setja í munninn. Þalöt eru þó ekki bönnuð alls staðar og enn eru að mælast þalöt í vörum sem ætluð eru börnum sem eru líkast til framleidd í Asíu.

Upplýsingar um leikföng án PVC-plasts eða þalata frá Miljøstyrelsen í Danmörku.

Leiktæki til einkanota

Helstu öryggisreglur er varða leiktæki til einkanota eru:  
 • Eingöngu er heimilt að setja á markað leikföng sem merkt eru með CE-merki.
  • Staðlaröð: ÍST EN 71
 • Á leikfanginu eða í notkunarleiðbeiningum sem því fylgir skal varað við hættu sem því kann að fylgja  ásamt upplýsingum um hvernig bregðast eigi við þeirri hættu.
 • Rennibrautum, rólum, hringjum, fimleikarólum, reipum og áþekkum leikföngum sem eru fest á þverslár skulu fylgja notkunarleiðbeiningar um hvernig eigi að setja þau saman og um hvaða hlutar geti verið hættulegir sé leikfangið ekki sett saman á réttan hátt. Upplýsingar skulu fylgja um nauðsynlegt eftirlit og viðhald.
Leiktæki á leiksskóla
 • Vernda verður notendur leikfanga og aðra með beinum hætti gegn heilsutjóni og líkamsmeiðslum þegar leikföng eru notuð eins og til er ætlast eða fyrirsjáanlegt er m.v. eðilega hegðun barna:
  • hættur er stafa af hönnun leikfangsins, smíði þess eða gerð.
  • hættur er felast í notkun leikfangsins og ekki er hægt að  koma í veg fyrir að öllu leyti með því að breyta smíði og gerð leikfangsins.
  • hættan við notkun leikfangs verður að miðast við færni notenda og, þar sem við á, tækifærum umsjónarmanna þeirra til að bregðast við hættunni. Þetta á einkum við um leikföng sem skv. fyrirhugaðri notkun, stærð og sérkennum eru ætluð börnum yngri en þriggja ára. Tiltaka skal, þar sem við á, lágmarksaldur notenda og gefa fyrirmæli um að þau megi einungis nota í umsjón fullorðinna.
 • Leikföng verða að hafa nauðsynlegan aflfræðilegan styrkleika og stöðugleika til að þola álag við notkun án þess að brotna eða aflagast svo af því stafi hætta á meiðslum.
 • Brúnir, útskot, snúrur, kaplar og festingar á leikföngum verður að hanna og smíða þannig að sem minnst hætta sé á meiðslum.
 • Leikföng mega ekki geta valdið kyrkingu eða köfnun.
 • Neytendastofa hefur eftirlit með því að leikföng og leiktæki til einkanota sé í samræmi við íslenska staðla. Á vefsíðu Neytendastofu má finna upplýsingar og leiðbeiningar um útileiktæki.

Leiktæki á fjöleignalóðum, við frístundahús, tjaldsvæði eða aðra samkomustaði

Leikvallatæki er þar til gert tæki eða mannvirki sem börn leika sér í eða á utanhúss eða innanhúss. Helstu öryggisatriði fyrir leikvallatæki :

 • Þau skulu uppfylla kröfur skv. stöðlum.
  • Staðlaraðir: ÍST EN 1176 og ÍST EN 1177.
 • Söluaðilar og aðrir dreifingaaðilar þurfa að geta sýnt fram á að viðkomandi tæki uppfylli kröfur sem fram koma í stöðlum.
 • Leiðbeiningar skulu fylgja með um uppsetningu, nauðsynleg verkfæri, hjálpargögn, viðhald og staðla. Teikningar af tækinu fullbúnu skulu ennfremur fylgja með.  Allar upplýsingar þurfa að vera á íslensku.
 • Upplýsingar um ráðlagða notkun og fyrir hvaða aldurshópa tækið er skulu fylgja með.
 • Huga þarf að undirlagi leikvallatækja og er viðeigandi yfirborðsefni valið m.v. leiktæki og áætlaða fallhættu.
 • Mörk, körfuboltaspjöld og samsvarandi búnað skal festa tryggilega niður.
 • Séu hlutir úr náttúrunni notaðir sem leikvallatæki eða sem hluti þeirra gilda sömu kröfur um þau og önnur leikvallatæki, eftir því sem við á.

Leiksvæði er svæði skipulagt fyrir leik barna, s.s. við leiksskóla, skóla, gæsluvelli, í eða við fjöleignarhús, frístundahús, tjaldsvæði, verslunarhúsnæði og samkomustaði.

Helstu öryggisatriði:

 • Ekki má staðsetja leiksvæði þar sem ætla má að börnum geti stafað hætta eða ónæði af umhverfinu, s.s. frá umferð, vegna fallhættu, hruns eða hættu á drukknun.
 • Leiksvæði skulu hönnuð með vatnshalla, vera vel framræst og þess gætt að vatn safnist ekki fyrir þannig að hætta stafi af.
 • Umferð vélknúinna faratækja er bönnuð á leiksvæðum.
 • Hindra skal að börn geti hlaupið beint út af leiksvæði þar sem umferð er.
 • Þar sem grindverk og hlið eru á lóðum leiksvæða skal frágangi þeirra þannig hagað að börnum stafi ekki hætta af.

Tengt efni

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira