Samgöngur

Hjólað í umferðinniHækkandi eldsneytisverð hvetur stöðugt fleiri til að hvíla bílinn og labba eða hjóla í staðinn. Þegar valinn er samgöngumáti er jafnan samhengi milli sparnaðar og umhverfisvæns lífstíls. Ganga og hjólreiðar koma langbest út hvort sem metin eru áhrif á heilsu, umhverfi eða efnahag en almenningssamgöngur eru næstbesti kosturinn.

Það hefur sýnt sig að stór hluti þeirra ferða sem farnar eru á einkabíl innan höfuðborgarsvæðisins eru innan við 3 km. Það eru því ekki alltaf langar vegalengdir sem standa í vegi fyrir því að taka fram hjólið. Reykjavíkurborg gaf út svokallað korters-kort í tengslum við Samgönguviku 2006 sem sýnir hve langt maður kemst á hjóli á 15 mínútum. Þar sést vel hve vegalengdir eru í raun stuttar innan borgarmarkanna.

Hjólað í vinnuna er skemmtilegt átak sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur fyrir í maí á hverju ári. Þar er markmiðið að fá fólk til að hvíla einkabílinn með því að ganga, hjóla eða fara í strætó til og frá vinnu. Gott er að byrja tímanlega að undirbúa sig því yfirfara þarf hjólið og leyfa skrokknum að venjast nýjum ferðamáta hægt og rólega.

Góð ráð fyrir þá sem langar að prófa að hjóla eða ganga í vinnuna

 • Skoðaðu leiðina vel áður en lagt er af stað. Göngu- og hjólastígakerfi á höfuðborgarsvæðinu má finna á borgarvefsja.is og þar er hægt að nota stiku til að mæla vegalengdir.
 • Ef þú ætlar að hjóla skaltu skoða hjolreidar.is. Þar er að finna hafsjó af fróðleik um flest er við kemur hjólreiðum og ýmsar mýtur kveðnar niður.
 • Settu þér markmið: Ætlar þú að byrja að ganga/hjóla 2 daga í viku í 3 vikur og auka síðan fjölda daga þar til þú ert klár í Hjólað í vinnuna sem stendur yfir frá 8.-28. maí 2013.

Kostnaður fyrirtækja við gerð og viðhald á bílastæðum er mikill. Nú bjóða ýmis fyrirtæki starfsfólki sínu upp á samgöngusamning en þá skuldbindur starfsmaðurinn sig til þess að fara ekki á einkabíl til og frá vinnu og fær í staðinn ákveðna greiðslu. Slíkt býðst t.d. starfsfólki Umhverfisstofnunar. 

Rekstur einkabíls hefur aldrei verið eins stór hluti af útgjöldum heimilisins og nú. Þeir sem telja sig ekki geta verið án einkabílsins geta þó dregið úr útgjöldum og farið um leið betur með umhverfið með því að gera samanburð þegar kaupa á nýjan bíl því allt að fjórfaldur munur getur verið á eldsneytiseyðslu á nýjum bílum. Þeir sem reka bíl og nota hann lítið ættu jafnframt að hugsa út í það að hægt er að fara í fleiri tugi leigubílaferða á ári og nota strætisvagna þess utan fyrir brot af þeim kostnaði sem það kostar að reka bíl.

Umhverfisvæn ráð við kaup og rekstur einkabílsins

Rafhleðsla rafmagnsbílsÝmsir möguleikar eru í boði þegar kaupa á bíl

Bensínbíll: Með nýrri og betri tækni er hægt að kaupa mjög sparneytna bensínbíla. Á heimasíðu Orkuseturs er hægt að skoða hvað hinar ýmsu tegundir bíla eyða.

Díselbíll: Ef kaupa á díselbíl skal gæta þess að hann sé búinn hvarfakút og ryksíu. Útblástur koldíoxíðs frá díselbílum er minni en hjá sambærilegum bensínbílum. Hve mikið eyðir bíllinn? Nánar á heimasíðu Orkuseturs

Metanbílar: Eru orðnir raunhæfur kostur þó svo að metanstöðvar séu enn mjög fáar. Til eru bílar sem ganga bæði fyrir metani og bensíni og má breyta hefðbundnum bensínbílum á þann hátt sem borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Metan er u.þ.b. 25% ódýrara hefðbundið jarðefnaeldsneyti. Nánar á heimasíðu Orkuseturs.

Tvinnbílar: Tvinnbílar eru venjulegir bensínbílar en með rafgeymi sem hleðst inn á við akstur. Á meðan keyrt er á orku frá rafgeyminum sparast bensín og útblástur verður minni.

Tengiltvinnbílar: Tengiltvinnbílar eru öðruvísi en tvinnbílar að því leyti að þá má hlaða með rafmagni úr innstungu.

Rafmagnsbílar: Rafmagnsbílar hafa marga kosti og hefur tækniþróunin verið hröð síðustu ár. Úrval rafmagnsbíla hefur aukist talsvert undanfarið og möguleikar á að hraðhleðslu margfaldast á höfuðborgarsvæðinu og í nærliggjandi sveitafélögum.

BensíndælustúturÍ litlu og lokuðu rými eins og í bíl er mikilvægt að loftið í bílnum sé heilnæmt. Því er mikilvægt að halda bílnum hreinum án þess þó að nota hreinsiefni sem innihalda ilmefni sem geta valdið ofnæmi. Loftið út þegar bílinn er ekki í gangi og þrífið upp ryk því innan í bílum eru hlutir sem meðhöndlaðir hafa verið með hættulegum efnum á borð við brómeruð eldtefjandi efni og þalöt. Hiti og sterkt sólarljós getur flýtt fyrir því að efnin gufi upp. Þetta er ekki síst mikilvægt ef bíllinn er nýr.

 • Haltu hraðanum niðri, hraðabreytingum í lágmarki, tileinkaðu þér vistakstur og sparaðu með því eldsneyti.
 • Forðist að hafa bílinn í lausagangi, allra síst í námunda við skóla og leikskóla.
 • Köld vél eyðir meira eldsneyti en heit. Forðist stuttar ferðir með kalda vél.
 • Gætið þess að loftþrýstingur í dekkjum sé nægur og jafn. Með því má spara eldsneytiseyðslu um allt að 10 %.
 • Ekki keyra í of lágum gír.
 • Opnir gluggar auka á eldsneytiseyðsluna.
 • Vertu í samfloti með öðrum þegar það hentar frekar en að vera einn á ferð. Fleiri en ein fjölskylda geta rekið saman einn bíl.
 • Haldið eldsneytiseyðslu í lágmarki með því að halda gluggum lokuðum, keyra ekki með óþarfa farangur og tóma farangurskassa og notið helst ekki orkufreka loftkælingu.

Upplýsingar um vistakstur á heimasíðu Umferðastofu.

Þrif á bílEf þvo þarf tjöru af bíl eða önnur föst óhreinindi getur þurft til þess tjöruhreinsi eða önnur sterk efni sem geta skaðað umhverfið. Þá er mælt með því að þvo bílinn á bílaþvottastöð þar sem frárennslisvatn er hreinsað frekar en að þvo bílinn heima þar sem efnin skolast í næsta niðurfall og út í sjó eða vatn.

Þegar velja skal bílavörur til notkunar heima skal velja þær vörur sem valda síst tjóni á umhverfinu og þá eru nærtækastar vörur með umhverfisvottun á borð við Svansmerkið.

Upplýsingar um viðhald bílsins á heimasíðu Orkuseturs.

Erlendur samanburður á bíldekkjum hefur leitt í ljós að iðulega fara saman gæði og lítil umhverfisáhrif. Góð bíldekk tryggja góða nýtni eldsneytis með minna viðnámi, minni hávaða og lágmarksmengun vegna slits.

Nú eiga öll bíldekk á markaði að vera án arómatískrar olíu (HA olíu) sem innihalda krabbameinsvaldandi  og umhverfisskaðleg efni. Til öryggis má grennslast fyrir um það áður en dekk eru keypt hvort í þeim séu HA olía eða PAH.

Með því að velja endursóluð dekk er stuðlað að betri nýtingu hráefna úr því að þá er það eingöngu slitflötur dekkjanna sem er endurnýjaður.

Dekk notað sem blómapotturNagladekk eru trúlega mesti mengunarvaldurinn í þéttbýli hér á landi. Hver og einn bíleigandi ætti að vega og meta hvort hann hafi þörf fyrir nagladekk. Það á sérstaklega við um þá sem nota aðeins bíl innanbæjar að vetri til. Hefðbundin vetrardekk eru í flestum tilfellum engu síðri með réttu aksturslagi. Svifryksmengunin á höfuðborgarsvæðinu og þá sér í lagi við mestu umferðaræðarnar er of mikil og ljóst að hún veldur fólki ekki aðeins óþægindum heldur einnig heilsuskaða, sérstaklega þeim sem eru með viðkvæm öndunarfæri. Í mörgum stórborgum erlendis láta margir lífið vegna sjúkdóma sem koma til vegna svifryksmengunar. Það er mun auðveldara að minnka svifryksmengun hér en í erlendum stórborgum með því einu að draga verulega úr notkun nagladekkja.

Ef þetta vandamál hverfur ekki á næstu árum gætu yfirvöld neyðst til að grípa til aðgerða til að stemma stigu við mengun og þá er betra að vera undir það búinn.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira