Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur borist umsókn ORF Líftækni hf. afmarkaðrar notkunar erfðabreyttra plantna í gróðurhúsi sínu Grænu Smiðjunni á Melhólabraut, 241 Grindavík. Starfsemin sem hér um ræðir fellur undir lög um erfðabreyttar lífverur nr. 18/1996 og reglugerð nr. 276/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera.

Í umsókn kemur fram að rækta eigi erfðabreyttar salatplöntur (Lactuca sativa) í Grænu Smiðjunni (gróðurhúsi fyrirtækisins) í Grindavík. Ræktunin er hluti af lyfjaþróunarverkefni og verða ræktuð mismunandi yrki til að gera samanburðarrannsóknir á markpróteinum. Sá partur plöntunar sem er erfðabreyttur til að framleiða þessi markprótein eru grænukornin (e. chloroplast). ORF Líftækni hf. fær fræ sem þegar er búið að erfðabreyta frá eiganda þeirra sem er alþjóðlegt fyrirtæki. ORF Líftækni hf. mun því ekki framkvæma erfðabreytinguna heldur sjá um sáningu, ræktun, uppskeru og úrvinnslu.

Leitað verður álits Vinnueftirlitsins og ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur við vinnslu leyfisins. Kallað verður eftir upplýsingum um afmörkunarflokk starfseminnar, áhættumat og viðbragðsáætlun mengunar umhverfis vegna erfðabreyttra salatplantna skv. reglugerð 276/2002.

Umhverfisstofnun mun auglýsa ákvörun sína um útgáfu leyfis síðar.