Notendaleyfi

Hvernig endurnýja ég notendaleyfið mitt?

Sótt er um endurnýjun á notendaleyfi í gegnum „Mínar síður“ á vef Umhverfisstofnunar. Við endurnýjun á notendaleyfi fyrir útrýmingarefnum þarf að fylgja með afrit af eftirlitsskýrslu Vinnueftirlits ríkisins á geymslu fyrir eiturefni. Við endurnýjun á notendaleyfi fyrir plöntuverndarvörum þarf sömuleiðis að fylgja afrit af eftirlitsskýrslu Vinnueftirlits ríkisins á geymslu fyrir eiturefni, en einnig, þegar það á við, afrit af skoðunarskýrslu fyrir vélbúnað sem notaður ef við úðun. Nánar um notendaleyfi

Ég hef áhuga á að starfa við eyðingu meindýra, hvað þarf ég að gera til þess að geta það?

Til þess að starfa við eyðingu meindýra þarf viðkomandi að vera handhafi notendaleyfis fyrir útrýmingarefnum sem gefið er út af Umhverfisstofnun. Skilyrði fyrir veitingu notendaleyfis er að umsækjandi sé eldri en 18 ára og hafi lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um lífshætti meindýra, meðferð útrýmingarefna, lög og reglur sem á þessu sviði gilda og fleira. Umsækjandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans. Umsækjandi skal hafa yfir að ráða aðstöðu og búnaði sem Vinnueftirlit ríkisins hefur viðurkennt og er nauðsynlegur til þess að tryggja örugga og rétta meðferð á þeim vörum sem sótt er um notendaleyfi fyrir. Sá sem starfar við eyðingu meindýra í atvinnuskynni skal auk þess vera með starfsleyfi sem gefið er út af heilbrigðisnefnd. Nánar um notendaleyfi

Hvernig get ég öðlast réttindi til þess að mega nota plöntuverndarvörur í atvinnuskyni?

Þeir sem nota plöntuverndarvörur í atvinnuskyni í landbúnaði og garðyrkju eða starfa við garðaúðun, þurfa að vera handhafar notendaleyfis fyrir plöntuverndarvörum sem gefið er út af Umhverfisstofnun. Skilyrði fyrir veitingu notendaleyfis er að umsækjandi sé eldri en 18 ára og hafi lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um lífshætti planta, helstu plöntuskaðvalda, meðferð plöntuverndarvara, lög og reglur sem á þessu sviði gilda og fleira. Umsækjandi skal hafa staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans. Umsækjandi skal hafa yfir að ráða aðstöðu og búnaði sem Vinnueftirlit ríkisins hefur viðurkennt og er nauðsynlegur til þess að tryggja örugga og rétta meðferð á þeim vörum sem sótt er um notendaleyfi fyrir. Sá sem starfar við garðaúðun í atvinnuskynni skal auk þess vera með starfsleyfi sem gefið er út af heilbrigðisnefnd. Nánar um notendaleyfi