REACH

Hverjir þurfa að skrá efni skv. REACH reglugerðinni? 


Samkvæmt REACH þurfa þeir sem framleiða eða flytja inn efni í meira magni en 1 tonn á ári, hvort sem þau eru hrein eða í efnablöndu, að skrá efnið hjá Efnastofnun Evrópu í Helsinki. Með innflutningi er átt við innflutning inn á Evrópska efnahagssvæðið. Ekki má framleiða né markaðssetja efni, hvort sem þau eru hrein, í efnavörum eða hlutum, nema þau hafi verið skráð: þ.e. engin skráning = enginn markaður.

Ef fyrirtæki á Íslandi vill kaupa efni frá Bandaríkjunum sem búið er að skrá hjá Efnastofnun Evrópu, þarf íslenska fyrirtækið líka að skrá efnið? 

Já, íslenska fyrirtækið þarf líka að skrá efnið hjá Efnastofnun Evrópu. Að skráningu efnis koma allir þeir sem framleiða eða flytja efnið inn á Evrópska efnahagssvæðið. Þannig verður til hópur sem deilir kostnaði við áhættumat á efninu og einnig fæst yfirsýn yfir hve mikið af efninu er framleitt og flutt inn á Evrópska efnahagssvæðinu.

Hvenær þarf að afhenda öryggisblöð?

Ef efni eða efnablanda uppfyllir ákveðnar viðmiðanir (t.d. hættuflokkuð og leyfisskyld efni) skal birgir efnisins/efnablöndunar sjá viðtakandanum fyrir öryggisblaði. Skv. REACH þá er viðtakandi efnis eða efnablöndu skilgreindur sem eftirnotandi eða dreifandi. Eftirnotandi er sá sem notar efnið/efnablönduna við iðnaðarstarfsemi sína eða faglega starfsemi. Dreifandi er einstaklingur eða lögaðili, þ.m.t. smásali, sem einungis geymir og setur efni á markað, eitt sér eða í efnablöndu, á vegum þriðja aðila. Þetta þýðir að þegar efni eða efnablanda er seld til aðila sem ætlar að nota hana við iðnaðarstarfsemi/faglega starfsemi og/eða selja hana áfram í smásölu, þá skulu öryggisblöð fylgja með vörunni. Auk ofangreindra reglna getur viðtakandi efnis í ákveðnum tilfellum beðið um öryggisblöð.