Bráðamengun

Bráðamengun á sjó ber að tilkynna til Landhelgisgæslunnar í síma 511-3333

Bráðamengun á landi ber að tilkynna til lögreglu í síma 112

Eyðublað um bráðamengun

Með bráðamengun er átt við skyndilegan atburð sem krefst tafarlausra viðbragða. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með bráðamengun hafs og stranda og mengunaróhöppum almennt á landinu í heild. Skipulag sjálfra viðbragðanna er hins vegar skipt eftir staðsetningu mengunaróhappsins. Slökkviliðsstjóri á hverjum stað hefur með höndum stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi skv. lögum nr. 75/2000 um brunavarnir.  Hafnarstjórar annast viðbrögð við bráðamengun innan hafnarsvæða en Umhverfisstofnun ber ábyrgð á viðbrögðum vegna mengunar hafs og stranda þar fyrir utan. Nánar er kveðið á um viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda í reglugerð nr. 465/1998, með síðari breytingum.

Skilgreining á bráðamengun samkvæmt lögum nr. 33/2004 er eftirfarandi: Mengun hafs og stranda sem verður skyndilega og krefst tafarlausra aðgerða.

Hér má finna samantektir Umhverfisstofnunar um bráðamengun

Hér má finna samantekt Landhelgissgæslu Íslands um CleanSeaNet og eftirlit í íslenskri mengunarlögsögu

Bráðamengun utan hafnarsvæða

Við óhapp sem leiðir til eða getur leitt til bráðamengunar hafs og stranda utan hafnarsvæða skal Umhverfisstofnun gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að aðgerðir gegn bráðamengun hefjist og annast stjórn á vettvangi. Umhverfisstofnun getur farið fram á að heilbrigðisnefnd fari á vettvang og meti umfang bráðamengunar og nauðsynlegar aðgerðir og tilkynni Umhverfisstofnun. Stofnuninni er jafnframt heimilt að fela heilbrigðisnefnd eða öðrum aðilum í umboði stofnunarinnar umsjón með aðgerðum á kostnað stofnunarinnar. 

Umhverfisstofnun, Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands hafa undirritað skriflega aðgerðaáætlun um viðbrögð við bráðamengun utan hafnarsvæða . Áætlunin fjallar um hvernig eigi að bregðast á við þegar óhöpp verða á sjó er varða skip í efnahagslögsögu Íslands sem ógna siglingaöryggi eða hætta er á að valdi umhverfisstjóni og verkaskiptingu  á milli stofnananna. Áætlunin var undirrituð af Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslu Íslands, Þórólfi Árnasyni, forstjóra Samgöngustofu og Kristínu Lindu Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar. Áætlunin er sameiginlegt stjórntæki Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslu Íslands  og Samgöngustofu  og er ætlað að tryggja fumlaust verklag og framkvæmd viðbragða vegna bráðamengunar, þegar hætta er talin á bráðamengun sem og rétta framkvæmd við notkun skipaafdrepa. Skipaafdrep, sem Samgöngustofa útnefnir, eru annars vegar innan hafna (neyðarhöfn) og hins vegar skjólgóð svæði sem eru tilgreind utan hafna. Aðgerðaáætlunina er hægt að virkja á fjórum stigum, þ.e. 1) þegar atvik verður á sjó þar sem engin mengun er sjáanleg og engin hætta er talin á mengun, 2) þegar hætta er talin á mengun, 3) mengun er sýnileg og 4) þegar skip þurfa að leita í skipaafdrep. 

Bráðamengun innan hafnarsvæða

Hafnarstjóri ber ábyrgð á og annast aðgerðir vegna mengunar innan hafnarsvæðis og ber honum að grípa til hreinsunar og annarra viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara tjón vegna bráðamengunar. Hafnarstjóra ber að tilkynna Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefnd um bráðamengun strax og vart verður við hana. Heilbrigðisfulltrúi, í umboði heilbrigðisnefndar, hefur eftirlit með hreinsunaraðgerðum og ákveður í samráði við Umhverfisstofnun hvenær árangur af hreinsun er nægur. Hafnarstjóri getur kallað eftir aðstoð Umhverfisstofnunar telji hann ástæðu til. Telji Umhverfisstofnun nauðsyn á frekari aðgerðum er stofnunni heimilt að hlutast til um þær.

Hver höfn skal eiga og reka mengunarvarnabúnað og ber viðkomandi höfn ábyrgð á viðhaldi búnaðarins og endurnýjun hans. Þó er heimilt að hafnir á tilteknu svæði eigi og reki saman mengunarvarnabúnað. Heimilt er að fela slökkviliðsstjóra umsjón með mengunarvarnabúnaði og stjórn á vett­vangi í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Höfnum er skipt í þrjá flokka hvað varðar viðbrögð og mengunarvarnabúnað vegna bráða­mengunar samkvæmt reglugerð nr. 1010/2012. Flokkun hafna er eftirfarandi:

Flokkur I:

Stórar olíuhafnir, iðnaðarhafnir og stærri flutningahafnir. Til þessara hafna koma olíuskip sem geta borið meira en 3.000 tonn af olíu og/eða skip stærri en 5.000 brúttótonn. Við höfnina er olíubirgðastöð og/eða margvísleg mengandi starfsemi.

Flokkur II:

Meðalstórar fiskihafnir og vöruflutningahafnir þar sem skip allt að 5.000 brúttótonn eða allt að 100 m löng koma alla jafna að bryggju.

Flokkur III:

Smábáta- og skemmtibátahafnir þar sem bátar styttri en 25 m leggjast yfir­leitt að bryggju.

 

Hver höfn skal að lágmarki eiga og reka mengunarvarnabúnað í samræmi við flokkun hafnar og áhættumat hennar. Lág­marks­mengunarvarnabúnaður innan hafna eftir flokkum hafna, skv. 5. gr. reglugerðar nr. 1010/2012, skal vera eftir­farandi:

Flokkur I:

150-300 m af flotgirðingu, 1 olíuupptökutæki, ísogsefni, dreifiefni.

Flokkur II:

100-200 m af flotgirðingu, ísogsefni, dreifiefni.

Flokkur III:

ísogsefni.

Kortið sýnir þá staði þar sem mengunarvarnarbúnaður er til taks.

Flokkur 1 (rauðir staðir á korti)

 • 2 stk. rafstöðvar 4,5 KW
 • Háþrýstitæki með 20 metra þrýstislöngu framlengingu
 • 3 stk. 500W ljóskastarar á fótum
 • Olíuupptökutæki (skimmer) og fylgihlutir
 • Flotgirðingar 300 metrar
 • Færanlegur geymir (tankur) 10 m³
 • Dreifiefni 3 stk.
 • Handúðarar fyrir þrýstiloft
 • Handverkfæri
 • 10 sett tvískiptur hlífðarfatnaður
 • 2 stk. 20 feta gámar
 • Útbúnaður til að verja flotgirðingarnar fyrir skemmdum þegar verið er að sjósetja þær og/eða taka þær á land

Flokkur 2 (bláir staðir á korti)

 • 1stk. rafstöð 4,5 KW
 • Háþrýstitæki með 20 metra þrýstislöngu framlengingu
 • 1stk. 500W ljóskastari á fótum
 • Flotgirðingar 120 metrar
 • Dreifiefni
 • Handverkfæri
 • 5 sett tvískiptur hlífðarfatnaður
 • 1 stk. 20 feta gámur
 • Útbúnaður til að verja flotgirðingarnar fyrir skemmdum þegar verið er að sjósetja þær og/eða taka þær á land

Hlutverk Umhverfisstofnunar

Umhverfisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda að svo miklu leyti sem ekki er mælt fyrir um annað í lögunum. Umhverfisstofnun er heimilt að fela tiltekna þætti eftirlitsins, sem undir stofnunina heyra, heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna eða faggiltum skoðunaraðilum. Skal í slíkum tilvikum gerður sérstakur samningur við hinn faggilta skoðunaraðila eða við hlutaðeigandi heilbrigðiseftirlit eftir því sem við á. Umhverfisstofnun er heimilt að fela heilbrigðisnefnd framkvæmd þvingunarúrræða samhliða eftirliti.

 • Umhverfisstofnun skal sjá um að mengun hafs og stranda sé vöktuð.
 • Umhverfisstofnun skal sjá um gerð fræðsluefnis og fræða þá sem starfa að þessum málum og gefa út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur.
 • Nánari upplýsingar er að finna í lögum og reglum er varða málefni hafs og stranda.

Hlutverk Landhelgisgæslunnar

Landhelgisgæsla Íslands, undir yfirstjórn innanríkisráðherra annast eftirlit með hafsvæðum umhverfis Ísland, jafnt úr lofti sem af sjó. Landhelgisgæsla Íslands tilkynnir Umhverfisstofnun og lögregluyfirvöldum um svæði þar sem mengun getur borist á land ef hún verður vör við mengun eða grunur leikur á mengun hafs og stranda.

Sé um olíumengun að ræða er stuðst er við ákveðna litaflokkun til þess að átta sig á magninu, en út frá lit olíuflekksins er hægt að áætla hvert rúmmál olíunnar er. Taflan hér að neðan sýnir flokkunina

 

Olíutegund

 

 

Útlit/þykkt

 

 

Áætlað rúmmál (mm)

 

 

Áætlað (m³/km²)

 

Olíuslæða

Silfurgljái

>0.0001

0.1

Olíuslæða

Óreglulegur gljái

>0.0003

0.3

Hráolía og

brennsluolía

Svart/dökk brúnt

 

>0.1

100

 

Þeyti

Brúnt/ appelsínugult

>1.0

1000

 

Samband á milli útlits, þykktar og rúmmáls olíubrákar

Hlutverk mengunarvarnaráðs hafna

Að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum skal umhverfis- og auðlindaráðherra skipa átta fulltrúa í mengunarvarnaráð hafna til fjögurra ára í senn. Umhverfisstofnun tilnefnir tvo fulltrúa og er annar þeirra formaður ráðsins. Hafnasamband Íslands tilnefnir þrjá fulltrúa, Samband íslenskra sveitarfélaga einn fulltrúa, og skal hann vera starfandi heilbrigðisfulltrúi, og Samgöngustofa og Vegagerðin einn fulltrúa hvor. Hlutverk mengunarvarnaráðs hafna er: 
   a. að vera formlegur samstarfsvettvangur Umhverfisstofnunar og hafna um málefni sem varða viðbúnað og viðbrögð við bráðamengun innan hafnarsvæða,
   b. að stuðla að samstarfi og samhæfingu milli hafna um viðbúnað, samræmingu viðbragðsáætlana og viðbragða við bráðamengun,
   c. að gera tillögu til Umhverfisstofnunar um uppbyggingu og endurnýjun á mengunarvarnabúnaði í höfnum landsins og
   d. að koma með ábendingar og tillögur um innihald viðbragðsáætlana.

Hlutverk Samgöngustofu

Samgöngustofa, undir yfirstjórn samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, annast meðal annars eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna, sbr. lög um eftirlit með skipum.

Erlennt samstarf

Kaupmannahafnarsamkomulagið er samstarf Norðurlandanna um viðbrögð við mengunaróhöppum á sjó.

EMSA, Siglingaöryggisstofnun Evrópu, heldur utan um samstarf Evrópuríkja um viðbúnað og viðbrögð við megnun frá skipum.

Ísland er aðili að samningi Norðurskautsríkjanna um samstarf um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun sjávar á Norðurslóðum (MOSPA).

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira