Ráð og nefndir

Vatnaráð er skipað fimm fulltrúum, tveimur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, einum frá iðnaðarráðuneytinu og einum frá umhverfisráðuneytinu sem jafnframt er formaður ráðsins.

Hlutverk vatnaráðs sem skipað er af umhverfisráðherra til fimm ára í senn, er að vera ráðherra til ráðgjafar um stjórn vatnamála. Það hefur umsjón með gerð tillögu að vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun og tekur afstöðu til tillagna áður en áætlanirnar fara í opinbera kynningu.Vatnaráð skal skila skriflegri umsögn um áætlanirnar til Umhverfisstofnunar og gera tillögu til ráðherra um staðfestingu þessara áætlana og endurskoðun þeirra þegar við á. Önnur hlutverk vatnaráðs er að veita umsagnir um reglugerðir sem settar eru með stoð í lögum um stjórn vatnamála, skila skýrslum til Sambands íslenskra sveitarfélaga um hvernig markmiðum laganna er náð og á þriggja ára fresti að meta kostnað sem af framkvæmd laga um stjórn vatnamála hlýst fyrir ríki og sveitarfélög. Umhverfisstofnun annast daglegan rekstur og umsýslu vatnaráðs.

Vatnaráð var skipað í byrjun júní 2011. Formaður þess er Sigríður Auður Arnardóttir . Aðrir fulltrúar vatnaráðs eru Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Þorsteinn Narfason, Lúðvík E. Gústafsson, Árný Sigurðardóttir, Kristinn Einarsson, Harpa Pétursdóttir, Ingimar Jóhannsson og Eik Elvarsdóttir. Starfsmaður vatnaráðs er Heiðrún Guðmundsdóttir verkefnisstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Netföng vatnaráðs:

Haustið 2008 setti Umhverfisstofnun af stað stýrihóp til að samræma starf þeirra stofnana sem hafa hlutverki að gegna við undirbúning framkvæmdar hinna nýju laga um stjórn vatnamála. Formaður stýrihópsins er forstjóri Umhverfisstofnunar en aðrir í hópnum eru forstjórar þeirra fjögurra ríkisstofnana sem hafa mestra hagsmuna að gæta vegna laganna, þ.e. Veðurstofu Íslands, Veiðimálastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Orkustofnunar.

Stýrihópurinn hafði það hlutverk að samræma vinnu þeirra fjölmörgu aðila sem koma að málefnum er varða vatn og að sjá um að þau verkefni sem vatnatilskipunin kallar á séu framkvæmd. Alls störfuðu 32 menn í 5 vinnuhópum frá 14 stofnunum og eftirlitsaðilum við öflun gagna og upplýsinga um vatn og vatnavistfræði og hvar þau væru helst að finna áður en lögin um stjórn vatnamála voru sett og liggja nú þessar upplýsingar fyrir hjá viðkomandi stofnunum. Vinnuhóparnir voru lagðir niður í árslok 2010 en stýrihópurinn starfar áfram. Stýrihópurinn hefur ekkert hlutverk samkvæmt lögum um stjórn vatnamála en hann mun í framtíðinni vera vettvangur fyrir óformlegt samstarf þeirra stofnana sem koma að innleiðingu þessarar nýju löggjafar.

Ráðgjafahópur forstjóra fimm lykilstofnana

  • Umhverfisstofnun – Kristín Linda Árnadóttir
  • Veiðimálastofnun – Sigurður Guðjónsson
  • Veðurstofa Íslands/Vatnamælingar – Árni Snorrason/Jórunn Harðardóttir
  • Orkustofnun – Guðni A. Jóhannesson
  • Hafrannsóknastofnun – Jóhann Sigurjónsson
  • Verkefnisstjóri – Heiðrún Guðmundsdóttir

Vatnasvæði eru fjögur á landinu og starfar ein nefnd á hverju vatnasvæði. Umhverfisstofnun skipar fulltrúa í vatnasvæðisnefndir að fengnum tilnefningum frá sveitarfélögum, náttúruverndar- eða umhverfisnefndum, heilbrigðisnefndum á viðkomandi vatnasvæði og ráðgjafarnefndum. Formaður vatnasvæðisnefnda er fulltrúi Umhverfisstofnunar sem stýrir starfi nefndanna.

Hlutverk vatnasvæðisnefndar er að samræma vinnu við gerð vatnaáætlunar, aðgerðaáætlunar og vöktunaráætlunar og stöðuskýrslu á viðkomandi vatnasvæði og afla þar upplýsinga vegna þeirrar vinnu fyrir viðkomandi vatnasvæði. Vatnasvæðisnefnd skal vera rannsóknastofnunum til ráðgjafar vegna verkefna sem þeim eru falin í samningum við Umhverfisstofnun um málefni sem snerta viðkomandi vatnasvæði.

Ráðgjafarnefnd fagstofnana og eftirlitsaðila skal vera Umhverfisstofnun og vatnaráði til ráðgjafar um atriði sem falla undir lög um stjórn vatnamála. Nefndin skal jafnframt leggja fram nauðsynleg gögn vegna vinnu við gerð áætlana samkvæmt lögunum og upplýsingar um hvaða gögn liggja fyrir.

Í ráðgjafarnefnd fagstofnana og eftirlitsaðila skulu vera m.a. fulltrúar frá Orkustofnun, Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnun, Veiðimálastofnun, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Siglingastofnun Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöð við Mývatn, Matvælastofnun, Mannvirkjastofnun, Landmælingum Íslands, Skógrækt ríkisins, Vegagerðinni, Íslenskum orkurannsóknum, náttúrustofum og heilbrigðisnefndum sveitarfélaga.

Fulltrúar í ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila skulu vera til ráðgjafar um þau málefni sem samtök þeirra helga sig.

Í ráðgjafarnefndinni eiga sæti fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, Bændasamtökum Íslands, Samorku, Landssambandi smábátaeigenda, samtökum veiðiréttarhafa, samtökum veiðifélaga, samtökum útivistarfélaga, hafnarsamböndum, fuglaverndarfélögum, félögum um vernd hálendisins, náttúru- og umhverfisverndarsamtökum og skógræktar- og landgræðslufélögum.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira