Um stjórn vatnamála

Árið 2000 tók Evrópusambandið mikilvægt skref þegar það innleiddi rammatilskipun um verndun vatns (tilskipun 2000/60/EB). Árið 2007 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að innleiða vatnstilskipunina hér á landi. Vatnatilskipunin var síðan innleidd með lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála vorið 2011, og með setningu reglugerðar nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun, og reglugerð nr. 935/2011 um stjórn vatnamála. Undir hatti stjórnar vatnamála eru allar reglugerðir til varnar mengun vatns og grunnvatns, fráveitur og skólp, köfnunarefnis frá landbúnaði og fleiri reglugerðir á sviði umhverfisverndar. Innleiðingatímabil stjórnar vatnamála er árin 2011-2015 og fyrsta framkvæmdatímabil vatnastjórnar er árin 2016-2021. Með stjórn vatnamála er komið á lögbundinni stjórnun og verndun vatns óháð stjórnsýslumörkum, samþættri vatnastjórnun óháð ólíkri stefnumörkun sveitarfélaga, og tímasettri áætlun um aðgerðir til að bæta ástand vatns eða viðhalda góðu ástandi þess. Í lögunum nær skilgreining á vatni yfir ár, stöðuvötn, árósa, sjávarlón, strandsjó, grunnvatn og jökla.

 

Staðreyndir um vatn og vatnaáætlun


Vatn er forsenda alls lífs á jörðunni, því allt líf þarf á vatni að halda. Vatn er lykilþáttur í mótun landslags og er hluti af sköpun og viðhaldi velmegunar og hagkerfa samfélaga, m.a. vegna landbúnaðar, fiskveiða, raforkuframleiðslu, iðnaðar, ferðamennsku og flutninga. Álag á vatn eykst stöðugt vegna nýrra íbúðahverfa, varnargarða, hafna, losunar frárennslis, námugraftrar, notkunar áburðar og varnarefna og vegna fiskveiða. Mengun og breyting á vatnsfarvegum og vatnsrennsli hafa mikil og oft óæskileg áhrif á vatn.

Stór hluti vatns á Íslandi er í góðu ástandi, ómengað og lítt raskað, en á nokkrum stöðum er vatn undir staðbundnu álagi af mannavöldum, einkum við stærri þéttbýlissvæði, ýmis framleiðslufyrirtæki, iðnaðarfyrirtæki og á virkjunarsvæðum. Víða á meginlandi Evrópu er mun meira álag á vatn, og þar býr nær helmingur íbúanna á svæðum þar sem vatn er undir einhvers konar álagi. Á heildina litið er talið að um 20% yfirborðsvatns á meginlandi Evrópu stafi hætta af mengun. Um 60% evrópskra borga ofnýta grunnvatnsuppsprettur og 50% votlendis er í hættu. Sambærilegar upplýsingar verða teknar saman fyrir Ísland í tengslum við stjórn vatnamála og birtar í vatnaáætlun.

Helstu þættir vatnaáætlunar eru flokkun vatns í vatnshlot, kortlagning álags og áhrifa á vatnshlot af mannavöldum, yfirlit yfir vernduð svæði, umhverfismarkmið, aðgerðaráætlun og vöktunaráætlun. Við gerð vatnaáætlunar er gert ráð fyrir víðtæku samræmi við hagsmunaaðila og almenning, m.a. með opinberum kynningum. Hver vatnaáætlun gildir í 6 ár í senn og á næstu 6 ára tímabilum verður hún endurskoðuð og betrumbætt. Gert er ráð fyrir að fyrsta vatnaáætlun Íslands taki gildi í byrjun árs 2016.

Ísland er eitt vatnaumdæmi og því er skipt niður í fjögur undirsvæði í reglugerð um stjórn vatnamála. Í hverju undirsvæði sem kallað er vatnasvæði eru starfandi vatnasvæðisnefndir. Í vatnasvæðisnefndum eiga sæti fulltrúar sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda, náttúruverndar- og umhverfisverndarnefnda, fulltrúar ráðgjafanefnda hagsmunaaðila og fagstofnana og eftirlitsaðila. Fulltrúar í vatnasvæðisnefndum koma að gerð vatnaáætlunar, aðgerðaáætlana og vöktunaráætlunar.

Innleiðing nýrrar löggjafar um stjórn vatnamála

Lög um stjórn vatnamála, reglugerð um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun og reglugerð um stjórn vatnamála innleiða nýja hugmyndafræði við vatnsvernd og vatnastjórnun. Sem skref í innleiðingunni vann Umhverfisstofnun Áfanga- og verkáætlun 2011-2015, sem lýsir ferlinu við innleiðingu skref fyrir skref. Áætlunin var í kynningu frá 3. nóvember 2011 til 2. maí 2012. Áfanga- og verkáætlunin er unnin samkvæmt flýtiáætlun, þannig að fyrsta framkvæmdatímabil vatnastjórnar á Íslandi verði á sama tíma og annað framkvæmdatímabilið í nágrannalöndunum, eða 2016-2021. Markmið laga um stjórn vatnamála er að ná góðu vistfræðilegu ástandi vatns á Íslandi árið 2021.

Eftirlitsstofnun EFTA mun fylgjast með hverju skrefi í innleiðingunni hér á landi, og fyrsta skrefið í eftirlitinu er að fylgja eftir hvort tilskipanir er varða vatn og stjórn vatnamála og teknar hafa verið upp í EES samninginn hafir verið innleiddar innan tilskilins frests. Eftirlitsstofnun EFTA fylgist með framkvæmd stjórnar vatnamála, s.s. gerð stöðuskýrslu um ástand vatns og vatnaáætlun ásamt tilheyrandi aðgerðaráætlun og vöktunaráætlun.

Við gerð vatnaáætlunar sem unnin verður á vegum Umhverfisstofnunar taka fjölmargir aðilar þátt. Margar fagstofnanir taka þátt í undirbúningsvinnunni, s.s. Veðurstofa Íslands, Veiðimálastofnun, Hafrannsóknastofnunin, Orkustofnun, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Aðrir sem taka þátt eru vatnasvæðisnefndir, ráðgjafanefndir fagaðila og eftirlitsaðila og hagsmunaaðila, og síðast en ekki síst almenningur.

 

Kynningar áætlana

Áfanga- og verkáætlun 2011 til 2015 var í kynningu í 6 mánuði, frá 3. nóvember 2011-2. maí 2012. Stöðuskýrsla fyrir vatnaumdæmið verður í kynningu frá 7. desember 2012 til 7. júní 2013 og vatnaáætlunin sjálf verður í kynningu frá 1. júlí 2014 til 30.júní 2015. Jafnframt við gerð vatnaáætlunar þarf að vinna og kynna umhverfisskýrslu vegna umhverfismats vatnaáætlunar í hálft ár.

Allir landsmenn hafa rétt á því að hafa áhrif á vatnastjórnun. Íbúar og aðrir hagsmunaaðilar þekkja sitt heimasvæði og því er þátttaka þeirra mikilvæg, m.a. til að finna hvar álag á vatn er til staðar og hvaða aðgerða er þörf til að bæta eða viðhalda ástandi vatns. Almenningur er hvattur til að kynna sér Áfanga- og verkáætlun 2011-2015.

Lögin um stjórn vatnamála mynda ramma yfir margar reglugerðir á sviði umhverfismála. Þær helstu eru reglugerð um neysluvatn, varnir gegn mengun vatns, reglugerð um varnir gegn mengun grunnvatns, reglugerð um fráveitur og skólp, reglugerð um meðhöndlun seyru, reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri og reglugerð um mengunarvarnaeftirlit. Að auki tengjast tilskipanir ESB um flóð og haf lögum um stjórn vatnamála.

Flokkun vatns í vatnshlot er forsenda stjórnar vatnamála.

Samkvæmt reglugerð nr. 535/2011, um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun skal skipta öllu vatni, bæði yfirborðsvatni og grunnvatni í vatnshlot (e. Water body). Ein á og vatnasvið hennar getur talist eitt vatnshlot, allt frá minnstu lækjum til strandar, sem og stöðuvatn og vatnsvið þess, árós og vatnasvið hans, grunnvatns í samfelldu lagi og strandsjór þar sem sjávarmassi er af samskonar uppruna.

Notkun einingarinnar vatnshlot er talin besta leiðin í vatnastjórnun. Flokkun vatns í vatnshlot er óháð stjórnsýslumörkum, því vatn getur runnið í gegnum fleiri en eitt sveitarfélag á leið sinni til sjávar.

Álag af völdum mengunar eða annarra þátta getur haft þau áhrif að skilgreindum vatnshlotum fjölgi. Þannig getur þurft að skipta einni á upp í tvö vatnshlot þar sem lítt snortinn hluti hennar er eitt vatnshlot og raskaður/mengaður hluti hennar er annað.

Samþætt vatnastjórnun leiðir til heildrænnar verndar þess vatns sem er í hverju vatnshloti, allt frá upptökum til ósa, með samræmdri aðferðarfræði þar sem allir hagsmunaaðilar taka þátt í ákvarðanatöku. Einstaka mæling á vatnsgæðum gagnast lítið nema heildarmyndin sé skoðuð, og metið hvernig ástand vatns er ofar eða neðar í vatnshlotinu.

Með stjórn vatnamála er lögð sú skylda á stjórnvöld að útbúa vatnaáætlun svo bæta megi ástand vatnshlota eða koma í veg fyrir að ástand þeirra versni. Þátttaka almennings er mikilvæg við gerð slíkrar áætlunar.

Vatn skal ná góðu vistfræðilegu og efnafræðilegu ástandi, til þess að vernda heilsu manna, vistkerfi, neysluvatn og líffræðilegan fjölbreytileika.

Í samræmi við löggjöf um stjórn vatnamála skal allt vatn ná umhverfismarkmiðum um gott vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand fyrir lok árs 2021. Vægari umhverfismarkmið má setja ef ógerlegt eða óhóflega dýrt er að ná góðu ástandi, þó með því skilyrði að ástand vatns versni ekki frekar (sbr. 16. gr. laga um stjórn vatnamála).

Skilgreining á vistfræðilegu ástandi nær til vatnaflóru og –fánu, næringarefnainnihalds, þátta eins og seltu og hitastigs, efnamengunar, vatnsmagns, vatnsrennslis, vatnsdýpis og lögunar vatnsfarvegar. Flokkunarkerfi fyrir vistfræðilegt ástand yfirborðsvatns gerir ráð fyrir fimm gæðaflokkum:

  • Mjög gott ástand/náttúrulegt ástand
  • Gott ástand
  • Ekki viðunandi ástand
  • Slakt ástand
  • Lélegt ástand

Mjög gott ástand/náttúrulegt ástand er skilgreint sem ekkert eða mjög lítið álag af manna völdum (viðmiðunarástand):

Gott ástand er skilgreint sem lítið raskað af manna völdum (smávægileg frávik frá viðmiðunarástandi):

Ekki viðunandi ástand er skilgreint sem nokkur röskun af mannavöldum (nokkurt frávik frá náttúrulegu ástandi) o.s.frv. Lendi vatn í þremur síðast töldu flokkunum er aðgerða þörf til þess að bæta ástand þess. Eins og áður sagði getur á skipst upp í fleiri en eitt vatnshlot vegna álags.

Ákvörðun um efnafræðilegt ástand vatnshlots byggir á gæðaviðmiðum fyrir 33 mengunarefni, svokölluð forgangsefni. Reglugerð um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun miðar við tvo flokka fyrir efnafræðilegt ástand yfirborðsvatnshlota; gott efnafræðilegt ástand og nær ekki góðu efnafræðilegu ástandi.

Flokkunarkerfi fyrir grunnvatn miðar við efnaástand og magnstöðu, þar sem flokkar eru tveir; þ.e. gott og slakt efnafræðilegt ástand og góð og óviðunandi magnstaða. Markmið stjórnar vatnamála er að grunnvatn skuli ekki vera mengað og að jafnvægi sé á milli vatnstöku og endurnýjunar grunnvatns.

Greining álags á vatnshlot:

Í reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun kemur fram að flokka eigi allar ár, stöðuvötn, árósa, sjávarlón, grunnvatn og strandsjó í vatnshlot. Álag á vatnshlot eða hluta þess, s.s. vegna mengunar getur orðið til þess að skilgreindum fjölda vatnshlota fjölgar. Þannig getur ein á skipst upp í tvö vatnshlot þar sem eitt vatnshlot er þar sem mengunar gætir og annað vatnshlot er þar sem áin er ósröskuð.

Greina skal allt álag sem hefur eða getur haft neikvæð áhrif á vatnshlot. Síðan skal meta hvaða álagsþáttur hefur mest áhrif, hver næst mest o.s.frv. Einnig skal lýsa með hvaða hætti hver álagsþáttur hefur neikvæð áhrif á vatnshlot svo að hægt sé að undirbúa aðgerðir til að draga úr eða koma í veg fyrir viðkomandi álagsþátt.  

Á hverju vatnasvæði skal starfrækt vatnasvæðisnefnd

Vatnasvæðisnefnd skal skipuð fulltrúum sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda, náttúruverndar- eða umhverfisnefnda, ráðgjafanefndar fagstofnana og eftirlitsaðila, ráðgjafanefndar hagsmunaaðila og Umhverfisstofnunar. Fulltrúi Umhverfisstofnunar verður formaður vatnasvæðisnefnda. Í ráðgjafanefnd fagstofnana og eftirlitsaðila er m.a. gert ráð fyrir fulltrúum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og í ráðgjafanefnd hagsmunaaðila er m.a. gert ráð fyrir fulltrúum frjálsra félagasamtaka s.s. á sviði útivistar, stangveiða, ferðaþjónustu, náttúruverndar og umhverfisverndar. Gert er ráð fyrir nánu samstarfi framangreindra aðila í vatnasvæðisnefndunum.

 

Umhverfisstofnun í samvinnu við vatnasvæðanefndir skulu útbúa stöðuskýrslu um mikilvæg atriði í vatnaáætlun

Umhverfisstofnun í samvinnu við vatnasvæðanefndir á að taka saman efni um álag á vatn sem sett verður í stöðuskýrslu um mikilvæg atriði í vatnaáætlun. Með stöðuskýrslunni á að nást yfirsýn yfir helsta álag sem hefur óæskileg áhrif á vatn. Stöðuskýrslan verður kynnt opinberlega frá 7. desember 2012 til 7. júní 2013 og mun Umhverfisstofnun sjá um þá kynningu. Umhverfisstofnun mun birta skýrsluna upp úr miðju ári 2013. Vatnaáætlun er lokaafurð innleiðingar vatnastjórnunar. Helstu þættir hennar eru flokkun vatns í vatnshlot, kortlagning álags og áhrifa á vatnshlot, yfirlit yfir vernduð svæði, umhverfismarkmið, flokkun á ástandi, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun. Umhverfisstofnun mun útbúa tillögu að vatnaáætlun.

Setning umhverfismarkmiða

Fyrir hvert vatnasvæði skal setja fram umhverfismarkmið um að draga úr álagi og bæta eða viðhalda ástandi vatns. Samkvæmt lögum um stjórn vatnamála skal markmiðunum náð eigi síðar en 6 árum eftir að fyrsta vatnaáætlun hefur verið staðfest, eða árið 2021.

Eftirfarandi spurningum skal svarað í stöðuskýrslu um mikilvæg atriði í vatnaáætlun:

  • Hverjir eru helstu álagsþættir af starfsemi manna sem gætu haft neikvæð áhrif á vatn á vatnasvæðinu?
  • Hver eru umhverfismarkmið vatnastjórnunar á vatnasvæðinu?
  • Hvaða aðgerðir eru mögulegar til að bæta ástand vatns fram til ársins 2021 og hvernig á að forgangsraða þeim?
  • Hvaða vatnshlot er hætt við að nái ekki góðu ástandi fyrir lok árs 2021?
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira