Ákvörðun aukaafurða í iðnaði sbr. lög um meðhöndlun úrgangs

Þann 16. maí 2014 voru samþykkt lög nr. 63/2014 (tóku gildi 27. maí sl.), um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Um var að ræða innleiðingu m.a. á ákvæðum tilskipunar 2008/98/EB, tilskipun Evrópusambandsins um úrgang. 

Í breytingarlögunum kemur fram það markmið að stuðlað sé að sjálfbærri auðlindanotkun með aðgerðum og fræðslu til að draga úr myndun úrgangs. Hugtakið úrgangsforvarnir er innleitt og skilgreint sem ráðstafanir sem gerðar eru áður en efni, efniviður eða vara er orðin að úrgangi og dregur m.a. úr magni úrgangs. 

Með 9 . gr. breytingarlaganna er innleitt hugtakið aukaafurðir í lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og verður 20. gr. laganna. Efni eða hlutur, sem verður til í framleiðsluferli þar sem frumtilgangurinn er ekki framleiðsla þess efnis eða hlutar, telst vera aukaafurð en ekki úrgangur að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  • öruggt er að efnið eða hluturinn verða notuð áfram, 
  • nota má efnið eða hlutinn beint án frekari vinnslu, í stað þeirrar sem er viðtekin venja í iðnaði, 
  • efnið eða hluturinn eru framleidd sem óaðskiljanlegur hluti í framleiðsluferli, og 
  • frekari notkun er lögmæt, þ.e. efnið eða hluturinn uppfyllir allar sértækar vöru-, umhverfis- og heilsuverndarkröfur vegna viðkomandi notkunar og mun ekki hafa í för með sér neikvæð áhrif á umhverfið eða heilbrigði manna þegar til heildarinnar er litið. 

Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um aukaafurðir, sbr. 43. gr. laganna. Samkvæmt óformlegum upplýsingum frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, eftir gildistöku breytingarlaganna, er ráðuneytið ekki með til skoðunar að setja slíka reglugerð. 

Kemur þá til skoðunar hver og hvað ráði því í hverju tilfelli hvort tiltekið efni eða hlutur sé aukaafurð eða úrgangur. Að lokinni samræmdri skoðun réttarheimilda er niðurstaðan sú að það er rekstraraðili sjálfur sem hefur mikið svigrúm til að álíta að efni eða hlutur sem hann hefur undir höndum, sem orðið hefur til í framleiðsluferli þar sem frumtilgangurinn var ekki framleiðsla þess efnis eða hlutar, uppfylli skilyrðin um aukaafurðir sem koma fram í 20. gr. laganna. 

Að sama skapi er ljóst að eftirlitsaðili starfsleyfisskylds rekstraraðila hefur heimildir til að ákvarða hvort sú túlkun rekstraraðila sé rétt eða ekki, m.a. með beitingu þvingunarúrræða. 

Niðurstaðan er því sú að það er rekstraraðili sjálfur sem hefur frumkvæði að nýtingu ákvæðanna um aukaafurðir og leggur þar eigin mat til grundvallar. Það er síðan hlutverk eftirlitsaðila að leggja mat á þá niðurstöðu rekstraraðilans í hverju tilfelli fyrir sig. Ef ekki næst sameiginleg niðurstaða og eftirlitsaðili hefur beitt úrræðum sínum getur rekstraraðili farið með málið fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 66. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum. 

Þar sem frumkvæði að nýtingu ákvæðanna um aukaafurðir liggur hjá rekstraraðilum í iðnaði er erfitt að sjá fyrir hve víðtæk notkunin verður hér á landi. Reynsla og tími munu leiða það í ljós. Jafnframt er örðugt að gefa dæmi um hvað gæti verið aukaafurð í iðnaði hérlendis sem uppfyllir skilyrðin. 

Þess má geta að ef efni eða hlutur sem rekstraraðili lætur frá sér er álitið uppfylla skilyrði sem aukaafurð, þá er rekstraraðili ekki skyldugur til að skrá þær aukaafurðir sínar, sem áður voru skráðar sem úrgangur, hvorki í útstreymisbókhald sbr. reglugerð nr. 990/2008 né í grænt bókhald sbr. reglugerð nr. 851/2002. 

Hér hefur ekki verið fjallað um aukaafurðir dýra eins og skilgreindar eru í reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002, um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis, sbr. innleiðingarreglugerð nr. 108/2010, enda taka lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, ekki lengur til aukaafurða úr dýrum, sbr. 2. gr. laganna, að undanteknum þeim sem eiga að fara í brennslu, til urðunar eða til notkunar í lífgas- eða myltingarstöð, sem teljast þá vera úrgangur. 

Í stuttu máli 

  1. Skilyrði um hvað telst vera aukaafurð í iðnaði má finna í 20. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. 
  2. Rekstraraðili metur sjálfur hvort efni eða hlutur sem fellur til í framleiðsluferli teljist uppfylla skilyrðin. 
  3. Eftirlitsaðili/útgefandi starfsleyfis leggur mat á hvort rekstraraðili starfi eftir lögum og reglum, m.a. um hvort efni eða hlutir sem hann losar sig við teljist aukaafurðir eða úrgangur. 
  4. Eftirlitsaðili/útgefandi starfsleyfis getur beitt þvingunarúrræðum sínum ef rekstraraðili fer ekki að fyrirmælum. 
  5. Rekstraraðili getur borið ágreining undir úrskurðarnefnd.
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira