Raf- og rafeindatæki

Framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja bera ábyrgð á þeim raf- og rafeindatækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn hingað til lands. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs. Ábyrgð framleiðanda og innflytjenda nær til landsins alls án tillits til þess hvar varan er seld.

Framleiðendur og innflytjendur eiga einnig að sjá til þess að raf- og rafeindatæki séu merkt með mynd af yfirstrikaðri sorptunnu, en merkið gefur til kynna að safna skuli raftækjum sérstaklega. Framleiðendum og innflytjendum ber einnig að upplýsa kaupendur um mikilvægi endurnotkunar, endurnýtingar og endurvinnslu og að mögulega geti verið efni í tækjunum sem hættuleg eru heilsu manna og dýra.

Í verslunum með sölusvæði stærra en 400m2 á að taka á móti litlum raf- og rafeindatækjum (með ekkert ytra mál yfir 25cm) án endurgjalds og skilyrða.

Erlendum framleiðendum er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa hér á landi sem yrði ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans. Íslenskir framleiðendur sem selja raf- og rafeindatæki með fjarskiptamiðlum beint til notenda í öðru EES ríki skulu tilnefna viðurkenndan fulltrúa í því ríki.

Markmiðið með ofangreindri framleiðendaábyrgð er að draga úr myndun raf- og raftækjaúrgangs, auka endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund allra sem koma að vörunni á lífsferli hennar.

Framleiðandi og innflytjandi er aðili sem, óháð þeirri sölutækni sem er notuð,

 • framleiðir raf- og rafeindatæki undir eigin heiti eða vörumerki eða lætur hanna eða framleiða raf- og rafeindatæki og markaðssetur undir eigin heiti eða vörumerki, í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð,
 • endurselur raf- og rafeindatæki undir eigin heiti eða vörumerki, sem aðrir birgjar framleiða í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð; endursöluaðili telst þó ekki vera framleiðandi ef vörumerki framleiðandans er á tækjabúnaðinum eins og kveðið er á um í i. lið,
 • setur raf- og rafeindatæki frá öðru ríki á markað í atvinnuskyni í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð,
 • selur raf- og rafeindatæki með fjarsamskiptamiðlum beint til notenda yfir landamæri, eða
 • flytur raf- og rafeindatæki inn eða út úr landinu í atvinnuskyni.

 

 

Breytt fyrirkomulag við innflutning frá 1. janúar 2015

Raf- og rafeindatæki falla nú undir lög nr. 162/2002 um úrvinnslugjald. Sjá nánar einnig urvinnslusjodur.is. Úrvinnslusjóði er falið það hlutverk framleiðanda og innflytjanda að tryggja söfnun og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs. Sjóðnum ber einnig að ná tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun raf- og rafeindatækjaúrgangs. Til að standa undir kostnaði er lagt á sérstakt úrvinnslugjald. Framleiðendum og innflytjendum ber einnig að vera skráðir í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda hjá Umhverfisstofnun og gerist það sjálfvirkt í gegnum Tollstjórann.

Lög og reglugerðir

Kynning á breytingu á reglugerðum um rafhlöður, rafgeyma og raf- og rafeindatæki 

Í október var haldinn stuttur kynningarfundur fyrir atvinnurekendur og sveitarfélög um breytingar á reglugerðum um rafhlöður og rafgeyma og raf- og rafeindatækjaúrgang. Einnig var farið stuttlega yfir í hverju eftirlit Umhverfisstofnunar felst. Kynninguna má sjá hér.

 

Innflytjendur og framleiðendur eru ábyrgir fyrir því að:

 • Vera skráðir í skráningarkerfi hjá Umhverfisstofnun (innflytjendur eru sjálfkrafa skráðir í gegnum Tollstjóra en framleiðendur þessara vara þurfa að skrá sig hjá Ríkisskattstjóra).
 • Merkja raf- og rafeindatæki (sjálfa vöruna) með tunnumerkinu (yfirstrikuð sorptunna)
 • Upplýsa kaupendur um að úrsérgengnum raf- og rafeindatækjum eigi að skila til endurvinnslu eða hvetja kaupendur til endurnotkunar og endurnýtingjar á þeim. Einnig eiga innflytjendur og framleiðendur að benda kaupendum á að skil á raftækjum eru gjaldfrjáls og að slík tæki geti innihaldið hættuleg efni, bæði mönnum og dýrum.
 • Verslanir með yfir 400msölupláss eiga að taka gjaldfrjálst á móti raf- og rafeindatækjum sem eru minni en 25cm á alla kant, án endurgjalds eða skilyrða.
 • Framleiðendur raf- og rafeindatækja sem selja beint til notenda í öðru ríki skulu tilnefna viðurkenndan fulltrúa í því ríki.

Sveitarfélög eru ábyrg fyrir því að:

 • Starfrækja söfnunarstöðvar í sveitarfélaginu
 • Skulu hafa aðstöðu fyrir móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi og að móttakan sé gjaldfrjáls
 • Ber einnig að veita leiðbeininar um hvernig beri að flokka raf- og rafeindatækjaúrgang og skila honum til söfnunarstöðva og að þessi úrgangur megi ekki fara í almennan úrgang.

Markmið eftirlitsins er að sjá til þess að lögum og reglum sé framfylgt. Í því felst meðal annars að hækka söfnunarhlutfall þessa úrgangs og sjá til þess að upplýsingagjöf til viðskiptavina sé framfylgt. Því er mikilvægt að verkefnið sé unnið í góðu samstarfi við aðila á markaði og að allir hlutaaðeigandi komi að því að hvetja notendur til að skila úrganginum rétt af sér. Umhverfisstofnun hefur sett upp eftirlitsáætlun til ársloka 2020. Í henni er lögð áhersla á eftirlit með skyldum sveitarfélaga um móttöku rafhlaða, rafgeyma og raf- og rafeindatækjaúrgangs í samstarfi við heilbrigðieftirlitin. Þá verður farið í eftirliti til þeirra sem framleiða rafhlöður, rafgeyma og raf- og rafeindatæki á Íslandi og áhersla lögð á fræðslu og miðlun á þessum málaflokki.

Raftækjaúrgangur er sá úrgangsflokkur sem er hvað mest vaxandi í heiminum og var söfnun á raftækjum árið 2016 aðeins um 32% á Íslandi. Því er mikilvægt að fræða almenning og fyrirtæki um söfnun og rétta förgun á slíkum úrgangi.

Eftirlitstímabil
Tími
Fjöldi framleiðenda og innflytjenda
2015
4 vikur
16 aðilar
2016
4,5 vikur
18 aðilar
2017
4,5 vikur
18 aðilar

 

Umhverfisstofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum frá tolla- og skattayfirvöldum um heildarmagn, magn í einstökum flokkum og magn frá einstökum framleiðendum og innflytjendum vegna framleiðslu og innflutnings á raf- og rafeindatækjum sem falla undir lögin.  

Hvað á fyrirtæki að gera sem fær athugasemd eftir eftirlitsheimsókn?

 • Ráðast í úrbætur samkvæmt niðurstöðum eftirlitsheimsóknar
 • Hægt að senda fyrirspurnir eða leita ráða hjá ust@ust.is
 • Innflutningsaðilar og framleiðendur bera mesta ábyrgðina á því að réttar upplýsingar berist til viðskiptavina. Þá geta þeir aðilar þar sem vörur eru ekki nægilega vel merkar leyst úr því með því að til dæmis:
  • Hafa almennar upplýsingar til viðskiptavina við afgreiðslukassa eða við hillur með raf- og rafeindatækjum
  • Setja upplýsingar á kvittanir til viðskiptavina
  • Setja upplýsingar á vefsíðu

Til að ná auknu söfnunarhlutfalli á raf- og rafeindatækjaúrgangi þá er mikilvægt að öllum notendum (fyrirtækjum og einstaklingum) sé kunnugt um hvernig þeim beri að flokka og skila vörunum eftir notkun. Söfnunarhlutfall raf- og rafeindatækja hefur aukist milli ára en mikilvægt er að gera enn betur (sjá greiningu á http://ust.is/einstaklingar/urgangur/tolfraedi/). Innihaldsefni í þessum vörum geta verið skaðleg heilsu og umhverfi og því mikilvægt að fá þessa úrgangsflokka til endurvinnslu og endurnýtingar. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að efni úr þeim mengi umhverfið okkar og um leið minnkum við sóun á hráefnum eins og nikkel, blý, kópar, járn, ál, plast og lithium og fleiri efnum.

Innflytjendur og framleiðendur raf- og rafeindatækja ber skylda að upplýsa viðskiptavini sína um söfnun og förgun úr sér genginna vara, hvar hægt er að skila þeim og að það sé neytendum að kostnaðarlausu. Margir framleiðendur eru þegar farnir að setja slíkar upplýsingar í bæklinga með vörum en þar sem slíkt er ekki fyrir hendi þarf að bæta úr. Framleiðendur og innflytjendur geta gert það með því að setja upp almennar upplýsingar til viðskiptavina sinna t.d. með auglýsingu við afgreiðslukassa, á vörurnar sjálfar, við hillur þar sem vörurnar eru, á vefsíðu, kassastrimil eða með öðrum hætti en þó þannig að upplýsingarnar verði sýnilegar viðskiptavinum.

Það er undir aðilum á markaði komið hvernig þeir kjósa að setja þessar upplýsingar fram en Umhverfisstofnun gefur fyrirtækjum hér nokkur dæmi um texta sem þau geta nýtt sér.

„Flokkum og skilum án endurgjalds raf- og rafeindatækjum til endurvinnslu og drögum þannig úr ofnýtingu auðlinda. Mörg raftæki innihalda hættuleg spilliefni sem meðhöndla þarf með viðeigandi hætti auk fágætra málma sem nýst geta aftur.“

"Rafhlöður og rafgeymar geta innihaldið efni s.s. blý, kadmíum og kvikasilfur sem geta verið skaðleg heilsu okkar og umhverfi. Skilum alltaf vörunum eftir notkun til okkar (ef innflytjandi/framleiðandi er sölu- og dreifingaraðili líka),  móttökustöðva sveitarfélaga eða til spilliefnamóttöku - neytendum að kostnaðarlausu"

"Setjum ekki hættuleg mengandi efni út í náttúruna - Flokkum og skilum rafhlöðum og rafgeymum – neytendum að kostnaðarlausu"

"Rafhlöður og rafgeymar eru spilliefni og mega ekki fara í almennt sorp. Hjálpumst öll að við að flokka og skila. Þú mátt skila vörunum til okkar, móttökustöðva sveitarfélaga eða spilliefnamóttöku og það kostar þig ekki neitt."

"Þú mátt skila rafhlöðum og rafgeymum hér"

Samkvæmt reglugerð nr. 442/2015 ber framleiðendum og innflytjendum raf- og rafeindatækja að skrá sig í skráningarkerfi í umsjá Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun er heimilt að notast við upplýsingar frá tolla- og skattayfirvöldum um greiðendur úrvinnslugjalds og sækir þær upplýsingar frá viðeigandi yfirvöldum.  Hingað til hefur Umhverfisstofnun fengið upplýsingar um innflytjendur frá Tollstjóra en skortur er á að fyrirtæki skrái sig hjá Ríkisskattstjóra sem framleiðandi. Umhverfisstofnun hvetur fyrirtæki til þess að gera það. Tilgangurinn með skráningakerfinu er svo að hægt sé að greina betur magn þessara tækja og ákvarða eftirlit eftir því. 

Skrá yfir framleiðendur og innflytjendur

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira