Náttúruverndarnefndir

Náttúruverndarnefndir hafa lögbundnum hlutverkum að gegna samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 44/1999. Í 11. gr. laganna segir að á vegum hvers sveitarfélags eða héraðsnefndar skuli starfa 3-7 manna náttúruverndarnefnd og skal sveitarstjórn eða héraðsnefnd kjósa hana til fjögurra ára, velja formann og setja nefndinni erindisbréf. Helstu lögbundnu hlutverk náttúruverndarnefnda eru talin upp í náttúruverndarlögunum, í 11. gr er fjallað almennt um hlutverk þeirra en einnig er að finna tilvísun til þeirra verkefna sem nefndunum ber að sinna á víð og dreif í lögunum. Hlutverk náttúruverndarnefnda er að vera sveitarstjórn til ráðgjafar um náttúruverndarmál, að stuðla að náttúruvernd, hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir sem líkleg er til að hafa áhrif á náttúruna og að gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar. Stofnun náttúruverndarnefnda byggir á nálægðarsjónarmiði, það er að taka eigi ákvarðanir eins nálægt vandanum og hægt er þar sem þeir sem búa á svæðinu vita best hvar úr má bæta og hvar mestar líkur eru á að ná fram jákvæðum breytingum.

Að vera sveitarstjórn til ráðgjafar um náttúruverndarmál

Náttúruverndarnefndunum er ætlað almennt ráðgjafarhlutverk um náttúruverndarmál. Ákvæðið er mjög opið en gert er ráð fyrir að sveitarstjórn geti bæði leitað til náttúruverndarnefnda en einnig að náttúruverndarnefndir geti komið fram með beinar tillögur eða ábendingar t.d. um stofnun fólkvangs sbr. 55. gr. laganna eða um stuðning við útivistarsvæði sbr. 70. gr.

Kynna almenningi réttindi sín og skyldur

Náttúruverndarnefndir eiga að stuðla að fræðslu um efni náttúruverndarlaganna með sérstaka áherslu á réttindi og skyldur almennings. Dæmi um efni sem ávallt er mikilvægt að kynna er almannarétturinn og þá bæði fyrir þeim sem eiga réttin til óheftrar farar um landið en einnig til þeirra sem eiga landið. Hér er rétt að hafa í huga mismunandi reglur sem gilda þegar um er að ræða ræktað og óræktað land og að almannarétti fylgir einnig skyldan um að ganga vel um landið. Gera tillögur til úrbóta til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar.

Náttúruverndarnefndir hafa einnig rétt á að koma með beinar tillögur til úrbóta til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar. Byggir þessi tillöguréttur á að náttúruverndarnefndunum ber að hafa virkt eftirlit með ástandi lands og vita því hvar ástæða er til að taka til hendinni t.d varðandi fegrun nánasta umhverfis. Náttúruverndarnefndirnar hafa hér mikið svigrúm til að láta til sín taka en verða þó að hafa í huga að fara ekki inn á valdsvið annarra nefnda á vegum sveitarstjórnar.

Hlutverk náttúruverndarnefnda skv. einstökum ákvæðum náttúruverndarlaga

Heimild til að annast eftirlit með náttúru landsins

Umhverfisstofnun er heimilt að gera samning við náttúruverndarnefndir um að þeim beri að annast almennt eftirlit með náttúru landsins og skal sá samningur staðfestur af umhverfisráðherra.

Skylda til að veita umsagnir

Náttúruverndarnfndum ber að gefa umsagnir vegna tillagna að svæðis- og aðalskipulagi og vegna úrskurða um mat á umhverfisáhrifum skv. 33. gr. náttúruverndarlaga. Þeim ber einnig að veita umsögn áður en framkvæmda- og byggingarleyfi er veitt til framkvæmda sem hafa í för með sér röskun jarðmyndana og vistkerfa skv. 37. gr. laganna nema ef umsögn þeirra liggur þegar fyrir. Að lokum ber náttúruverndarnefndum samkvæmt 47. gr. laganna að veita umsögn um framkvæmdarleyfi vegna efnistöku á landi, af eða úr hafsbotni innan netlaga. Mjög mikilvægt er að náttúruverndarnefndir sinni þessu hlutverki sínu og komi fram ábendingum á sínu sviði. Þessi skylda sem hvílir á náttúruverndarnefndum setur einnig nokkrar skorður á heimildir sveitarstjórna til að sameina nefndir þar sem sömu nefndinni getur ekki bæði verið falið að veita leyfi til framkvæmda og gefa umsögn um það með hagsmuni náttúrunnar í huga í samræmi við náttúruverndarlög.

Samráð við Umhverfisstofnun

Gert er ráð fyrir að náttúruverndarnefndirnar séu tengiliðir Umhverfisstofnunar við sveitarfélögin og íbúa þess hvað varðar náttúruvernd. Því er kveðið á um í 65. gr. laganna að Umhverfisstofnun beri að hafa samráð við náttúruverndarnefndir við gerð tillögu að náttúruverndaráætlun. Einnig ber Umhverfisstofnun skv. 67. gr. laganna að hafa samráð við náttúruverndarnefndir vegna undirbúnings og öflun gagna vegna viðbóta við náttúruminjaskrá og heildarútgáfu hennar.

Stuðningur við útivist í sveitarfélaginu

Samkvæmt 70. gr. náttúruverndarlaga ber náttúruverndarnefndum að styðja við útivist með því að halda opnum göngustígum, strandsvæðum til sjóbaða, vatnsbökkum, öðrum stígum o.s.frv. Þessa grein ber meðal annars að hafa í huga þegar veittar eru umsagnir um tillögur að svæðis- og aðalskipulögum.

Tengsl náttúrustofa og náttúruverndarnefnda

Í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur nr. 60/1992 segir í 11. gr. að náttúrustofum beri að veita náttúruverndarnefndum á starfsvæði sínu upplýsingar og ráðgjöf á verksviði stofnunarinnar.

Aðgengi og útivist í náttúru Íslands

Hver er réttur og hverjar eru skyldur þeirra sem ferðast um Ísland? Í lögum um náttúruvernd eru ákvæði sem fjalla um almannarétt, umgengni og útivist. Þar segir að öllum sé heimilt að fara um landið og njóta náttúru þess svo fremi að gengið sé vel um og þess gætt að spilla engu. Heimilt er að fara um óræktuð eignarlönd án sérstaks leyfis. Rétthöfum lands er heimilt að takmarka með merkingum ferðir manna um eignarlönd. Lönd í eigu ríkisins, svo sem náttúruverndar- og skógræktarsvæði, eru öllum opin með fáum undantekningum. Hægt er að takmarka umferð tímabundið, svo sem yfir varptíma eða vegna gróðurverndar.

Náttúruverndarsvæði eru friðlýst af mismunandi ástæðum. Reglur, t.d. um veiðar og umferð, eru breytilegar milli einstakra svæða og því mikilvægt að ferðamenn afli sér nauðsynlegra upplýsinga. Virðum friðlýsingarreglur og tilmæli landvarða.

Sumir ferðamenn leita á náðir náttúrunnar til að finna frið og ró meðan aðrir sækja þangað ævintýri og spennu. Með auknum straumi ferðamanna er viðbúið að leiðir þessara hópa skarist í auknum mæli. Sýnum tillitssemi við aðra á ferðum okkar svo að komist verði hjá árekstrum.

Mikilvægt að hafa í huga

Umgengni

Sérstök ástæða er til að forðast gáleysislega umgengni hér á landi. Gróðursvæði eru víða viðkvæm og íslenskur jarðvegur er grófur, laus í sér og auðrofinn. Sár eru lengi að gróa vegna stutts vaxtartíma gróðurs auk þess sem vatn og vindar geta aukið á rof í sárum.

Með því að leggjast á eitt getum við verndað náttúru og ásýnd landsins og tryggt að fólk fái notið fegurðar landsins til framtíðar. Göngum frá áningarstað eins og við viljum koma að honum. Tökum rusl með til byggða. Virðum eignarrétt og göngum vel um girðingar og hlið. Reynum að trufla ekki dýralíf með óþarfa ágangi. Sýnum tillitssemi og höfum hundinn í bandi. Höfum hugfast að skemmdir á jarðmyndunum verða ekki bættar.

Akstur

Ökum ekki utan vega. Ökutæki getur markað sár í landið sem erfitt er að afmá. Akstur utan vega er bannaður með lögum en leyfilegt er að aka utan vega þegar jörð er snævi þakin og frosin.

Gönguferðir

Heimilt er að fara gangandi um óræktað land. Styttum okkur ekki leið yfir afgirt land, tún eða einkalóðir og virðum reglur um umferð á svæðum þar sem verið er að vernda dýralíf og gróður. Fylgjum merktum göngustígum. Stígarnir eru gerðir til þess að auka öryggi fólks og vísa því rétta leið og draga úr álagi á viðkvæma náttúru.

Landeigendum ber að tryggja að ferðamenn komist meðfram vatnsbökkum og strönd og eftir þjóðleiðum og skipulögðum stígum. Við farartálma skulu vera prílur eða hlið. Um umferð um vötn fer samkvæmt ákvæðum vatnalaga. Vatnsbakkar og hólmar eru oft mikilvæg búsvæði og því ber að ganga þar um af gætni.

Hjólreiðar

Hjólandi fólki ber að fylgja vegum og reiðhjólastígum þar sem þess er kostur. Sumir göngustígar eru ekki til þess gerðir að hjólað sé á þeim og þar er umferð reiðhjóla takmörkuð. Gætum þess að fara ekki illa með gróður og eyðileggja ekki yfirborð stíga þar sem farið er um.

Útreiðar

Hestamönnum ber að fylgja reiðstígum. Hugum að jarðvegi og gróðri á ferð utan reiðstíga. Í hálendisferðum ber að hafa fóður meðferðis. Næturhólfum skal valinn staður á ógrónu landi. Sérstaka gát ber að sýna við stóðrekstur.

Veiðar

Ráðstöfun veiðileyfa og nýtingarréttur eru í höndum veiðirétthafa sem venjulega eru  landeigendur, veiðifélög eða upprekstrarfélög. Þetta á við um ár, vötn og við strendur. Rétt er að spyrjast fyrir um veiðirétt.

Handhöfum veiðikorts er heimilt að veiða fugla utan eignarlanda. Rétthöfum er heimilt að ráðstafa veiðirétti innan sinna landareigna. Leyfi til veiða á ákveðnum tegundum eru bundin árstíma.

Tjaldstaðir

Heimilt er að tjalda til einnar nætur á óræktuðu landi. Landeigendur þurfa að gefa til kynna undantekningar á þeirri reglu með merkingum. Af tillitssemi við landið og eigendur þess ættu menn þó að nýta sér merkt tjaldsvæði verði því við komið og ekki tjalda nærri bæjum án leyfis. Hópum ber undantekningarlaust að ráðfæra sig við rétthafa lands ef þeir hyggjast slá upp tjaldbúð utan merktra tjaldsvæða.

Berjatínsla

Heimilt er að tína ber, sveppi, fjörugróður og aðrar jurtir en ef tínt er í miklum mæli innan eignarlanda þarf til þess leyfi. Heimilt er að tína ber og jurtir á þjóðlendum og afréttum. Athugið að nokkrar jurtir sem vaxa í íslenskri náttúru eru fágætar og friðaðar og óleyfilegt er að skerða þær.

Hugtök

  • Eignarland: Landsvæði sem háð er einkaeignarrétti.
  • Afréttur: Lönd ofan byggða þar sem alla jafna er sumarbeit.
  • Almenningur: Landsvæði, ekki er sýnt fram á einkaeignarréttindi (almenningseign).
  • Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda, hugsanlega takmörkuð eignarréttindi.
  • Náttúruverndarsvæði: Friðlýst svæði, svæði á náttúruminjaskrá og önnur afmörkuð svæði sem njóta verndar skv. lögum.

Formleg friðlýsing skv. náttúruverndarlögum tryggir varðveislu svæða til framtíðar.

Með formlegri friðlýsingu er gert samkomulag og settar reglur sem auglýstar eru í Stjórnartíðindum og þeim verður ekki breytt nema með sama vinnuferli þ.e. samkomulagi og nýrri auglýsingu. Í flestum tilvikum er aðgengi almennings tryggt í samræmi við almennar reglur þar að lútandi.

Hjá Umhverfisstofnun má fá upplýsingar um þær reglur og takmarkanir sem almennt er beitt á friðlýstum svæðum.

Umhverfisstofnun beinir því til fólks að taka til umræðu friðlýsingu náttúruminja á sínu svæði.

Einkum telur stofnunin mikilvægt að fjölga fólkvöngum í nágrenni þéttbýlis. Fólkvangar eru reknir á ábyrgð og að frumkvæði sveitarstjórna. Tilgangur fólkvanga er að tryggja almenningi aðgang að landsvæði til útivistar og fræðslu í nágrenni þéttbýlis.

Sjá nánari upplýsingar um verklag við friðlýsingar.

Umhverfisstofnun stefnir að því að auka verkefni og hlutverk náttúruverndar í héraði. Stofnunin telur að umsjón og eftirlit með friðlýstum svæðum sé yfirleitt best fyrirkomið hjá heimaaðilum, t.a.m. náttúruverndarnefndum. 

Friðlýsing er auglýsing og með sífellt auknu vægi ferðamennsku og náttúruverndar er hagur í því að hafa aðdráttarafl eins og friðlýst svæði sem vel er hugsað um og þar sem veittar eru upplýsingar um náttúru, sögu og þjóðfélag. 

Samkvæmt 34. gr. náttúruverndarlaga getur Umhverfisstofnun falið einstaklingum eða lögaðilum umsjón og vörslu friðlýstra svæða. Umhverfisráðherra staðfestir slíka samninga.

Ákveðið hefur verið að endurskoða aðferðafræði náttúruminjaskráningar á landsvísu þannig að skráningin byggi meira á vísindalegri úttekt og samanburði svæða.

Þrátt fyrir að reynt sé að skrá náttúrugæði út frá fjölbreytileika lífríkis og jarðmyndana verður ætíð huglægur þáttur í náttúrulýsingum sem ekki byggir á vísindalegum forsendum. Fegurð svæðis og útivistargildi byggir á þekkingu á landi, umhverfi og íbúum og virðingu fyrir náttúru og sögu.

Umhverfisstofnun óskar eftir ábendingum um svæði sem ástæða þykir til að vernda.

Meðfylgjandi er listi yfir náttúruverndarnefndir sem eru á skrá hjá Umhverfisstofnun.

 

 

Ef breytingar verða á upplýsingum í ofangreindum lista vinsamlega sendið þá póst til Magneu I. Kristinsdóttur.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira