Skipulag og framkvæmdir

Skipulag er mikilvægur þáttur í náttúruvernd því þar kemur fram stefnumörkun um nýtingu lands.

Í skipulagsáætlunum skal lýsa náttúru og aðstæðum á skipulagssvæðinu við upphaf áætlunarinnar og forsendum stefnumörkunar. Gera skal grein fyrir áhrifum áætlunarinnar og ráðgerðra framkvæmda á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Með skipulagsgerð má því stuðla að skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda.

Náttúruverndarnefndir skulu vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál, sbr. 11. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Samkvæmt 33. gr. laga um náttúruvernd skal leita umsagnar náttúruverndarnefnda við gerð svæðis- og aðalskipulagsáætlana. Mikilvægt er að náttúruverndarnefndir veiti ávallt umsagnir um skipulagstillögur áður en þær eru settar í formlega auglýsingu skv. skipulags- og byggingarlögum svo nefndirnar nýtist sem ráðgefandi aðili og taka megi tillit til ábendinga og athugasemda þeirra strax á vinnslustigi.

Við umsagnir um skipulagsáætlanir ætti að huga að eftirfarandi atriðum

 1. Er mörkuð skýr stefna í þeim málaflokkum sem skipulagsáætlunin tekur til og ef svo er, er þá fyrirhuguð landnotkun í samræmi við þá stefnu.
 2. Eru framkvæmdir fyrirhugaðar innan svæða sem eru á náttúruminjaskrá og ef svo er, geta fyrirhugaðar framkvæmdir skert verndargildi viðkomandi svæða.
 3. Hvaða önnur svæði innan sveitarfélagsins en þau sem eru á náttúruminjaskrá hafa verndargildi, s.s. vegna menningarminja, dýralífs eða jarðfræðiminja og tryggir viðkomandi skipulagsáætlun vernd þeirra. Ef slík svæði eru skilgreind sem hverfisverndarsvæði í skipulagi er mikilvægt að forsendur verndunar komi skýrt fram í greinargerð með skipulaginu og að settar séu fram skýrar reglur um landnotkun, umgengni og mannvirkjagerð.
 4. Mikilvægt er að tryggja vernd svæða sem nýst geta til útivistar og náttúrufræðslu. Má í því sambandi m.a. benda á svæði meðfram ám og vötnum. Strönd er náttúruverðmæti og því æskilegt að halda henni eins óraskaðri og hægt er. Við skipulag byggðar og framkvæmda ætti að gæta þess að hindra ekki aðgengi almennings að vatns-, ár- eða sjávarbökkum, sbr. lög nr. 44/1999 um náttúruvernd. Hefur skipulagsáætlunin áhrif á jarðmyndanir og vistkerfi sem njóta skulu sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.
  • Um er að ræða eftirtaldar jarðmyndanir og vistkerfi: 
  • eldvörp, gervigígar og eldhraun
  • stöðuvötn og tjarnir, 1000 m2 að stærð eða stærri
  • mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri
  • fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur, svo og hrúður og hrúðurbreiður, 100 m2 að stærð eða stærri
  • sjávarfitjar og leirur.
 5. Gera verður skýra grein fyrir frístundabyggð í skipulagsáætlunum og  þarf að koma fram hvaða svæði eru ný og hvort gert er ráð fyrir stækkun núverandi frístundabyggðar. Huga þarf að því að frístundabyggð, sem og önnur landnotkun, raski ekki náttúruminjum og að ekki skapist mengunarhætta vegna mikillar frístundabyggðar, s.s. við ár og vötn.
 6. Marka á skýra stefnu um efnistöku í skipulagsáætlun og gæta þess að sýna  á skipulagsuppdrætti þær námur sem á að nýta í framtíðinni en ekki þær sem á að loka. Í aðalskipulagstillögu á að gera grein fyrir hvernig standa á að frágangi náma sem ætlunin er að loka. Í aðalskipulagi skal gera grein fyrir staðsetningu og stærð efnistökusvæða og fjalla um efnistöku í samræmi við lög nr. 44/1999 um náttúruvernd. Einnig þarf að marka á sem nákvæmastan hátt fyrir útlínum efnistökusvæða á skipulagsuppdrætti.

Verklag

Mikilvægt er að náttúruverndarnefndir veiti ávallt umsagnir um skipulagstillögur áður en þær eru settar í formlega auglýsingu svo nefndirnar nýtist sem ráðgefandi aðili og taka megi tillit til ábendinga og athugasemda þeirra strax á vinnslustigi.

Við umsagnir um skipulagsáætlanir ætti að huga að eftirfarandi atriðum:

 1. Er mörkuð skýr stefna í þeim málaflokkum sem skipulagsáætlunin tekur til og ef svo er, er þá fyrirhuguð landnotkun í samræmi við þá stefnu?
 2. Eru framkvæmdir fyrirhugaðar innan svæða á náttúruminjaskrá og ef svo er, geta fyrirhugaðar framkvæmdir skert verndargildi viðkomandi svæða?
 3. Hvaða önnur svæði en þau sem eru á náttúruminjaskrá hafa hugsanlega verndargildi, s.s. vegna menningarminja, dýralífs eða jarðfræðiminja og tryggir viðkomandi skipulagsáætlun vernd þeirra?
 4. Hvaða svæði eru skilgreind sem hverfisverndarsvæði í skipulagi og koma forsendur verndunar skýrt fram í greinargerð með skipulaginu? Eru settar fram skýrar reglur um landnotkun, umgengni og  mannvirkjagerð á fyrirhuguðum hverfisverndarsvæðum.
 5. Mikilvægt er að tryggja vernd svæða sem nýst geta til útivistar og náttúrufræðslu. Má í því sambandi m.a. benda á svæði meðfram ám og vötnum. Strendur eru náttúruverðmæti og því æskilegt að halda þeim eins óröskuðum og hægt er. Við skipulag og framkvæmdir skal þess gætt að hindra ekki aðgengi almennings að vatns-, ár- eða sjávarbökkum, sbr. lög nr. 44/1999 um náttúruvernd.
 6. Gerir skipulagsáætlunin skýra grein fyrir frístundabyggð og kemur fram hvaða svæði eru ný og  hvort gert er ráð fyrir stækkun núverandi frístundabyggðar?
 7. Markar skipulagsáætlunin skýra stefnu um efnstöku og sýna skipulagsuppdrættir þær námur sem á að nýta í framtíðinni? Ath. að ekki þarf að sýna þær námur sem á að loka. Einnig þarf að marka á sem nákvæmastan hátt fyrir útlínum efnistökusvæða á skipulagsuppdrætti .
 8. Hefur skipulagsáætlunin áhrif á eftirtaldar jarðmyndanir og vistkerfi sem njóta skulu sérstakrar verndar skv. 37. gr.  laga nr. 44/1999 um náttúruvernd?
  • a. eldvörp, gervigígar og eldhraun
  • b. stöðuvötn og tjarnir, 1000 m2 að stærð eða stærri
  • c. mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri
  • d. fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur, svo og hrúður og hrúðurbreiður, 100 m2 að stærð eða stærri
  • e. sjávarfitjar og leirur
Eitt af meginhlutverkum náttúruverndarnefnda skv. 11. gr. laga um náttúruvernd er að fjalla um framkvæmdir og starfsemi sem líkleg er til þess að hafa áhrif á náttúruna og gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar. Samkvæmt 33. gr. laga um náttúruvernd skal leita umsagnar náttúruverndarnefnda við úrskurði um mat á umhverfisáhrifum.

Við umfjöllun um framkvæmdir og mat á hugsanlegum áhrifum þeirra á náttúruna þarf m.a að taka mið af staðsetningu framkvæmda og verndargildi viðkomandi svæðis, s.s. hvort framkvæmdir raski minjum á náttúruminjaskrá, birkiskógi, votlendi, búsvæði plantna eða dýra á válista, hverfisverndarsvæði eða útivistarsvæði. Einnig hvort framkvæmdir raski jarðmyndunum og vistkerfum sem njóta skulu sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd og forðast skal að raska eins og kostur er. Þá þarf að meta áhrif framkvæmda á landslag og sjónræn áhrif þeirra.
Í VI. kafla laga um náttúruvernd eru ákvæði um efnistöku. Öll efnistaka, hvort sem er á landi eða í sjó, er háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga og 47. gr. laga um náttúruvernd. Efnistaka skal vera í samræmi við staðfest aðalskipulag viðkomandi sveitarstjórnar en þar sem staðfest aðalskipulag liggur ekki fyrir er óheimilt að veita framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku fyrr en Umhverfisstofnun og náttúruverndarnefnd hafa veitt umsögn um efnistökuna.

Þá skal áður en leyfi er veitt liggja fyrir vönduð áætlun námuréttarhafa um væntanlega efnistöku þar sem m.a. skal gerð grein fyrir magni og gerð efnis, vinnslutíma og endanlegum frágangi á efnistökusvæði. Það auðveldar sveitarfélögum virkt eftirlit með efnistöku þar sem ljóst er þá hvernig námuréttarhafa ber að standa að efnistökunni. Sveitarfélög ættu því að gera skýrar kröfur um framsetningu áætlunar um efnistöku.

Í ritinu Námur - Efnistaka og frágangur sem Umhverfisstofnun ásamt Vegagerðinni, Landsvirkjun, umhverfisráðuneyti og fleiri opinberum aðilum gaf út í apríl 2002 er m.a. yfirlit yfir lög og reglur sem varða efnistöku og ábendingar um hvernig best er að standa að nýtingu og frágangi efnistökusvæða.
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira