Raki og mygla

  Hvers vegna þarf að huga að raka og myglu?

  Í Evrópu er áætlað að of mikill raki sé í 10-50% (mismikið eftir löndum) af því húsnæði sem fólk býr, vinnur og leikur sér í. Of mikill raki veldur þungu lofti og saggalykt. Loft kólnar við raka veggi en það kallar á meiri upphitun með hærri hitakostnaði. Of mikill raki í húsnæði getur haft slæm áhrif á heilsu fólks. Þeir sem búa í húsnæði með raka og myglu eru í meiri hættu en aðrir að fá sjúkdómseinkenni og sýkingar í öndunarvegi, ofnæmiskvef og astma. Fólk er misviðkvæmt fyrir myglu og sumir hópar eru sérlega viðkvæmir. Sérstaklega þarf að halda raka og myglu frá börnum, eldra fólki, fólki með astma, exem og ofnæmi eða bælt ónæmiskerfi. Rannsóknir sýna að þeir sem búa í vel einangruðum húsum og vel loftræstum leita síður til læknis og leggjast síður inn á sjúkrahús vegna kvilla í öndunarfærum en þeir sem búa í röku húsnæði.
  Oftast er einfalt að viðhalda heilnæmu innilofti í híbýlum. Margt getur þó haft áhrif og mikilvægt er að huga að því hvernig hægt sé að viðhalda heilnæmu innilofti eða bæta það. Þannig má minnka líkur á að inniloft geti haft slæm áhrif á heilsu þeirra sem þar dvelja.

  Umhverfisstofnun hefur gefið út leiðbeiningar um inniloft, raka og myglu, hvernig best sé að viðhalda og bæta heilnæmi innilofts og hvernig bregðast skuli við verði inniloftið óheilnæmt. Einnig er fjallað um eftirlit með húsnæði og ábyrgð eigenda og leigjenda húsnæðis. 

  Í leiðbeiningunum er að finna upplýsingar og leiðbeiningar fyrir almenning um: 

  • inniloft 
  • raka 
  • myglu 
  • hreinsun myglu og úrbætur 
  • eftirlit og ábyrgð

  Í fylgiskjali 1 er samantekt á gátlistum um ýmislegt er varðar innililoft, raka og myglu og gott getur verið að hafa við höndina þegar hugað er að þessum þáttum:

  • Gátlisti 1 – góð ráð fyrir heilnæmt inniloft 
  • Gátlisti 2 – mat á rakastigi 
  • Gátlisti 3 – ákjósanlegar aðstæður fyrir sýnatöku 
  • Gátlisti 4 – góð ráð til að varna of háu rakastigi 
  • Gátlisti 5 – hreinsun myglu 
  • Gátlisti 6 – fullnægjandi hreinsun 
  • Gátlisti 7 – úrbætur

  Umhverfisstofnun hélt námskeið þann 24. október 2008 um innivist með áherslu á sveppa- og mygluskemmdir í húsnæði. Námskeiðið var einkum ætlað heilbrigðisfulltrúum en var að hluta til opið almenningi. 

  Fyrirlesari var Kjell Andersson yfirlæknir á umhverfis- og atvinnusjúkdómadeild Háskólasjúkrahússins í Örebro. Hann hefur mikla reynslu og gert margar rannsóknir á sviði innivistar, jafnframt hefur hann skrifað fjölda greina um efnið (sjá Ítarefni). Kjell Andersson er vel þekktur og vinsæll fyrirlesari á sínu sviði. 

  Í fyrirlestrinum kom fram að þegar um sveppa- og mygluvandamál er að ræða í húsnæði, sem stafa af miklum raka og/eða leka, þá sé mikilvægast að byrja á að finna orsakir rakans og lagfæra skemmdirnar og þrífa burt myglu og sveppi. Kjell telur að yfirleitt sé óþarfi að leggja í kostnað vegna sýnatöku einkum þegar þekkingu skortir til að meta niðurstöðurnar. Peningunum sé betur varið í að koma í veg fyrir leka og raka og í viðgerðir á skemmdu húsnæði. 

  Margar rannsóknir benda til að samband sé milli þess að búa/dvelja í rakaskemmdu húsnæði og vanheilsu. Það hafa einnig verið gerðar rannsóknir sem sýna fram á rekjanleg tengsl milli dvalar í rakaskemmdu húsnæði og óþæginda í augum og öndunarvegi. En reynslan sýnir að yfirleitt dregur verulega úr einkennum/óþægindum hjá íbúum eftir að gert hefur verið við húsnæðið og það þrifið. 

  Margar tilgátur hafa verið settar fram um hvað það sé í rakaskemmdu húsnæði sem valdi vanlíðan og óþægindum t. d. efnaútgufun úr röku byggingarefni, niðurbrotsefni úr lími eða efni af örverufræðilegum uppruna. Í dag er ekki vitað hvaða einstök efni hafa mest áhrif. En fáar ef nokkrar vísbendingar eru um hvaða þættir í húsnæði hafi áhrif á ónæmiskerfið nema rykmaurar og pelsdýr.

  Samkvæmt sænskum og finnskum rannsóknum virðist mygla vera veikir ofnæmisvakar (allergen) og aðeins um 2 % íbúa þessara landa hafa myndað mótefni gegn algengum og útbreiddum myglutegundum en til samanburðar hafa rúmlega 30% ofnæmi gegn pelsdýrum, rykmaur eða frjókornum. Þeir sem hafa ofnæmi gegn myglu hafa flestir einnig ofnæmi fyrir sterkari ofnæmisvökum svo sem köttum og grasi.

  Upplýsingar og leiðbeiningar:

  Inniloft:

  Raki og mygla:

  Erlendar greinar um innivist eftir Kjell Andersson og fleiri:

  Ég held að mygla vaxi á heimilinu, hvað á ég að gera?

  • Nýttu þér upplýsingar og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar við mat á því hvort um myglu sé að ræða í húsnæði og hvernig skuli bera sig að við að lagfæra það sem veldur myglunni og hreinsun.
  • Fyrir viðameiri mál er hægt að leita ráðlegginga til heilbrigðiseftirlita á landinu, einkaaðila sem að gefa sig út fyrir að veita ráðgjöf og álit varðandi raka og myglu og iðnaðarmanna.
  • Gagnlegt getur verið að leitast eftir ráðleggingum og meðmælum við val á þjónustuaðilum/verktökum sem bjóða upp á mat, álitsgjöf og lagfæringar vegna raka og myglu. 
  • Sýnatökur geta verið óþarfar, þær geta verið kostnaðarsamar og oft skortir þekkingu til að meta niðurstöður. Ef mygla er sjáanleg er óþarfi að taka sýni til að staðfesta tilvist hennar, sýni eru einkum tekin til að greina aðra þætti, t.d. af hvaða tegund myglan er. Leita skal eftir orsökum myglu og koma í veg fyrir frekari leka og raka og gera við skemmd húsnæði , því mygla getur vaxið áfram svo framarlega sem ekki séu unnar bætur á orsökinni. 
  • Inniloft almennt getur haft áhrif, oft getur hátterni okkar heima við ýtt undir raka og myglu án þess að við gerum okkur grein fyrir því, t.d. þurrkun þvottar, sturtur og eldamennska með lokaða glugga getur aukið verulega á rakastig. Kynntu þér upplýsingar og leiðbeiningar um heilnæmt inniloft.

  Ég held að mygla á heimilinu sé farin að hafa neikvæð áhrif á heilsufar mitt, hvað á ég að gera?

  • Leitaðu eftir merkjum um myglu á heimilinu til að meta hvort það sé hugsanleg orsök líkamlegra einkenna þinna. Er rakavandamál til staðar? Er mygla til staðar? Nýttu þér upplýsingar og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar við mat á því hvort um myglu sé að ræða í húsnæði og hvernig skuli bera sig að við að lagfæra það sem veldur myglunni og hreinsun. 
  • Margar rannsóknir benda til að samband sé milli þess að búa/dvelja í rakaskemmdu húsnæði og vanheilsu. Þeir sem að eru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma, s.s. astma og ofnæmi eru oft viðkvæmari fyrir en aðrir. Leitaðu til heimilislæknis ef þú telur að slíkt eigi við hjá þér fyrir frekara mat og ráðleggingar. 
  • Það getur verið ráð að fara úr aðstæðunum í einhvern tíma, t.d. í bústað eða gista hjá vinum. Oft dvína einkenni sem til eru komin vegna áhrifa frá myglu þegar farið er úr aðstæðunum í einhvern tíma. Slíkt getur því einnig styrkt stoð undir það hvort mygla sé til staðar í húsnæði eður ei. Gott getur verið að hafa prufað þetta áður en leitað er til læknis vegna einkenna til að geta greint frá hvort munur var á einkennum.

  Hvar get ég leitað mér upplýsinga um raka og myglu? 

  Mynd sem fylgir - Rauði listinn

  Rauði listinn

  Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
  Meira