Garðurinn

Heitur potturEfni fyrir heita potta og sundlaugar

Notkun ýmissa efna fylgir viðhaldi á heitum pottum og sundlaugum og þá sérstaklega til að að tryggja heilnæmi vatnsins. Efni sem algengt er að þurfi að nota við umhirðu heitra potta og sundlauga eru sótthreinsiefni (t.d. klór og bróm), efni til að stilla sýrustig (pH), efni sem eyða þörungum, hreinsiefni, hleypiefni, svo eitthvað sé nefnt.

Mikilvægt er að notaður sé réttur skammtur af efnum. Röng notkun getur farið illa með búnaðinn. Of mikil notkun getur valdið óþægindum og ertingu ef um sterk efni er að ræða og verið skaðleg umhverfinu. Of lítil notkun getur haft í för með sér sýkingarhættu af völdum baktería.

Merkingar á umbúðum hættulegra efna eiga að vera á íslensku. Sum þessara efna eru ætandi og skulu umbúðir þeirra vera með öryggislok og áþreifanlega viðvörun. Þau skal jafnframt geyma á læstum stað þar sem börn ná ekki til.

Dæmi eru um að hættuleg efni sem notuð eru til viðhalds á heitum pottum séu í umbúðum sem minna á leikföng og geta vakið forvitni barna þó að slíkar umbúðir séu bannaðar.

Nokkur atriði sem hafa skal í huga við notkun efna:

  • Ítarlegar leiðbeiningar varðandi notkun og meðhöndlun efna og skammtastærðir ættu að fylgja efnunum.
  • Þekking afgreiðslufólks er mikilvæg. Neytandinn á að geta fengið leiðbeiningar við kaup á efnum og upplýsingar um hvað beri að varast.
  • Efni skulu ávallt geymd í upprunalegu umbúðunum.
  • Ef notaðir eru lausir skammtarar fyrir efni er mælt með því að nota skammtara sem börn geta ekki opnað. Einnig að fjarlægja þá á meðan að verið er að nota pottinn.
  • Brýna þarf fyrir börnum að fara varlega í námunda við heita potta hvort sem þeir eru í notkun eða ekki.

Maður að sinna garðaúðunTími trjámaðksins er í lok maí eða fyrri hluta júní á hverju ári. Þá fer hann á stjá í görðum landsmanna og margir garðeigendur spyrja sig: Þarf ég að láta „eitra“ hjá mér? Hér eru nokkur atriði sem garðeigandinn getur haft til hliðsjónar til þess að stuðla að því að sem minnst röskun verði á lífríki garðsins og jafnframt að viðkvæmur gróður sé varinn fyrir skemmdum af völdum trjámaðksins. 

Mikilvægt er að átta sig á því að skordýraeyðar drepa öll skordýr sem þeir lenda á, hvort sem þau eru skaðleg eða gagnleg. Hin gagnlegu skordýr lifa oft á tíðum á skaðvöldunum sem eru að hrjá plönturnar okkar og veita okkur því lið í baráttunni gegn þeim, auk þess sem þau geta sjálfverið fæða fyrir önnur dýr. 

Trjámaðkurinn er mikilvæg fæða fyrir garðfugla þannig að þegar við úðum gegn honum erum við að draga úr fæðuframboði fyrir fuglana sem við viljum gjarnan hafa í kringum okkur. Lífríki garðsins er þannig samofið og með úðun erum við að grípa óþyrmilega inn í gang náttúrunnar. 

Margar trjátegundir sem verða fyrir skemmdum af völdum trjámaðks ná sér aftur á strik þótt ekkert sé úðað vegna þess að ný laufblöð vaxa fram og fela þau sem hafa skemmst. Þetta á til dæmis við um birki. 

Barrtré, alaskaösp, gljávíðir, gullregn og sólber eru dæmi um tegundir sem eru alveg lausar við trjámaðk og ætti þess vegna aldrei að úða. 

Víðir, toppar, kvistar og misplar eru tegundir sem helst geta orðið fyrir miklum skemmdum af völdum trjámaðks og því oft nauðsynlegt að beita úðun til að verja þær. Mikilvægt er þá að úða einungis þessar tegundir til þess að raska sem minnst vistkerfi garðsins.

Hvernig á að bregðast við þegar garðaúðarinn birtist og býður þjónustu sína?

  • Kanna hvort viðkomandi sé með leyfi til garðaúðunar og geti framvísað gildu notendaleyfi frá Umhverfisstofnun.
  • Meta þörf fyrir úðun áður en hafist er handa. Garðeigandinn ætti sjálfur að fara út í garðinn og taka þátt í matinu þannig að hann upplifi ástandið í eigin persónu.
  • Ef skoðun leiðir í ljós skemmdir á gróðri en lítið sem ekkert sést af trjámaðki, þá er orðið of seint að úða og í raun og veru hreinlega skaðlegt vegna þess að með því er verið að drepa saklaus nytjadýr, auk þess sem laufblöðin á plöntunum láta oft á sjá eftir úðun.
  • Ef hvorki sjást skemmdir né maðkur á gróðri er sömuleiðis gangslaust að úða, þá hefur maðkurinn enn ekki klakist út og virka efnið nær því ekki til hans. Rétti tíminn til þess að bregðast við er því mjög skammur og mikilvægt að fylgjast vel með og grípa til aðgerða á hárréttum tíma.
Látum náttúruna njóta vafans og notum skordýraeitur bara þegar nauðsyn ber til!

Nýtt líf kviknar í frjósömum jarðvegi

Um þriðjungur af heimilisúrgangi okkar eru matarleifar sem hægt er að nýta til heimajarðgerðar og með því  getum við dregið verulega úr magni þess sorps sem við sendum frá okkur. Að auki getum við nýtt nær allan úrgang sem til fellur í garðinum. Við jarðgerð er lífrænum úrgangi umbreytt í moltu sem þykir besti jarðvegsbætir sem völ er á, gerir jarðveginn frjósamari og léttari og um leið heilbrigðari.
 
Leiðbeiningar fyrir heimajarðgerð má finna hér. (Heimajarðgerð)

Innan gróðurhússPlöntuverndarvörur eru notaðar í ræktun skrautplantna og matvæla, svo sem ávaxta, grænmetis og kornvöru, til þess að koma í veg fyrir eða draga úr skaða af völdum sveppa, illgresis, skordýra og annarra meindýra. Stýriefni teljast líka til plöntuverndarvara en þau eru meðal annars notuð til þess að örva rótarmyndun græðlinga og stýra vaxtarlagi plantna.

Aðeins er heimilt að setja plöntuverndarvöru á markað hérlendis ef hún hefur fengið leyfi hjá Umhverfisstofnun og stofnunin heldur úti skrá yfir vörur sem leyfðar eru til notkunar hverju sinni. Ítarlegar rannsóknir eru gerðar á því hvort efni í plöntuverndarvörum geta valdið okkur sjálfum eða umhverfinu skaða og áhætta af notkun þeirra er metin áður en leyft er að setja þær á markað. 

Plöntuverndarvörum er skipað í tvo flokka eftir því hversu hættulegar þær eru í meðhöndlun og notkun. Annars vegar er um að ræða fremur hættulitlar vörur sem leyfðar eru til almennarar notkunar og allur almenningar má nota og hins vegar vörur sem eru hættulegar í meðhöndlun og notkun og því einungis ætlaðar til notkunar í atvinnuskyni. Sérstakt notendaleyfi, sem gefið er út af Umhverfisstofnun, þarf til þess kaupa og nota plöntuverndarvörur sem einungis eru ætlaðar til notkunar í atvinnuskyni. Þá þurfa þeir sem stunda garðaúðun í atvinnuskyni að vera handhafar notendaleyfis fyrir plöntuverndarvörur. 

Þegar kemur að því að velja plöntuverndarvöru til að bregðast við einhverjum vanda er vert að benda á þann valkost að nota vörur sem hafa sem minnst neikvæð áhrif á náttúruna. Á markaðnum eru vörur sem aðeins innihalda náttúruleg virk efni, svo sem pýretrín, sápur eða olíur sem brotna tiltölulega hratt niður í náttúrunni og valda því lágmarksskaða á umhverfinu. 

Þegar plöntuverndarvöru er dreift eða úðað yfir matjurtir þarf að líða ákveðinn tími frá því að efnið er notað þangað til óhætt er að uppskera og neyta afurðanna. Þetta er gert til þess að efnin nái að brotna niður og ekki verði til staðar efnaleifar matnum sem við neytum. Ef við virðum uppskerufrestinn og fylgjum í hvívetna leiðbeiningum um notkun plöntuverndarvara á okkur ekki að vera nein hætta búin. 

Mikilvægt er að fylgja nákvæmlega leiðbeiningum um blöndun og meðferð plöntuverndarvara, ekki síðst vegna gróðursins sjálfs. Sé notuð of sterk blanda eða úðað við óviðeigandi aðstæður, til dæmis í mikilli sól, getur það valdið því að blöðin á plöntunum sviðna og skemmast. Á hinn bóginn getur það gerst að úðun beri ekki tilætlaðan árangur gegn skaðvaldinum ef notuð er of dauf blanda eða úðað í rigningu. Stöndum vörð um umhverfið, notum plöntuverndarvörur á réttan hátt og aldrei að óþörfu.

KóngulóavefurAlltaf ef nokkuð um það á sumrin að köngulær geri sig heimakomnar utan á húsum landsmanna sumum til nokkurs ama. Einkum mun það vera krosskönguló sem á þetta til og þá er stundum gripið til þess ráðs að úða allt húsið að utan með skordýraeyði til þess að ráða niðurlögum hennar. 

Hér er rétt að staldra við og íhuga aðeins hvaða skaða köngulærnar valda okkur í raun. Þær láta okkur mannfólkið til dæmis alveg í friði, eru ófleygar og stinga hvorki né bíta. Hins vegar veiða köngulær í vef sinn ýmis fleyg skordýr sem okkur kunna að þykja hvimleið, þær geta jafnvel veitt geitunga og komið þeim fyrir kattarnef. 

Í umhverfi okkar er urmull skordýra og annarra smádýra og á milli þeirra er flókið samspil. Sum þeirra eru fæða fyrir stærri dýr, önnur eru rándýr eða sníkjudýr sem lifa á hinum smádýrunum og enn önnur geta valdið skaða á gróðri. Við úðun með skordýraeyði drepast öll þessi smádýr hvort sem þau eru til ama eður ei þannig að með þessum aðgerðum erum við að grípa óþyrmilega inn í gang náttúrunnar og jafnvel að skapa meiri vanda heldur en við leysum. 

Best af öllu er að forðast algerlega eiturefnanotkun og beita aðeins þeim aðferðum sem ekki hafa neikvæð áhrif á umhverfið. Það má til dæmis losna við köngulóavefi með því að sópa þeim burt eða sprauta á þá vatni. Aldrei ætti að úða að utan heilu húsin algerlega óháð því hvar vandinn er til staðar heldur einbeita sér að þeim stöðum þar sem dýrin eru til ama. Á þann hátt höldum við neikvæðum áhrifum á lífríkið í lágmarki og náum um leið að leysa þann vanda sem við er að etja. 

Einungis fagmenn, sem hafa starfsleyfi til meindýravarna og eru handhafar notendaleyfis fyrir útrýmingarefnum, mega taka að sér í atvinnuskyni að eyða köngulóm og skordýrum í hýbýlum manna og á öðrum þeim stöðum að sem þessi dýr eru til ama. Þessir aðila hafa þekkingu og reynslu á sviði meindýravarna og aðgang að réttu efnunum til þess að ná árangri.


Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira