Ferðamenn

Algengast er að gestir sem heimsækja friðlandið komi sjóleiðis, bæði að vestan (frá Bolungarvík og Ísafirði) og að austan (frá Norðurfirði og Hólmavík). Helstu viðkomustaðir eru Hrafnsfjörður, Veiðileysufjörður, Hesteyri, Sæból og Látrar í Aðalvík, Hornvík, Bolungavík og Furufjörður, en þar er hægt að lenda mjög víða. Engir akvegir liggja að friðlandinu en ganga má inní það frá næstu byggðarsvæðum, en það tekur þó nokkra daga. Áætlunaferðir eru í friðlandið frá Ísafirði og Bolungarvík við Ísafjarðardjúp og Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum. Áætlunarferðir hefjast uppúr miðjum júní og líkur uppúr miðjum ágúst. Utan áætlunartíma má leigja báta til að koma gestum í eða úr friðlandinu. Upplýsingar um áætlunarferðir eru hjá ferðaskrifstofunni Vesturferðum á Ísafirði og hjá upplýsingamiðstöðvum.

Gangandi fólki er heimilt að fara um svæðið, svo fremi það skaði ekki lífríki, jarðmyndanir eða mannvirki. Hestaferðir eru ekki leyfðar og umferð ökutækja er bönnuð. Allt sem menn hafa með sér inn á svæðið verða menn að fara með aftur. Ef þess er kostur skal tjalda á merktum tjaldstæðum og alltaf verður að skilja við tjaldstæði eins og komið var að þeim. Meðferð skotvopna er bönnuð og öll dýr eru friðuð en landeigendum eru leyfðar hefðbundnar nytjar.

Ferðamenn verða að hafa með sér tjöld og góðan klæðnað. Aldrei má gleyma að á Hornströndum eru veður válynd. Það getur snjóað hvenær sem er og illviðri getur skollið á fyrirvaralítið og staðið lengi. Því verður að vera við öllu búinn í gönguferðum í friðlandinu. Ekki er óalgengt að dimm þoka leggist yfir og því er nauðsynlegt að geta gengið eftir áttavita og staðsetningartæki geta komið að góðum notum. Það verður að taka allan mat með sér og alltaf þarf að gera ráð fyrir að ferðaáætlun standist ekki og menn tefjist. Bátar komast ekki alltaf til að sækja fólk þegar gert er ráð fyrir. Ekki er hægt að treysta á farsímasamband en talstöðvar eru í neyðarskýlum. Því þarf að skipuleggja ferð á Hornstrandir vandlega. Nauðsynlegt er að taka með sér góð kort og prýðilegar leiðarlýsingar hafa verið gefnar út. Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Náttúruvernd ríkisins, Náttúrustofu Vestfjarða og upplýsingamiðstöð ferðamála á Ísafirði og Hólmavík.

Í slæmum veðrum getur bátsferðum seinkað og skulu gestir vera búnir undir það. Seinkun getur varið frá nokkrum klukkustundum til jafnvel eins eða tveggja sólahringa. Brýnt er að fylgjast með veðurspá. Ef engin farþegi er skráður í áætlunarferð fellur hún niður. Þ.a.l. er brýnt að bóka ferðir jafnt inná svæðið sem til baka nema gengið sé inn eða út úr friðlandinu. Ekki má treysta á það að fá far með áætlunarbát ef engin er bókunin, jafnt vegna niðurfellingar ferða ef engin er bókaður og eins er oft fullt í áætlunarferðum. Betra er að gera ráð fyrir seinkun og óvæntum töfum á heimferð. Benda skal þó á að 90% áætlunarferða og sérferða standast og ekki er nema um tvo til þrjá daga á sumri svo slæmt veður að ófært er sjóleiðis.

Aðgangseyrir

Engin aðgangseyrir er tekin af gestum sem sækja friðlandið heim. Gestir greiða hinsvegar fyrir bátsferðir sínar. Flest tjaldsvæði eru frumstæð og með lágmarksþjónustu og er ekkert gjald tekið á þeim. Einstaka þjónustutjaldsvæði í einkaeign eru í friðlandinu og er tekið vægt gistigjald á þeim. Ætlast er til að gestir tjaldi á merktum tjaldsvæðum. Engar verslanir eru á svæðinu og því brýnt að taka allt með sér sem gestir þarfnast í veru sinni. 

Afþreying og þjónusta við og innan svæðis 

Allnokkrir aðilar bjóðaferðamönnum sem hyggjast sækja friðlandið heim ýmsa þjónustu. Algengasta þjónustan eru bátsferðirnar og má nálgast upplýsingar um þær hjá m.a. Vesturferðum á Ísafirði. Auk áætlunarferða er boðið uppá dagsferðir um svæðið, oft með leiðsögn og jafnvel veitingum. Verslanir, minjagripasala, veitingahús og gististaðir eru á brottfarastöðum báta frá byggðasvæðum (Ísafjörður, Bolungarvík, Norðurfjörður o.fl.). Engin verslun er innan friðlandsins. Einstaka einkaaðilar bjóða þó uppá svefnpokagistingu í húsum og kaffiveitingar (sjá www.vesturfedir.is). Bátaþjónustur bjóða ferðamönnum að leigja farþegabáta utan ferðatímans og einnig eru í boði vetra- og skíðaferðir. 

Meðfylgjandi er tafla yfir helstu þjónustuveitendur í friðlandinu: 

Heiti fyrirtækis Tegund þjónustu Heimsíða, símanúmar, o.s.frv.
Vesturferðir Sala á ferðum vesturferðir.is
Læknishústið Hesteyri Kaffihús og svefnpokagisting
Ferðafélag Íslands Skipulagðar gönguferðir  

 Heiti fyrirtækis Tegund þjónustu Heimasíða, símanr. o.s.frv. Vesturferðir Sala á ferðum www.vesturferdir.is Læknishúsið Hesteyri Kaffihús og svefnpokagisting Ferðafélag Ísland Skipulagðar gönguferðir Ábending um þjónustu í boði eða breytingar á þjónustu eru vel þegnar og þeim má koma að hér: 

Kort 

Ýmiss ferðakort eru til af friðlandinu og fást þau algengustu í flestum bókabúðum á Íslandi. Innan friðlandsins má sjá kort sem Umhverifsstofnun hefur unnið af svæðinu og eru þar merkt inn tjaldsvæði og greinilegar gönguleiðir (stígar/vörður).

Stígar á Hornströndum eru fáir og oft óljósir en helstu leiðir eru varðaðar. Fólki getur þó yfirsést vörður ef það er ekki vant að ganga eftir þeim og því er brýnt að hafa meðferðis gott kort og áttavita, eða GPS tæki til rötunar. Þokusælt er á svæðinu og stundum vandratað. Ár geta verið erfiðar yfirferða í miklum vatnaveðrum og talsverður snjór er á hálendi svæðisins allt árið um kring. Snjór getur verið í flestum fjallaskörðum allt árið. Skaflar geta verið brattir og þá ekki síst snemmsumars. Gæta þarf ávallt varúðar, ekki síst ef skyggni er slæmt

Gönguleiðir í Hornstrandafriðlandi

Í friðlandinu eru margar gönguleiðir og eru aðeins nokkrar nefndar hér.

Hesteyri - Sæból í Aðalvík - um Sléttuheiði

Farið er út Hesteyrarfjörðinn ofan Sléttu, upp á Sléttuheiði (200 m). Heiðin er ágætlega vörðuð og stígur liggur um hluta hennar. Af heiðinni liggur leiðin fram hjá prestsetrinu á Stað og þaðan að Sæbóli (5-6 klst.). Ef komið er við á Sléttu lengist gangan um 1-2 klst.

Sæból - Látrar í Aðalvík

Gengið er inn með fjörunni og um lítinn klettabás þar sem þarf að sæta sjávarföllum fyrir Hvarfnúp og síðan áfram fyrir Mannafjall og að Látrum. Vaða þarf tvær ár á leiðinni (4 klst.)

Hesteyri - Látrar í Aðalvík - um Hesteyrarskarð

Leiðin liggur um göngustíg frá Hesteyri og upp í Hesteyrarskarð en þar tekur við vörðuð leið fram á efstu drög Stakkadals. Stakkadalsós þarf að vaða rétt neðan Stakkadalsvatns. Þaðan er skammur gangur að Látrum (3-4 klst.)

Látrar í Aðalvík - Fljótavík - um Tunguheiði

Frá Látrum er veginum á Straumnesfjall fylgt þar til hann beygir til vesturs ofan Rekavíkur og tekur þá fljótlega við vörðuð leið um Tunguheiði fram á brúnir Tungudals. Þar liggur leiðin á gönguslóða um bratta hlíð niður dalinn og áfram að Fljótavatni. Hægt er að vaða ósinn á tveimur stöðum eftir því hvernig stendur á sjávarföllum (6 klst.)

Fljótavík - Kjaransvík - um Þorleifsskarð

Farið er um mýrlendi vestan Fljótavatns eða austan og upp bratta hlíð með lausum skriðum í Þorleifsskarð. Þar tekur við stórgrýti niður í Almenninga og síðan er farið um Almenningaskarð og í Kjaransvík. Þetta er seinfarin leið og erfið (8-10 klst.)

Hesteyri - Kjaransvík - Hlöðuvík - um Kjaransvíkurskarð

Frá Hesteyri í Kjaransvíkurskarð er farið eftir varðaðri leið um Hesteyrarbrúnir og að skarðinu (426 m). Norðan við skarðið tekur við vörðuð leið niður í Kjaransvík. Þaðan er haldið um fjöruna fyrir Álfsfell og í Hlöðuvík. Líka er hægt að fara fjöruleið inn Hesteyrarfjörð og er þá farið fram hjá rústum hvalveiðistöðvarinnar á Stekkeyri en á þeirri leið þarf að sæta sjávarföllum (6-7 klst.)

Hlöðuvík - Hornvík - um Atlaskarð

Frá Hlöðuvík liggur leiðin upp gönguslóða í brattri hlíð í innanverðum Skálakambi. Þar tekur við vörðuð leið ofan Hælavíkur og í Atlaskarð (327 m). Úr skarðinu er gengið niður í Rekavík og áfram í bröttum hliðarsneiðingi fyrir Kollinn að Höfn í Hornvík (4-5 klst.)

Veiðileysufjörður - Hornvík - um Hafnarskarð

Úr botni Veiðileysufjarðar er farið um Hafnarskarð (519 m). Fáar vörður eru á leiðinni upp í skarðið en vel er varðað úr skarðinu niður í Hornvík (4-5 klst.)

Hrafnsfjörður - Furufjörður - um Skorarheiði

Leiðin liggur úr botni Hrafnsfjarðar um lága heiði, Skorarheiði (200 m), í Furufjörð. Hún liggur að hluta til á stíg en einnig eru vörður austan megin (3 klst.)

Furufjörður - Hornvík

Frá Furufirði er haldið út með firðinum að norðanverðu fyrir Bolungavíkurófæruna í norðanverðum Furufirði en þar þarf að sæta sjávarföllum. Úr Bolungavík er farið um Göngumannaskörð (366 m) í Barðsvík, um Smiðjuvíkurháls í Smiðjuvík og áfram norður Almenninga að Axlarfjalli. Fátt er um vegmerkingar á þeirri leið. Af Axlarfjalli er haldið niður að Hornbjargsvita í Látravík og þaðan í Hornvík (2-3 dagar).

Úr Furufirði er einnig hægt að ganga um Svartaskarð í Þaralátursfjörð og Reykjafjörð og þaðan áfram í Ófeigsfjörð og Ingólfsfjörð (4-5 dagar).

Hornvík - Hornbjarg

Gengið er fyrir víkina að Hafnarósnum. Þegar yfir ósinn er komið er haldið út með fjörunni á nyrsta hluta bjargsins og á Miðfell. Brattkleifir geta lagt leið sína á Kálfatind (534 m), hæsta hluta bjargsins, og virt fyrir sér tindinn Jörund (8-10 klst).

Hornstrandir eru einstakt gönguland. Fegurð er mikil og upplifun sterk. Mikilvægt er að hafa ýmsa þætti í huga áður en ferðast er um svæðið, enda eykur vel skipulagt ferðalag á öryggi og ánægju ferðarinnar. Brýnt er að allir ferðamenn séu meðvitaðir um gildi lítt spilltra svæða og hvernig þeir geta tekið þátt í því að vernda umrædd svæði. 

Kynntu þér svæðið áður en þú ferð í ferðalag um það. Vertu búinn að setja upp ferðaáætlun. Gott er að hafa samband við ferðaþjónustuaðila eða upplýsingamiðstöð fyrir ferð og fá nýjustu upplýsingar um svæðið, s.s. snjó í skörðum, bleytu á gönguleiðum og annað slíkt. Forðist að vera ein á ferð.

Fylgist með veðurspá. Norðanáttir með mikilli úrkomu gera svæðið oft erfitt yfirferðar, t.d. geta vöð á ám orðið ófær. Mikil þoka og slæmt veður getur tafið eða hindrað för ferðamanna. Undirbúið ykkur fyrir vont veður jafnvel þó það sé ekki í kortnum. Veður getur breyst mjög snögglega og aðstæður orðið erfiðar. Bleyta er erfiðasti þátturinn og þarf allur búnaður að vera vatnsheldur. Hafið ávallt þurra sokka og föt vel vatnsvarin, svo og tjald og svefnpoka. Vandið val á tjaldi, ódýr einnota tjöld eru vafasöm. Gerið ávallt ráð fyrir því að tjaldið geti veitt öruggt skjól í slæmum veðrum. Hafið í huga að rigning getur fallið lárétt í hvassvirði. 

Mikilvægt er að skilja eftir ferðaáætlun ef ferðast er utan háannatíma. Einnig er brýnt að láta vita af breytingu á ferðaáætlun, s.s. seinkun á heimferð. Auðveldast er að biðja aðra göngumenn fyrir skilaboð til áætlunarbáta eða starfsmanna á þjíonustustöðum.

Þeir sem hyggjast leggja leið sína í Hornstrandafriðlandið snemmsumars þurf að hafa eftirfarandi í huga.

Reglur Hornstrandafriðlands kveða á um að ferðamenn skuli tilkynna um ferðir sínar á tímabilinu 15. apríl til 15. júní, þ.e. áður en eiginlegt tímabil ferðamennsku hefst.  Landeigendur eru undanþegnir þessu ákvæði. Tilkynna má Hornstrandastofu í síma 591 2000 (biðja skal um Hornstrandastofu) eða á netfangið hornstrandir@umhverfisstofnun.is.

Ástæðan tilkynningaskyldu er nauðsyn þess að hafa yfirsýn yfir ferðir fólks á umræddu tímabili en þá er náttúra svæðisins hvað viðkvæmust (fugla- og dýralíf) og þolir lítið rask eða truflun. Svæðið er að koma undan snjó og yfirleitt  mjög blautt yfirferða. Jafnframt er brýnt að vita um ferðir og staðsetningu fólks ef ná þyrfti í það, s.s. vegna ísbjarnarkomu, eða annarrar váar. Ekki er æskilegt að margir og/eða fjölmennir hópar fari um svæðið á umræddu tímabili.  

Ferðamenn þurfa að gera sér grein fyrir því að fáir, ef nokkrir eru á svæðinu snemmvors. Ástand svæðisins og öryggisbúnaður hefur ekki verið tekinn út og því óvissa um ástand neyðarskýla, talstöðva o.s.frv.  

Talsverður snjór eða bleyta getur verið í fjallaskörðum og þau jafnvel verið illfær (háir, lóðréttir skaflar í brúnum).  Vöð á ám gætu hafa breyst yfir vetrartímann og óvissa um ástand brattra fjallastíga (einstiga). Hafa ber í huga að margar gönguleiðir liggja í miklum bratta og geta þær verið ísilagðar og varasamar langt fram á vor.  

Fara þarf varlega á tjaldsvæðum, jafnt vegna bleytu svo og vegna sinu (varlega með eldunaráhöld).  Flestir kamrar eru fergðir yfir vetrartímann (hurðir).  Gæta þarf þess að loka þeim tryggilega þegar tjaldsvæði eru yfirgefin.  Ekkert skal skilja eftir sig á svæðinu.  Fara skal varlega í blautum stígum og gæta þess að troða þá ekki út eða mynda nýja stíga.  

Brýnt er að fara varlega í nágrenni varpsvæða fugla og við refagreni.  Ekki skal dvelja á slíkum stöðum eða skilja eftir sig mat eða annað sem veldur truflun.  Dýralíf er viðkvæmt á þessum tíma og styggist auðveldlega. 

Af og til koma ísbirnir á svæðið með Grænlandsísnum. Þó slíkar heimsóknir séu ekki tíðar, þarf að hafa varan á sér og fylgjast vel með umhverfinu og ummerkjum (slóð) eftir dýrin. Strax skal tilkynna ef björns verður vart á svæðinu og forðast ber að nálgast dýrið.   

Landvörður fer um svæðið í maí og kannar aðstæður.  Brýnt er að slíku eftirliti sé lokið áður en ferðamenn leggja leið sína í einhverjum mæli um svæðið.

Miklu skiptir að ganga vel um friðlandið. Vistkerfi þess er viðkvæmt og umgangast þarf náttúru þess með gát. Mikilvægt er að fylgja þeim einföldu reglum sem hér fylgja.

Skildu engin ummerki eftir veru þína á svæðinu. Taktu allt sem þú berð með þér inná svæðið út aftur. Ekki má brenna rusl, grafa eða setja í kamra, heldur ber að taka það með aftur af svæðinu. Reikna má með því að rusl sem er grafið í jörðu verði grafið upp aftur af dýrum. Rusl getur verið mörg ár að brotna niður í náttúrunni.  Einnig er gott ráð að draga úr umfangi rusls og umpakka matvöru eða minnka og létta umbúðir. Yfirfæra má pakkamat í létta plastpoka fremur en taka með pappaumbúðir og plastdóri. Forðist að bera með vökva til daglegrar neyslu, vatn er nær allsstaðar á svæðinu. Leitist við að taka með ykkur allt rusl sem þið gangið framá og aðrir hafa skilið eftir sig. Yfirfarið ávalt nestisstaði í daggöngu þegar lagt er af stað á ný og kannið hvort nokkuð hafi orðið eftir. Sama á við þegar tjaldsvæði er yfirgefið. Kannið ástand tjaldsvæðis og skilið við það á sama hátt og er að var komið. Mikilvægt er að fjarlægja grjót og reka sem borinn er að tjöldum. Ef slíkt er ekki gert getur slíkt grafist í svörðinn og spillt tjaldsvæðinu. Nokkur góð tjaldsvæði í friðlandinu hafa skemmst á þennan hátt og eru ekki nýtanleg lengur. 

Þar sem göngustígar eru ber að nota þá. Forðist að ganga um mjög blaut svæði eða viðkvæm mosasvæði. Brýnt er að halda sig við slóða í bröttum brekkum þar sem slíkir stígar eru til staðar og forðast að stytta sér leið eða skapa nýja stíga sem síðar geta orðið villustígar. Auðveldlega má setja af stað skriður í bröttum brekkum, ekki síst ef landið er blautt og snemmsumars. Slíkar skriður geta valdið áframhaldandi rofi og skemmdum á landi. Farið einnig varlega um lítt gróið land með þunnri jarðvegshulu, ekki síst á hálendum leiðum. 

Tjalda ber á merktum tjaldsvæðum, þar sem því verður við komið. Kamrar eru á öllum merktum tjaldsvæðum. Ef tjalda þarf utan tjaldsvæða, s.s. vegna þess að tjaldsvæði er ekki í grennd gönguleiðar, er gott að hafa meðferðis skóflu og setja upp bráðabyrgðarsalerni (miðað við 15 cm djúpa). Bannað er að kveikja eld og er gróið land mörg ár að jafna sig eftir bálstæði. Eldur á störnd getur flokkast sem neyðarmerki og því mikilvægt að leika sér ekki að eldinum í fyllstu merkinu. Hafið ávalt meðferðis eldunartæki (prímus).

Notið vistvæna vöru s.s. umhverfismerktar sápur, tannkrem, uppþvottalög og aðrar hreinlætisvörur. Forðumst að menga vatn sem sem getur við norða sem neysluvatn. Ef lækur er nýttur til þvotta, verið þá neðarlega í honum og vörum okkur að setja ekkert til kælingar í neysluvatnslæki.

Kamrar fá ekki regluleg dagleg þrif og þarf að umgangast þá af með hreinlæti í fyrirrúmi enda þurfa fleiri að nota kamarinn. Ef hópur er á ferð er gott að hafa með hreinsiklúta fyrir salerni og renna yfir setu og pall á tjaldstað. Einng má hafa meðferðis lítilsháttar af sagi sem drepur lykt á kömrum. Þeir sem geta pissað standandi eiga síður að nota kamra.

Höfuðreglan er að skilja við sig eins og maður kom að því í sem besta ásigkomulagi.

Nauðsynlegt er að hafa búnað sem stenst aðstæður innan friðlandsins. Gæta skal þess að búnaður valdi ekki skaða á lífríki eða náttúru svæðisins.

Regnheldur fatnaður

Góður regnheldur fatnaður með hárri rakaheldni. Léttar regnslár og plastpokar ganga tæpast sem regnfatnaður. Oft getur úrkoma staðið dögum saman og jafnvel með miklum vindi og köldu veðri. Þokusælt er einnig á svæðinu og súld algeng. Forðast ber fatnað sem tekur í sig mikið vatn og tekur langan tíma að þorna, s.s. gallabuxur, kápur o.s.frv. 

Gönguskór

Góðir gönguskór, vatnsvarðir og ekki of stífir. Yfirfara þarf gönguskó vel áður en farið er á svæðið. Engin þjónusta er veitt á svæðinu varðandi skóviðgerðir eða skókaup, enda óbyggðarsvæði. Gæta skal sérstaklega að gömlum skóm, sólar geta losnað undan þeim, reimar verið slitnar og skórnir löngu hættir að halda vatni. Nýja skó skal ganga til. Slæmt er að láta meiðsli vegna of stífra gönguskóa draga úr ánægju ferðalaga á svæðinu. Þá getur reynst erfitt og kostnaðarsamt að breyta ferðaáætlunum vegna lélegs útbúnaðar. Verið léttstíg og forðist að valda óþarfa traðki. 

Eldunaráhöld

Brýnt er að geta hitað sér mat og vatn á svæðinu, sérstaklega ef veður gerast válind, ekki síst ef dvalið er á svæðinu í marga daga. Eldunartæki þurfa að vera einangruð frá jörðu og skilja ekki bruna- eða hitaskemmdir eftir sig á jarðvegi eða gróðri. Brýnt er að setja grjót eða hitaeinangrun undir eldunartæki sem gefa mikin hita frá sér. Sama á við um einnota grill sem dvalargestir taka oft með sér. Fara skal gætilega með fljótandi eldsneyti og missa það ekki niður í jarðveg. Taka skal eldsneytisumbúðir með sér af svæðinu aftur (bensínbrúsa, gaskúta, notuð grill). Ekki skal hlaða smáhlóðir eða nota rekavið til eldunar. Gott er að prófa eldunartæki áður en lagt er af stað í ferð og taka með varahluti ef þörf er á. 

Tjald

Mikilvægt er að vera með gott tjald sem stenst bæði vind og regn. Regn fellur oft lárétt í miklum vindi og þarf að tryggja að vatn leki (rigni) ekki innundir tjald við slíkar aðstæður. Forðast ber að tjalda í lautum eða á mjög blautum stöðum, ekki síst í slæmum veðrum. Yfirfara þarf tjaldið áður en lagt er á svæðið, s.s. að innra tjald sem ytra sé til staðar, hælar, tjaldsúlur og bönd. Brýnt er að hafa aukatjaldhæla meðferðis og hólka til að laga tjaldsúlur ef þær brotna. Einnig er gott að hafa aukabönd með ef lengja þarf í tjaldsnúrum eða bæta við. Forðast ber lítil og opin tjöld, eða einfaldan tjaldhiminn, svo og ódýr stórmakaðstjöld (Vatnsheldir útisvefnpokar geta einnig verið varhugaverðir (bivy)). Við verstu veðurskilyrði getur svæðið orðið nær ófært og oft er þá eina leiðin að bíða af sér veðrið í tjaldi. Ef tjald er fergt niður með grjóti eða rekavið vegna veðurs, ber að fjarlægja það aftur þegar tjald er tekið niður, þ.e. skila tjaldsvæðinu í sama standi og það var við komu. Grjót og rekaviður sem skilin er eftir á tjaldsvæðum vill grafast niður og spilla svæðinu. Hafið gætur á tjaldinu í slæmum veðrum, ekki síst slagviðri. Snúið því þannig að það taki sem minstan vind á sig og stagið tjladið í vindátt. Forðist að innra tjald liggi úti vindhlið ytra tjaldsins því þá er hætt við að innra tjaldið fari að leka. Gætið reglulega að því að innra tjaldið haldi vatni. Ef tjald fer að leka, reynið þá að þurrka það sem fyrst upp (með handklæði t.d.) og stöðva lekaflæði. Gott er að hafa þvottaskinn með til þess að þurrka upp bleytu. Bleyta er einn versti óvinur útivistarfólks. Fylgist með veðurspá og verið undirbúin undir slæmt veður. 

Matur

Orkuríkur matur getur skipt miklu máli í óbyggðaferðum. Allan mat þarf að taka með sér á svæðið. Hafa ber í huga að taka allt rusl með sér af svæðinu svo og bera það milli áfangastaða. Gott er því að umpakka matvælum og minnka umfang umbúða. Ekki er nauðsynlegt að haf drykki með sér, enda nægt og gott neysluvatn er á öllu svæðinu. Góð skráning á búnaði og mat takmarkar möguleg umhverfisáhrif vegna rusls. Betra er að hafa of mikinn mat fremur en of lítinn. Gott er að taka með sér ruslapoka eða körfu.

Kort 

Ýmiss ferðakort eru til af friðlandinu og fást þau algengustu í flestum bókabúðum á Íslandi. Innan friðlandsins má sjá kort sem Umhverifsstofnun hefur unnið af svæðinu og eru þar merkt inn tjaldsvæði og greinilegar gönguleiðir (stígar/vörður).

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira