Loftgæði

Aukinn iðnaður, nýjar mengunaruppsprettur og vaxandi umferð valda aukinni losun mengandi efna út í andrúmsloftið. Jafnframt aukast áhrif efnanna á heilsu fólks samfara meiri búsetu í þéttbýli. Þekking almennings á mikilvægi heilnæms andrúmslofts og vitund stjórnvalda um nauðsyn vöktunar á loftgæðum hefur farið vaxandi. Svifryk hefur verið einna mest í umræðunni, en mælingar hafa sýnt að það fer annað slagið yfir heilsuverndarmörk á stærstu þéttbýlisstöðum landsins. Umferðin á þar stóran hlut að máli, en náttúrulegir þættir á borð við eldgos og sandfok hafa líka sitt að segja. Af öðrum efnum sem máli skipta má nefna köfnunarefnisoxíð og kolmónoxíð (kolsýru). Loks hefur brennisteinsvetni komist á dagskrá á allra síðustu árum vegna losunar frá jarðvarmavirkjunum á Hellisheiði. Allt hefur þetta áhrif á heilsu og lífsgæði fólks. Því er nauðsynlegt að mæla loftgæðin reglulega og miðla upplýsingum um stöðu mála jafnóðum til íbúa á viðkomandi svæði. Í þeim tilgangi hefur m.a. verið komið upp sérstökum vef með loftgæðamælingum Umhverfisstofnunar. Sjálfbærnivísar gefa hins vegar gott yfirlit yfir stöðu mála og þróun á ársgrundvelli. Umhverfisstofnun hefur haft umsjón með vöktun loftgæða á Íslandi allt frá 1986, og á árinu 2010 var í fyrsta sinn birt sérstök landsáætlun loftgæða. Markmið um loftgæði eru bundin í reglugerð.

Markmið

Umhverfisstofnun hefur sett sér eftirfarandi markmið í loftgæðamálum:

  • Að draga úr losun heilsuskaðlegra efna og efna sem eru hættuleg umhverfinu

Sjálfbærnivísar

Umhverfisstofnun notar eftirtalda sjálfbærnivísa til að fylgjast með loftgæðum og miðla upplýsingum um þau:
  • Svifryk (PM10)
  • Köfnunarefnisdíoxíð (NO2)
  • Kolmónoxíð (CO)
Graf sem sýnir ársmeðaltöl svifryksmælinga á GrensásvegiRyk kemur frá mörgum uppsprettum, bæði náttúrulegum og af mannavöldum. Ryki er gjarnan skipt í tvo meginflokka; fallryk >10 µm (míkrómetrar) í þvermál og svifryk <10 µm í þvermál (PM10). Þung bílaumferð er orsök meginhluta svifryks í andrúmslofti í Reykjavík. Þar er um að ræða rykagnir vegna slits á malbiki, dekkjum og bremsuborðum, en einnig vegna sóts sem myndast við bruna eldsneytis. Í Reykjavík er slit gatna stærsta uppspretta ryks að vetrarlagi og er almenn notkun nagladekkja meginástæða þess. 

Víða um land er einnig talsverð rykmengun frá malarvegum. Loftborinn jarðvegur á líka sinn hlut í svifrykinu, hvort sem hann berst frá verklegum framkvæmdum innan borgarinnar, með hvössum vindi ofan hálendinu eða frá söndum og eldfjöllum á Suðurlandi. Svifryk sem berst niður í lungu hefur heilsuspillandi áhrif og getur dregið úr lífslíkum. Um svifryk gilda sérstök heilsuverndarmörk sem hafa farið stiglækkandi á síðustu árum og eru nú (frá 2010) 20 µg/m3 miðað við ársmeðaltal.

Heimild: Umhverfisstofnun.
Graf sem sýnir ársmeðaltöl mælinga á köfnunarefnisdíoxíði á GrensásvegiKöfnunarefnisdíoxíð (NO2) (einnig nefnt niturdíoxíð) er eitruð lofttegund sem myndast m.a. óbeint vegna bruna eldsneytis í vélum bifreiða. 

Lofttegundin myndar gul mengunarský þegar hún blandast öðrum lofttegundum, hún er heilsuspillandi og eykur t.d. hættu á sýkingum í öndunarfærum. Þar sem hún er mikilvæg við mat á loftgæðum er hún mæld á nokkrum stöðum í Reykjavík. 

Ásamt svifryki er köfnunarefnisdíoxíð það efni sem skerðir loftgæði hvað mest í höfuðborginni, sem og í öðrum borgum. Markmið fyrir loftgæði eru ákveðin í reglugerð. 

Um köfnunarefnisdíoxíð gilda sérstök heilsuverndarmörk, sem eru nú 30 µg/m3 miðað við ársmeðaltal. Frá því á árinu 1995 eiga allar nýjar bifreiðar að vera búnar hvarfakútum sem umbreyta köfnunarefnisoxíði í skaðlaust köfnunarefni (N2).

Heimild: Umhverfisstofnun.

Graf sem sýnir ársmeðaltal mælinga á kolmónoxíði á Grensásvegi

Kolmónoxíð myndast við ófullkominn bruna eldsneytis og er eitt af hættulegustu efnunum sem leynist í útblæstri bifreiða. Það dregur úr súrefnisflutningi frá lungum manna út um líkamann og leiðir með tímanum einnig til aukinnar hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. 

Undanfarin ár hefur styrkur kolmónoxíðs í andrúmslofti við helstu umferðaræðar farið minnkandi. Munar þar sjálfsagt mestu um lögleiðingu hvarfakúta, sem skylt er að hafa í öllum bifreiðum sem framleiddar eru eftir 1995. Hvarfakútar umbreyta kolmónoxíði í koltvísýring (CO2). Markmið fyrir loftgæði eru ákveðin í reglugerð. Um kolmónoxíð gilda sérstök heilsuverndarmörk, sem eru nú 10 mg/m3 miðað við 8 klst. tímabil.

Heimild: Umhverfisstofnun.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira