Loftslagsbreytingar

Reykur úr iðnaðarstromp og skrifað í himinninn CO2Loftslag á jörðinni fer hlýnandi. Yfirgnæfandi líkur eru taldar á að losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eigi þar stóran hlut að máli. Örar loftslagsbreytingar geta haft mikil áhrif á land, vatnafar og lífríki. Breytingarnar geta leitt til ójafnvægis umhverfisþátta, vatnsskorts á sumum stöðum en flóðum á öðrum, bráðnunar jökla og sífrera, aukinna öfga í veðurfari, tilfærslu lífríkis í sjó, breytinga á sýrustigi hafsins og ýmissa annarra þátta sem leiða til hörmunga á mörgum heimssvæðum og mikils fjárhagstjóns. Hlýnun andrúmsloftsins er sameiginlegt áhyggjuefni allra íbúa heimsins.

Ísland fullgilti Rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar árið 1993 og 9 árum síðar fullgilti Ísland Kyoto-bókunina sem gerð var við rammasamninginn árið 1997. Samkvæmt þessu hefur Ísland skuldbundið sig til að vinna með öðrum þjóðum að því að ná tölulegum markmiðum alþjóðasamninga á þessu sviði. Umhverfisstofnun gegnir lykilhlutverki í þessu og heldur m.a. utan um losunarbókhald Íslands og skýrslugjöf til skrifstofu rammasamningsins. Sjálfbærnivísarnir gefa innsýn í nokkra þætti sem tengjast þessu starfi beint eða óbeint.

Markmið

  • Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi

Sjálfbærnivísar

  • Losun gróðurhúsalofttegunda
  • Styrkur koltvísýrings (CO2) í andrúmslofti
  • Ársmeðalhiti í Stykkishólmi
  • Afkoma Vatnajökuls

Graf sem sýnir nettólosun gróðurhúsalofttegunda

Umhverfisstofnun fylgist með losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og skilar árlegum skýrslum þar um til Skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Reyndar snúast þessar skýrslur ekki eingöngu um losun, heldur er þar líka gerð grein fyrir árlegri bindingu kolefnis í skógrækt, landgræðslu o.fl. Losunin er þó sá þáttur sem skiptir hlutfallslega langmestu máli í þessu sambandi. Þjóðir heims hafa auk heldur náð samkomulagi um hvernig reikna skuli losun frá mismunandi starfsemi, þannig að í þessum mælingum er gott samræmi milli þjóða og milli ára.

Hér er losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi sýnd á tvennan hátt. Annars vegar er sýnd losun einstakra lofttegunda, en samtals eru 6 lofttegundir tilgreindar í rammasamningnum. Hér er annars vegar tekin saman í eina tölu losun þeirra þriggja lofttegunda sem innihalda flúor (HFC, PFC og SF6) og hins vegar er losunin sýnd eftir atvinnugreinum. Í báðum tilvikum er losun og binding vegna breytinga á landnotkun undanskilin, en þar eru enn miklar sveiflur milli ára vegna breytinga á reikniaðferðum.

Graf sem sýnir losun gróðurhúsalofttegunda eftir flokkum

Heimild:  Skýrsla Íslands til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar 2010.

Graf sem sýnir styrk koldíoxíðs í andrúmsloftiHækkandi styrkur koltvísýrings (CO2) í andrúmslofti er helsta orsök loftslagsbreytinga af mannavöldum. Styrkur koltvísýrings er jafnan mældur í milljónustuhlutum (ppm (parts per million)). Talið er að styrkurinn hafi verið um 280 ppm (=0,28 prómill (‰)) fyrir iðnbyltinguna (um 1750), en nú er hann um 390 ppm. Fræðilega séð er styrkurinn nánast sá sami hvar sem er á jörðinni, en tímabundinn styrkur er þó að öllum líkindum hærri í námunda við borgir og iðnaðarsvæði. Þess vegna eru mælingar fjarri byggð líklegri til að gefa rétta mynd af raunverulegu ástandi á hverjum tíma. 

Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna (NOAA) hefur um árabil rekið mælistöð í þessu skyni á eldfjallinu Mauna Loa á Hawai. Vegna fámennis á Ísland tiltölulega lítinn þátt í koltvísýringslosun á heimsvísu, en mælingar NOAA gefa vísbendingu um árangurinn af viðleitni Íslendinga og annarra þjóða við að draga úr losun.

Heimild: National Oceanic and Atmospheric Administration (NOAA).
Graf sem sýnir meðalárshita í Stykkishólmi frá 1830 til 2011

Reglulegar mælingar á hitastigi á einstökum stöðum gefa vísbendingar um hvert stefnir í loftslagsmálum, þó að aldrei sé hægt að greina á milli náttúrulegra sveiflna og þeirra áhrifa sem athafnir mannsins hafa á hitastigið. Mælingarnar á Stykkishólmi eru merkilegar fyrir þær sakir að þær hófust árið 1830 og hafa staðið samfellt síðan. Þess vegna var hitastigið í Stykkishólmi valið sem einn af sjálfbærnivísum Umhverfisstofnunar.

Heimild: Veðurstofa Íslands

Graf sem sýnir afkomu vatnajökuls

Jöklar eru mjög næmir fyrir breytingum á veðurfari. Hlýnun andrúmsloftsins kemur þess vegna fljótlega fram í umfangi og rúmtaki jökla. Skipulegar mælingar á legu íslenskra jökulsporða hófust um 1930, og síðar á öldinni var tekið til við víðtækari mælingar á afkomu (vetrarsnjósöfnun og sumarleysingu) jökla. Flestir jöklar hafa hopað verulega á þessum tíma vegna breytinga á hitastigi og úrkomu. 

Vatnajökull er langstærsti jökull landsins og gefur skýrar vísbendingar um þetta samhengi. Hér er þróun jökulsins sýnd sem samanlögð árleg afkoma frá 1991 en þá hófust kerfisbundnar afkomumælingar. 

Samanlögð afkoma er mælikvarði á samanlagða aukningu eða minnkun massa jökulsins á tilteknu tímabili, umreiknað í þykkt vatnslags sem dreift væri jafnt yfir allt yfirborð jökulsins. Talan -10 gefur t.d. til kynna að jökullinn hafi rýrnað (þynnst) sem samsvarar því að 10 m þykkt vatnslag (11 m íslag) hafi verið fjarlægt af öllu yfirborði hans.

Heimild: Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Jöklahópur.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira