14. september 2017

Varasöm markaðssetning á íslenskri ferðaþjónustu


Hákon Ásgeirsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun sem býr yfir mikilli reynslu af landvarðarstörfum, flutti í gær erindi á fundi Íslenska ferðaklasans um ábyrga markaðssetningu. Fram kom í máli Hákonar að markaðssetning á Íslandi sé stundum stórhættuleg og hvetji jafnvel til lögbrota. Dæmi um það sé að standa á ystu nöf einhvers staðar eða aka um svæði sem ekki megi fara um. Með gagnrýni sinni tók Hákon undir orð Davíðs Örvars Hanssonar, stöðvarstjóra Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit í gær.

Fleiri dæmi sem Hákon nefndi í fyrirlestri sínum um óábyrga markaðssetningu lutu að álagi á náttúru og upplýsingum sem ýta undir slys og lögbrot. Kapp hefði verið lagt á að taka undir gríðarfjölda á friðlýstum svæðum. Gæti reynst ferðamanninum erfiðara að virða boð og bönn ef kveikjan að ferðinni til Íslands hefði verið markaðssetning undir merkjum hins algjöra frelsis ferðamannsins, að fara hömlulaust um viðkvæm svæði til að skapa eigin upplifun. Það væri á ábyrgð okkar allra að kynna landið á réttum forsendum. Að kynna landið með draumkenndum hætti, þar sem engar hömlur virtust á veru gesta okkar, gengi ekki. Breyting á hugarfari væri brýn til að stuðla að lögmætri og öruggri ferðaþjónustu.

Um 300 fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa skráð sig sem ábyrg fyrirtæki í markaðssetningu. Utanvegaakstur í kvikmyndum og auglýsingum er eitt af því sem hefur verið gagnrýnt.

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira