30. nóvember 2017

​Eftirlit með skráningum í snyrtivöruvefgátt


Áður en snyrtivara er sett á markað hér á landi þarf að vera búið að skrá upplýsingar um hana rafrænt inn í sérstaka snyrtivöruvefgátt sem haldið er úti af Evrópusambandinu. Þessi skylda fellur á þann sem ber ábyrgð á markaðssetningu vörunnar innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), en það getur verið framleiðandi snyrtivöru innan EES, sá sem flytur inn vörur frá ríkjum utan EES eða dreifingaraðili, ef hann markaðssetur snyrtivöru undir sínu nafni eða vörumerki ellegar breytir vöru sem þegar hefur verið sett á markað. Með skráningunni er á einum stað komið fyrir öllum upplýsingum um snyrtivörur á markaði innan EES til hagsbóta fyrir almenning.

Mikilvægt er að snyrtivörur séu öruggar í notkun. Þurfa framleiðendur að sýna fram á að svo sé með því að láta framkvæma sérstakt öryggismat fyrir hverja og eina vöru sem þeir setja á markað. Upplýsingar úr öryggismati skulu aðgengilegar aðilum sem sinna eftirliti með snyrtivörum, sem og Umhverfisstofnun. Umhverfisstofnun gegnir hlutverki lögbærs yfirvalds í málaflokknum hér á landi. Heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi til snyrtivöruframleiðslu og hafa samkvæmt efnalögum eftirlit með meðferð og merkingum efna og efnablandna hjá starfsleyfishöfum.

Umhverfisstofnun stóð fyrir nokkrum árum að eftirlitsverkefni þar sem skoðaðar voru skráningar í snyrtivöruvefgáttina af hálfu ábyrgðaraðila hér á landi. Nú er því verkefni fylgt eftir með því að fá upplýsingar frá heilbrigðisnefndum um snyrtivöruframleiðendur sem ekki hafa skráð framleiðsluvörur sínar inn í vefgáttina. Jafnframt var með verkefninu miðlað upplýsingum til heilbrigðisnefnda um aðila sem hafa skráð vörur sem þeir framleiða inn í gáttina en eru ekki með starfsleyfi fyrir framleiðslunni, eins og áskilið er.

Með verkefninu náðist til fimm framleiðenda á snyrtivörum sem ekki höfðu skráð vörur sínar á fullnægjandi hátt inn í vefgáttina. Að auki bættust við fjórir ábyrgðaraðilar sem höfðu skráð fyrirtæki sín þar, en láðst að skrá upplýsingar um vörurnar sem þeir bera ábyrgð á.

Þetta eftirlitsverkefni hefur orðið til þess að skráningum innlendra ábyrgðaraðila í snyrtivöruvefgáttina hefur fjölgað og upplýsingar um vörurnar sem þeir setja á markað hafa verið uppfærðar til að uppfylla kröfur. Um leið hefur tekist að auka við þekkingu snyrtivöruframleiðenda og heilbrigðisnefnda á þeim kröfum sem gilda um snyrtivörur og markaðssetningu þeirra með það að leiðarljósi að stuðla að öruggari vörum á markaði í þágu neytenda.

Nánar má lesa um verkefnið í samantekt Umhverfisstofnunar.

(Mynd: Wikimedia)

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira