29. ágúst 2018

Enginn hreindýraveiðimaður staðinn að ólögmætri veiði


Nú stendur hreindýraveiðitímabilið yfir á Austurlandi. Eftirlitsmenn Umhverfisstofnunar fylgjast með veiðimönnum og hafa undanfarna daga stöðvað 28 veiðimenn í fylgd 12 leiðsögumanna.

 Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

 Allir veiðimenn sem lentu í skoðunarúrtakinu höfðu meðferðis leyfisbréf og merki. Allir höfðu merkt felld dýr með plastmerki utan 2 sem voru merkt á staðnum.

 Þrír veiðimenn höfðu ekki tiltækt eintak af rafrænu veiðikorti en tveir þeirra gátu sýnt staðfestingarpóst frá UST um greiðslu. Umhverfisstofnun minnir veiðimenn á að gott er að vista eintak af rafræna veiðikortinu í síma svo það sé ávallt meðferðis, líka utan þjónustusvæðis.

 Einn hafði gleymt skotvopnaleyfi í öðrum bíl og einn gleymt sínu leyfi heima. Ekki eru sérstök viðurlög við því en lögregla hefur heimildir til að stöðva veiðar þeirra sem ekki eru með leyfið tiltækt.

 Einn leiðsögumaður hafði skilið sína pappíra eftir í öðrum bíl en var með öll tilskilin leyfi.

 Í heildina var því enginn staðinn að ólöglegri veiði. Að sögn eftirlitsmanns voru leiðsögumenn og veiðimenn almennt mjög kurteisir og jákvæðir gagnvart eftirlitinu. Í ársskýrslu Umhverfisstofnunar fyrir árið 2017 kemur fram að árið 2016 sættu 103 veiðimenn sem felldu dýr eftirliti. 82% þeirra fengu engar athugasemdir frá eftirliti.

Myndin var tekin um síðustu helgi milli Þrælaháls og Kálffells á Jökuldalsvegi F923 með Snæfell í baksýn. Veiðimenn fylgjast með hreindýrahjörð.

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira