Mengun frá landi

Af allri þeirri mengun sem berst til sjávar eru um 80% upprunnin frá starfsemi í landi. Því er ljóst að ef árangur á að nást í að verja hafið gegn mengun verður að beina athyglinni að starfsemi í landi. Mengun hafsins getur haft víðtæk áhrif. Mengunarefni geta borist til sjávar frá landi á tvennan hátt. Annað hvort sem loftborin mengun með veðri og vindum eða með frárennsli frá landi. Einnig er gerður greinarmunur á því hvort mengun komi frá einni ákveðinni uppsprettu eða fleiri. Frárennsli frá landi kemur annað hvort frá almennum fráveitum, frárennsli frá fyrirtækjum eða afrennsli af landi (vatnsföll/úrkoma). Loftborin mengun getur borist til sjávar annað hvort með ryki, úrkomu eða sem uppgufuð efni eða efnasambönd.

Staðan á Íslandi

Mengun á hafsvæðinu við Ísland, sem er til komin vegna starfsemi á landi, er að hluta til upprunnin hér á landi og að hluta til í öðrum löndum, bæði nær og fjær. Ísland er eyja sem er tiltölulega fjarri öðrum löndum. Hafsvæðið umhverfis landið er með því hreinasta sem vitað er um. Þrátt fyrir það er brýnt að viðhalda nákvæmri vöktun og eftirliti með ástandi sjávar og uppruna mengunar í hafinu. Almennt má segja að næringarefni og olíuefni sem er að finna í hafinu við Ísland af völdum mannlegra athafna séu nær eingöngu upprunnin hér á landi. Þungmálmar og þrávirk lífræn efni rekja uppruna sinn hins vegar til landstöðva bæði hér á landi og erlendis. Nær allur styrkur geislavirkra efna sem mælist í hafinu við Ísland á rætur að rekja til erlendra uppspretta.

 

Framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengun sjávar frá landi

Árið 1990 kom út skýrsla um mengun hafsins sem sérfræðinefnd Sameinuðu þjóðanna (GESAMP: Group of Experts on the Scientific Aspects of Marine Pollution) stóð fyrir. Í henni var staðfest að 80 % af mengun hafsins kæmi frá landi. Niðurstöðurnar ýttu undir og styrktu þá skoðun að verulega skorti á alþjóðlega samvinnu til að draga úr mengun frá landi. Niðurstöður skýrslunnar höfðu veruleg áhrif á undirbúning þess kafla Dagskrár 21 sem fjallar um hafið. Í kjölfar Ríóráðstefnunnar árið 1993 samþykkti UNEP á ársfundi sínum tillögu frá Íslandi og nokkrum öðrum ríkjum að halda sérstaka milliríkjaráðstefnu um verndun hafsins gegn mengun frá landi. Ráðstefnan var haldin í Washington, haustið 1995. Þar samþykktu 114 þjóðir alþjóðlega framkvæmdaáætlun um að draga úr mengun sjávar frá landstöðvum og markaði samþykktin tímamót í baráttunni gegn mengun hafsins. Íslensk stjórnvöld áttu stóran þátt í að ná þessari samþykkt fram. Hin alþjóðlega framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengun hafsins frá landi (GPA: Global Programme of Action for the Protection of the Marine Environment from Land-based Pollution) er umfangsmikil. Áætlunin hefur að geyma pólítísk markmið og tilmæli um aðgerðir sem ríkjum er ætlað að fylgja við gerð sinna eigin áætlana. Má þar nefna aðgerðir til að draga úr mengun af völdum þungmálma, þrávirkra lífrænna efna, geislavirkra efna, næringarsalta, olíu og skólps. Einnig hefur áætlunin að geyma tilmæli til alþjóðastofnana um beinar aðgerðir og samvinnu sín í milli til að aðstoða ríki, einkum þróunarríkin, við framkvæmd áætlunarinnar og þá sérstaklega varðandi skólp og frárrennslismál. Í framhaldi af samþykktinni fól umhverfisráðuneytið Umhverfisstofnun að vinna að gerð framkvæmdaáætlunar fyrir Ísland. Skýrslan var síðan lögð fyrir ríkisstjórnina og hefur verið staðfest af henni. Skýrslan var gefin út af umhverfisráðuneytinu í nóvember 2001.

Í framhaldi af samþykktinni fól umhverfisráðuneytið Hollustuvernd ríkisins (nú Umhverfisstofnun) að vinna að gerð slíkrar framkvæmdaáætlunar fyrir Ísland. Skýrslan var síðan lögð fyrir ríkisstjórnina og hefur verið staðfest af henni.Framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengun sjávar.

 

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira