Stjórn vatnamála

Vatn er forsenda alls lífs á jörðinni, því allt líf þarf á vatni að halda. Vatn er lykilþáttur í mótun landslags og er eitt af grunnþörfum okkar. Við notum það inni á heimilum, við ýmiskonar iðnað og framleiðslu s.s. ræktun, landbúnað og fiskiðnað, og til rafmagnsframleiðslu (vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir). Auk þess nýtum við að stórum hluta ár, stöðuvötn og fjörur til útivistar og ferðamennsku og ekki má gleyma drykkjarvatninu góða.

Ástand vatns á Íslandi

Ísland er auðugt af vatni og almennt talið að ástand vatns sé gott. Miklu máli skiptir fyrir viðskipti, ímynd og umhverfisgæði landsins að geta sýnt fram á að svo sé þar sem hér á landi er ýmis starfsemi sem getur valdið álagi á vatn. Síðan 2011 og áfram næstu árin fer fram greining á því hver staðan er í raun og grundvallast sú vinna á aðferðarfræði sem er sambærileg milli landa Evrópu. Vinnan stuðlar að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar.


Stöðuskýrsla fyrir vatnasvæði Íslands er fyrsta skrefið í gerð heildstæðrar vatnaáætlunar. Í henni er fjallað um skiptingu vatns í vatnshlot og gerðir, þætti sem geta valdið álagi á vatn og hvort hætta sé á að vatnshlot standist ekki umhverfismarkmið um gott ástand. 


Árið 2011 var tekið mikilvægt skref í vatnsvernd hér á landi þegar rammatilskipun Evrópusambandsins um verndun vatns (vatnatilskipun 2000/60/EB) var innleidd með nýjum lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Í kjölfarið fylgdu tvær reglugerðir, nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun og nr. 935/2011 um stjórn vatnamála.

 

Innleiðing vatnatilskipunar er hluti af skuldbindingu Íslands samkvæmt EES samningnum og mun eftirlitsstofnun EFTA fylgjast með hverju skrefi í innleiðingunni hér á landi.


Samkvæmt lögunum nær vatn yfir straumvötn, stöðuvötn, árósa, strandsjó, grunnvatn og jökla.


Lögin um stjórn vatnamála mynda ramma yfir margar reglugerðir á sviði umhverfismála. Þær helstu eru reglugerð um neysluvatn, um varnir gegn mengun vatns, um varnir gegn mengun grunnvatns, um fráveitur og skolp, um meðhöndlun seyru, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri og um mengunarvarnaeftirlit. Að auki tengjast tilskipanir ESB um flóð og haf lögum um stjórn vatnamála.


Í nýju stjórnkerfi vatnamála er Ísland eitt vatnaumdæmi, skipt niður í fjögur undirsvæði, svokölluð vatnasvæði, samkvæmt reglugerð um stjórn vatnamála. Á hverju vatnasvæði starfar vatnasvæðisnefnd og á landsvísu skulu starfa tvær ráðgjafanefndir. Eitt vatnaráð starfar auk þess á landsvísu og er megin hlutverk þess að vera ráðherra til ráðgjafar um stjórn vatnamála.


Með heilstæðri stjórn vatnamála er gert ráð fyrir að allir sem nota vatn eða valda álagi á vatn starfi saman og taki þátt í verkefninu, þvert á sveitarfélagsmörk. Stjórn vatnamála er þannig samvinnuverkefni stjórnvalda, stofnana, ráðgjafa, sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda og náttúruverndar- eða umhverfisnefnda sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings sem m.a. vinna saman í vatnasvæðisnefnd á hverju vatnasvæði. Einnig munu sérfræðingar samstarfsstofnanna á sviði ferskvatns og sjávar vinna sérhæfð verkefni. 

Markmið stjórnar vatnamála

Markmið stjórnar vatnamála er að 

 • vernda vatn og vistkerfis þess, hindra frekari rýrnum vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatni njóti heilstaðrar verndar. 
 • jafnframt að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnaauðlindarinnar. 

Til að ná fram markmiðunum skal vinna vatnaáætlun, aðgerðaráætlun og vöktunaráætlun. 

Samvæmt lögunum skal allt vatn vera í mjög góðu eða góðu vistfræðilegu og efnafræðilegu ástandi þó með þeim fyrirvara að aðgerðir til þess rýri ekki hag íbúa og kostnaður ekki úr hófi fram (sjá 16 og 18 gr. laga um stjórnvatnamála). 

Innleiðingartímabil stjórnar vatnamála

Innleiðingartímabil stjórnar vatnamála stendur yfir árin 2011-2015. Meðal verkefna á því tímabili er að skipta vatni upp í vatnshlot og gerðir þeirra, safna tiltækum gögnum um vatn, kortleggja vernduð svæði, greina umhverfisvandamál, leggja mat á álag á vatn og áhrif þess, kortleggja ástand vatns og gæðaflokka vistfræðilegt ástand þess, setja fram umhverfismarkmið um að bæta eða viðhalda ástandi vatns, leggja fram aðgerðaráætlun svo að markmiðin náist og áætlun um heilsteypta vöktun vatns hér á landi. 

Umhverfisstofnun hefur lagt fram Áfanga- og verkáætlun 2011-2015 sem lýsir innleiðingunni skref fyrir skref. Áætlunin var í opinberri kynningu frá 3. nóv. 2011 til 2. maí 2012.

Stöðuskýrslan var unnin undir umsjón Umhverfisstofnunar í samráði við vatnasvæðanefndir og komu ráðgjafanefndir, heilbrigðisnefndir sveitarfélaga og sérfræðistofnanir auk þess að henni. Drög að skýrslunni voru sett í kynningu í sex mánuði í þeim tilgangi að fá fram umræðu meðal almennings, sveitarfélaga, hagsmunaaðila og þeirra sem vinna með vatn. Á kynningartímanum bárust ný gögn, ásamt leiðréttingum og ábendingum, sem tekið var tillit til í endanlegri stöðuskýrslu, og hefur hún því tekið töluverðum breytingum síðan.

Stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands


Endanleg stöðuskýrsla fyrir vatnasvæði Íslands var gefin út þann 20. desember 2013.Athugasemdir sem bárust á kynningartíma fyrir drög að stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands:


Skýrsla til Eftirlitsstofnunar EFTA um innleiðingu vatnatilskipunar ESB (samanber greinar 5 og 6).


Flokkun vatns í vatnshlot er forsenda stjórnar vatnamála. Samkvæmt reglugerð nr. 535/2011, um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun skal skipta öllu vatni, bæði yfirborðsvatni og grunnvatni í vatnshlot. Sú flokkun er óháð stjórnsýslumörkum því að vatn getur runnið í gegnum fleiri en eitt sveitarfélag á leið sinni til sjávar. Álag af völdum mengunar eða annarra þátta getur haft þau áhrif að vatnshlotum fjölgi. Þannig getur þurft að skipta einni á upp í tvö vatnshlot, þ.e. lítt snortinn hluta og raskaðan/mengaðan hluta. 

Álagsgreining vatnshlota

Greina skal allt álag sem hefur eða getur haft neikvæð áhrif á vatnshlot. Síðan skal meta hvaða álagsþáttur hefur mest áhrif, hver næst mest o.s.frv. Einnig skal lýsa með hvaða hætti hver álagsþáttur hefur neikvæð áhrif á vatnshlot svo að hægt sé að undirbúa aðgerðir til að draga úr eða koma í veg fyrir viðkomandi álagsþátt. 

Fyrir hvert vatnasvæði skal setja fram umhverfismarkmið um að draga úr álagi og bæta eða viðhalda ástandi vatns. Samkvæmt lögum um stjórn vatnamála skal markmiðunum náð eigi síðar en 6 árum eftir að fyrsta vatnaáætlun hefur verið staðfest, eða árið 2021. 

Vistfræðileg gæðaflokkun vatnshlota 

Skilgreining á vistfræðilegu ástandi vatns nær til flóru og –fánu, næringarefnainnihalds, þátta eins og seltu og hitastig, efnamengun, vatnsmagn, rennslismagn, vatnsdýpi og lögun vatnsfarvegar. Flokkunarkerfi fyrir vistfræðilegt ástand yfirborðsvatns gerir ráð fyrir fimm gæðaflokkum:


 • Mjög gott ástand/náttúrulegt ástand 
 • Gott ástand
 • Ekki viðunandi ástand 
 • Slakt ástand 
 • Lélegt ástand

Flokkunarkerfi fyrir grunnvatn miðar við efnaástand og magnstöðu, þar sem flokkar eru tveir: 


 • Gott
 • Slakt
Um verkefni innleiðingatímabilsins verður fjallað í vatnaáætlun fyrir landið í heild og verða helstu þættir hennar því flokkun vatns í vatnshlot, kortlagning álags og áhrifa á vatnshlot, yfirlit yfir vernduð svæði, umhverfismarkmið, flokkun á ástandi, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun.

Umhverfisstofnun mun útbúa tillögu að vatnaáætlun í samvinnu við þá aðila sem að stjórn vatnamála koma, undir umsjón vatnaráðs sem skipað var um mitt ár 2011. Við gerð hennar verður haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila og almenning, m.a. með opinberri kynningu á tillögu áætlunarinnar sem hefst seinnihluta árs 2014. Stöðuskýrsla um vatnasvæði Íslands, sem verið er að vinna með, mun liggja til grundvallar vatnaáætlun.


Hver vatnaáætlun gildir í 6 ár í senn og á næstu 6 ára tímabilum verður hún endurskoðuð og betrumbætt. Gert er ráð fyrir að fyrsta vatnaáætlun Íslands taki gildi í byrjun árs 2016.

Vatnshlotavefsjá er eitt helsta verkfæri sem nota á við framkvæmd laga um stjórn vatnamála (lög nr. 36/2011). Vefsjánni er ætlað að gegna tvíþættu hlutverki þar sem stjórnsýslu- og fagaðilar geta fært inn upplýsingar um ástand vatns og almenningur og hagsmunaaðilar geta nálgast sömu upplýsingar á einfaldan og gagnsæjan hátt. Veðurstofa Íslands sá um uppsetningu vefsjárinnar. 
 

Í þessari fyrstu útgáfu vefsjárinnar er hægt að skoða eftirfarandi gögn og upplýsingar:


 • Vatnshlot og vatnshlotaflokka
 • Stjórn vatnamála og svæði
 • Eftirlit og vöktun 
 • Eiginleikagreiningu vatnshlota 
 • Náttúrufar og landgerð 
 • Bakgrunnskort 


Ávallt er reynt að sýna nýjustu upplýsingar og/eða gögn í Vatnshlotavefsjánni. Ef notendur verða hins vegar varir við villur eða vilja koma á framfæri athugasemdum og/eða ábendingum varðandi innihald vefsjárinnar eru þeir hvattir til þess að nýta sér ábendingakerfi Umhverfisstofnunar á vefsvæði stjórnar vatnamála.


Vefsjánni fylgja leiðbeiningar á formi notendahandbókar sem notendur eru hvattir til að kynna sér þegar kortasjáin er notuð í fyrsta sinn. Til þess að geta notað vefsjána þarf Microsoft Silverlight að vera uppsett á tölvu notandans (sjá nánar í notendahandbók).

HvaleyrarholtHVALEYRARH_PM10_AV10MINSvifryk18 µg/m³1HvaleyrarholtHVALEYRARH_H2S_AV10MINBrennisteinsvetni-1 µg/m³1HvaleyrarholtHVALEYRARH_SO2_AV10MINBrennisteinsdíoxíð-0 µg/m³1