CITES

Merki CITESCITES er samningur um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu gerður í Washington 3. mars 1973 ásamt síðari breytingum og viðaukum. Markmið samningsins er að vernda tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu með því að stjórna alþjóðlegum viðskiptum með þær. Samningurinn gildir um verslun með tegundir eða afurðir um 5.000 dýrategunda og 25.000 plöntutegunda.

Á Íslandi eru í gildi: Lög um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, nr. 85/2000 og reglugerð um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, nr. 993/2004.

Umhverfisráðuneytið fer með yfirstjórn CITES samningsins á Íslandi en Umhverfis­stofnun veitir leyfi, annast eftirlit o.þ.h. Náttúrufræðistofnun Íslands veitir vísindalega ráðgjöf varðandi greiningu eintaka, verndarstöðu þeirra o.fl.

Sjávarútvegsráðuneytið fer með yfirstjórn mála er varða nytjastofna sjávar, samanber reglugerð nr. 829/2005 um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu.

Þeir sem hyggjast flytja inn eða út tegundir eða afurðir tegunda sem tilgreindar eru í viðaukum reglugerðar, þurfa að sækja um CITES-leyfi hjá Umhverfisstofnun. Sækja þarf um slík leyfi fyrir alla alþjóðlega verslun svo sem inn- og útflutning heildsala, einkaaðila og einnig fyrir flesta minjagripi úr afurðum þeirra tegunda sem ofangreind reglugerð tekur til. Héðan í frá þarf því t.d. leyfi fyrir innflutningi minjagripa úr fílabeini, hvalbeini, rostungstönnum og ýmsum náttúrulyfjum sem innihalda afurðir CITES tegunda.

Við innflutning lifandi dýra og afurða þeirra þarf einnig að huga að öðrum reglum sem í gildi eru.  Í raun er óheimilt að flytja með sér lifandi dýr til Íslands nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra, enda sé stranglega fylgt þeim fyrirmælum sem um slíkan innflutning eru sett.  Nánari upplýsingar varðandi innflutning og sjúkdómavarnir er að finna heimasíðu Matvælastofnunar.

Erlend CITES yfirvöld

tígrisdýrMeðal þeirra fjölmörgu tegunda sem háðar eru CITES vottorðum eru fílar, nashyrningar, hvítabirnir, tígrisdýr og fleiri tegundir kattardýra, krókódílar, ýmsar eðlur, antilóputegundir, skjaldbökur, fjöldi skrautfugla, hvalir, styrjur (kavíar), nokkrar tegundir kaktusa, orkideur, og nokkrar tegundir harðviðar, svo og afurðir og fullunnar vörur úr afurðum þessara tegunda.  CITES tegundir eru flokkaðar á eftirfarandi hátt.

Viðauki I:  Í þessum viðauka eru um 500 tegundir sem eru í útrýmingarhættu. Alþjóðleg verslun með þessar tegundir er háð mjög ströngum reglum og er heimiluð aðeins í undantekningartilvikum og með því skilyrði að inn- og útflutningsleyfi sé fyrir hendi.

Viðauki II:  Í þessum viðauka eru um 2.500 dýrategundir og 25.000 plöntutegundir sem kunna að verða í útrýmingarhættu ef alþjóðlegri verslun með þær er ekki stjórnað. Alþjóðleg verslun með þessar tegundir er heimiluð með því skilyrði að útflutningsleyfi sé fyrir hendi. Nokkur aðildarríki, þar á meðal Ísland, krefjast einnig innflutningsleyfis fyrir þessar tegundir.

Viðauki III: Í þessum viðauka eru  um 250 tegundir sem verndaðar eru í einstökum aðildarríkjum samningsins og þau tilnefna í þeim tilgangi að önnur aðildarríki aðstoði þau við að koma í veg fyrir ólöglega verslun með þær. Alþjóðleg verslun með þessar tegundir er háð leyfi frá upprunalandi þeirra.

Leyfi til innflutnings eintaka/tegunda er aðeins gefið út að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

Viðauka I eintök/tegundir:

 • Sótt hafi verið um útflutningsleyfi/endurútflutningsleyfi í útflutningslandinu og fyrir liggi bráðabirgðaútflutningsleyfi.
 • Fyrir liggi umsögn vísindalegs stjórnvalds hér á landi um að innflutningur muni ekki stefna viðkomandi tegund í útrýmingarhættu, fyrirhugaður viðtakandi lifandi eintaks hafi viðeigandi aðbúnað til þess að hýsa viðkomandi tegund og ekki séu aðrar ástæður varðandi verndun tegundarinnar sem mæla gegn útgáfu innflutningsleyfisins.
 • Ekkert bendi til þess að nota eigi eintakið fyrst og fremst í viðskiptalegum tilgangi.

 Viðauka II eintök/tegundir:

 • Leyfi til innflutnings krefst að útflutningsleyfi/endurútflutningsleyfi hafi verið gefið út í útflutnings­landinu.

Viðauka III eintök/tegundir:

 • Innflutningur aðeins heimill ef framvísað er upprunavottorði. Innflutningur frá ríki sem hefur tilgreint viðkomandi tegund á III. viðauka er aðeins heimill ef framvísað er útflutningsleyfi. Þegar um endurútflutn­ing er að ræða er innflutningur heimill gegn framvísun vottorðs frá endurútflutningslandinu um að eintakið hafi verið skráð þar í landi eða sé endurútflutt. Slíkt vottorð gildir sem viður­kenning þess að ákvæðum samningsins hafi verið fylgt varðandi viðkomandi eintak.


Feldir af dýrumInnflutningur, útflutningur/endurútflutningur CITES tegunda er háður leyfi/vottorði útgefnu af Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun er heimilt að gera upptæk eintök dýra eða plantna og afurða þeirra sem hafa verið flutt eða reynt hefur verið að flytja ólöglega til landsins.

Tollyfirvöld annast skoðun á eintökum og gögnum sem þeim fylgja við inn- og útflutn­ing. 

Innflutningur og útflutningur á lifandi dýrum og plöntum hér á landi skal fara í gegnum tollstöðina á Keflavíkurflugvelli eða um eftirfarandi hafnir: Reykjavíkurhöfn, Keflavíkurhöfn, Hafnafjarðarhöfn, Akureyrarhöfn eða Seyðisfjarðarhöfn.

Prenthæf umsókn um útflutning/innflutning.

Rafræn umsókn um útflutning/innflutning

CITES leyfa er ekki krafist í eftirfarandi tilfellum:

 • Við flutning eða umskipun eintaka í eða gegnum lögsögu Íslands á meðan eintökin eru í vörslu tollayfirvalda.
 • Þegar um er að ræða lán sem ekki eru viðskiptalegs eðlis, gjafir og skipti milli vísindamanna og viðurkenndra vísinda­stofnana sem skráðar hafa verið á lista samningsins yfir vísindamenn og vísindastofnanir, plöntueintök í grasasöfnum og önnur varðveitt, þurrkuð eða uppsett safneintök og lifandi efni plantna sem bera merki sem gefið er út eða viðurkennt af leyfisveitanda.
 • Eintök sem eru hluti af ferðadýragarði, fjölleikahúsi, dýra- eða plöntusýningu eða annarri farandsýningu gegn því að viðkomandi útflytjandi eða innflytjandi skrái allar upplýsingar um eintökin hjá leyfisveitanda.
 • Fyrir dauð eintök, hluta og afurðir tegunda, ef um er að ræða persónubundna eign sem aflað hefur verið á löglegan hátt, án viðskiptalegs tilgangs, í því landi sem eigandinn hefur búsetu og borin er af viðkomandi einstaklingi, er í farangri hans eða er hluti af búslóð hans við flutninga milli landa.
 • Styrjukavíar (tegundir af ættbálki Acipenseriformes), að hámarki 250 grömm á mann.
 • Hristur (rainsticks) úr afurðum af ætta Cactaceae, að hámarki þrjár á mann.
 • Krókódílar, að hámarki fjögur eintök á mann.
 • Skeljar af tegundinni Queen conch (Strombus gigas), að hámarki þrjú eintök á mann.

Ýmsir munir gerðir úr dýrumFerðamaður í útlöndum verður að huga að CITES reglum í viðkomandi landi við kaup á minjagripum sem hugsanlega geta verið afurðir CITES tegunda.  Hverju aðildarríki CITES samningsins er frjálst að setja sér strangari reglur en koma fram í grunnsamningnum.  Þess vegna er afar mikilvægt að hver og einn kynni sér hvaða reglur gilda í viðkomandi landi um útflutning á minjagripum og verði sér út um útflutningsleyfi eftir sem við á.  Vert er að benda á að CITES reglur gilda um öll eintök tegunda á VIÐAUKUM óháð aldri þeirra, hvort þau eru keypt, fengin gefins, fundin, ræktuð o.s.frv.

Einnig verða ferðamenn að þekkja CITES reglur sem gilda um innflutning til Íslands.
Ekki má taka með til Íslands minjagripi af tegundum á viðauka I.  Umhverfisstofnun gefur út innflutningsleyfi fyrir minjagripi af tegundum á viðauka II ef framvísað er útflutningsleyfi frá því landi sem minjagripurinn var keyptur.  Ekki þarf innflutningsleyfi fyrir minjagripi af tegundum á viðauka III nema að eintakið sé háð útflutningsleyfi í viðkomandi landi.  Minjagripur telst eintak sem ferðamaður ber á sér eða hefur í handfarangri við komu til Íslands.  Minjagrip má ekki senda til Íslands með pósti og ekki má selja minjagrip á Íslandi sem fluttur hefur verið inn sem slíkur.

Því er ferðafólki ráðlagt að kaupa ekkert sem það er ekki öruggt með að sé löglegt að flytja út úr viðkomandi landi og flytja með heim til Íslands!

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira