Loftslagsbreytingar

Myndin sýnir útstreymi frá verksmiðjustrompum að sólarlagi

Losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum veldur loftslagsbreytingum og afleiðingar þessara breytinga á jörðinni eru meðal annars þær að jöklar bráðna, yfirborð sjávar hækkar,vistkerfi raskast og öfgar í veðurfari aukast. Auk þess verða breytingar á lífsskilyrðum í sjó vegna breytinga á straumum, sýrustigi og seltu. Ekki er hægt að vita með vissu allar þær afleiðingar sem loftslagsbreytingar hafa á mannkynið en það er ljóst að aukin losun gróðurhúsalofttegunda raskar því jafnvægi sem annars var til staðar fyrir iðnbyltingu Efni sem teljast til gróðurhúsalofttegunda eru: koltvíoxíð (CO2), metan (CH4), hláturgas (N2O), vetnisflúorkolefni (HFC), flúorkolefni (PFC), niturtríflúoríð (NF3) og brennisteinshexaflúoríð (SF6). Einnig geta önnur efni haft áhrif á loftslagsbreytingar, eins og sót (black carbon). Bruni jarðefnaeldsneytis hefur leitt til mikillar losunar koldíoxíðs (CO2) út í andrúmsloftið frá upphafi iðnbyltingar snemma á nítjándu öld. Styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu var árið 2016 kominn yfir 400 ppm og hefur aukist um 43% frá upphafi iðnbyltingar, en þá er hann talinn hafa verið um 280 ppm. Þessi aukning á að miklu leyti rætur að rekja til mannlegra athafna, þá einkum til bruna á jarðefnaeldsneyti og eyðingar skóga.

 

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur lagt mat á hugsanlega þróun í útstreymi gróðurhúsalofttegunda til næstu aldamóta og hefur í því sambandi skilgreint mismunandi sviðsmyndir sem byggja á forsendum um fólksfjölgun, efnahagsþróun, tækniþróun og aðgerðir til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Bjartsýnasta sviðsmyndin, þar sem gert er ráð fyrir umfangsmiklum mótvægisaðgerðum sem miða að því  að verulega sé dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda, myndi leiða til þess að styrkur koltvíoxíðs yrði 430 ppm um næstu aldamót. Svartsýnasta sviðsmynd IPCC, þar sem losun eykst og engar mótvægisaðgerðir eru framkvæmdar, myndi leiða til þess að styrkur koltvíoxíðs færi yfir 1000 ppm.

 

Hve mikil hnattræn hlýnun af mannavöldum verður, ræðst af þróun í útstreymi gróðurhúsalofttegunda. IPCC spáir hækkun á hitastigi á bilinu 0,3-4,8°C næstu hundrað árin. Talið er að hlýnað hafi um 0,72°C síðustu hundrað árin (1906-2005) og svo virðist sem hraði hlýnunarinnar hafi aukist á síðustu 20 árum.

 • Áhrif á jörðinaHlýnun lofthjúpsins er óumdeilanleg staðreynd, sem kemur m.a. fram í hækkun á meðalhitastigi andrúmsloftsins og hafsins, víðtækri bráðnun á snjó og ís og...
  Nánar
 • GróðurhúsalofttegundirUpplýsingar um þær lofttegundir sem valda gróðurhúsaáhrifum.
  Nánar
 • SkuldbindingarRammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar (loftslagssamningurinn) hefur það meginmarkið að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu...
  Nánar
 • Losun ÍslandsRammasamningur SÞ um loftslagsbreytingar kveður á um að aðildarríki skuli halda losunarbókhald. Megintilgangur bókhaldsins er að fylgjast með losun...
  Nánar
 • Viðskiptakerfi ESBViðskiptakerfið, í almennu máli nefnt ETS (stendur fyrir Emission Trading System), gegnir lykilhlutverki í aðgerðum Evrópusambandsins gegn loftslagsbreytingum...
  Nánar
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira