Á ferðinni

Myndin sýnir hjólreiðamann í umferðinniÁstundum skynsamar ferðavenjur

Samgöngur er ein af aðaluppsprettum losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi auk þess sem þær hafa áhrif á loftgæði. Við bruna á jarðefnaeldsneyti, og ekki síður við framleiðslu þess og flutning til landsins, losnar mikið af gróðurhúsalofttegundum. Nýjustu tölur sýna að um 20% af útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi eru vegna samgangna og þar með eru samgöngur önnur stærsta uppsprettan. Heildarútstreymi vegna samgangna á Íslandi er mjög hátt miðað við höfðatölu enda notkun einkabílsins með því mesta sem gerist í heiminum eða um 660 ökutæki á hverja 1000 íbúa. Þar sláum við þá nágranna okkar á Norðurlöndunum út með miklum mun þó veðráttan sé svipuð og meira að segja ívið mildari hér á veturna. Tilhneigingin undanfarin ár hefur verið að kaupa frekar stóra eldsneytiskrefjandi bíla og því er Ísland einnig hátt á lista yfir losun gróðurhúsalofttegunda á hvern ekinn kílómetra. Hér er stórt tækifæri til umbóta og löngu tímabært að við snúum við blaðinu og sýnum í verki að við getum verið til fyrirmyndar í vistvænum samgöngum. Samkvæmt ferðavenjukönnun sem gerð var árið 2008 fóru 75% íbúa á höfuðborgarsvæðinu á einkabíl til vinnu eða skóla, 6% með almenningssamgöngum og 12% gangandi og hjólandi. Yfirvöld hafa sett fram stefnu um að auka hlutdeild gangandi og hjólandi og notenda almenningsvagna til að leiðrétta þessa þróun. Það getur verið erfitt að breyta út af vananum en með samstilltum vilja má áorka miklu. Stundum er betra en aldrei!

Ástundum virkar samgöngur

Að ganga og hjóla er ekki aðeins gott fyrir umhverfið og fjárhaginn heldur ekki síst fyrir heilsuna (brennum líkamsfitu, hún er „innlent eldsneyti“). Könnun á ferðavenjum höfuðborgarbúa sýnir að meðalferð er aðeins um 6 km löng og ferðatími 8 mínútur. Um 30% íbúa búa innan við 2 km fjarlægð frá vinnu og rúmur helmingur í innan við 5 km fjarlægð. Þessar vegalengdir henta mjög vel til göngu og fljótfarnar á hjóli. Það er mikill misskilningur að ekki sé hægt að nota hjól á Íslandi sem valkost í samgöngum. Hjólreiðar eru frábær ferðamáti og draga síður en svo úr lífsgæðum þínum. Hér má sjá dæmi um hversu stórt svæði hægt er að ferðast um á korteri, sem er vel ásættanlegur ferðatími fyrir hjólandi eða gangandi vegfarendur. Göngu- og hjólreiðastígar á höfuðborgarsvæðinu batna með hverju árinu og sýnt hefur verið fram á að fjárfestingar sem leiða til aukningar á hlutdeild virkra samganga hafa í för með sér hreinan ábata fyrir samfélagið. Tökum þátt í að breyta útaf vananum, nýtum og köllum eftir betri aðstöðu fyrir göngu- og hjólreiðafólk. Kannaðu sjálf/ur þessa samgöngumáta sem valkost á þínum ferðalögum og sjáðu hversu mikinn sparnað það hefur í för með sér, fjárhagslega og umhverfislega og mundu að heilsan nýtur góðs af því líka. Stundum er betra en aldrei.

Notum almenningssamgöngur

Að nota almenningssamgöngur sparar útblástur gróðurhúsalofttegunda beint og óbeint ef það dregur úr notkun einkabílsins. Það aftur dregur úr álagi á samgöngumannvirki og um leið úr kostnaði samfélagsins vegna viðhalds og reksturs og þar með umhverfisáhrifum. Á Íslandi hefur notkun almenningsvagna verið frekar lítil en með aukinni notkun eykst þrýstingur á stjórnvöld um bætta þjónustu. Svo: ekki bíða, prófum strætó! Í sérstökum tilfellum má svo nota leigubíla. Það má spara ótrúlegar upphæðir og losun gróðurhúsalofttegunda á ári hverju með því að losa sig við einkabílinn. Skoðum dæmið til enda: Samkvæmt mati FÍB á rekstri fólksbifreiða sem hækkar ár frá ári má fyrir rekstrarkostnað meðalbifreiðar fyrir árið 2010 fjárfesta í árskorti í strætó og nota afganginn í hvorki meira né minna en 385 leigubílaferðir (miðað við gjaldskrá Hreyfils-Bæjarleiða í janúar 2010). Þá er gert ráð fyrir blönduðum ferðum stórhátíðadaga, kvöld og helgar sem og virka daga, og miðað við meðalferðalengd samkvæmt ferðavenjukönnunum. Venjum börnin okkar á að taka strætó, þau eru fljót að læra á kerfið og verða sjálfstæðari fyrir vikið. Í nokkrum sveitarfélögum á landinu er boðið uppá svokallaðar tómstundaferðir, þar sem börnum er ekið saman eða þeim fylgt í strætó milli skóla og tómstunda. Það er tvímælalaust hagræðing fyrir alla aðila og kemur í veg fyrir heilmikið skutl. Kynntu þér hvernig þessu er háttað í sveitarfélaginu þínu!

Notum vistvæna leigubíla

Oft er nauðsynlegt að komast fljótt og örugglega milli staða og þá geta leigubílar verið góður kostur. Nokkrir leigubílar á höfuðborgarsvæðinu keyra á metangasi sem unnið er úr hauggasi frá urðunarstað SORPU í Álfsnesi og er mun umhverfisvænna en hefðbundið eldsneyti. Sýnum áhuga okkar í verki, spyrjumst fyrir um metandrifna leigubíla og hvetjum þannig til góðra verka.

Veljum sparneytnari ökutæki og vistvænna eldsneyti

Þegar næst kemur að því að endurnýja ökutæki heimilisins er vert að kanna hvort megi gera samgöngur heimilisins vistvænni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Könnum framboðið, gerum samanburð á visthæfi, verði og rekstrarkostnaði bíltegunda áður en við kaupum bara næsta bíl. Til að stuðla að vistvænu vali hafa yfirvöld fellt niður með bráðabirgðaákvæðum vörugjöld af ökutækjum sem nota óhefðbundinn og visthæfan orkugjafa svo sem rafmagn, metan eða vetni að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu. Einnig má leggja visthæfum bílum (knúnir með rafmagni, metani eða hafa útblástursgildi undir 120 g CO2 á hvern kílómetra) ókeypis í bílastæði í Reykjavík. Hafa þarf svokallaða bílastæðaskífu í bílnum til að sýna fram á þetta. Rafmagns- og metanbifreiðar eru frekar nýjar á markaði og í hraðri þróun, könnum málið og tökum meðvitaða ákvörðun um val á bifreiðum. Bílum með bensínvélar má breyta þannig að þeir geti líka gengið á metani og bjóða sífellt fleiri aðilar upp á slíka þjónustu. Metan er mun ódýrara en hefðbundið eldsneyti og þar sem það er framleitt úr hauggasi sparast umtalsverð losun gróðurhúsalofttegunda með því að nota metan á bílinn.

Keyrum minna

Flestar akstursferðir okkar innanbæjar eru skutlferðir, stuttar og oft ónauðsynlegar ferðir. Með því að skipuleggja ferðir heimilisins, nota aðra ferðamáta en bílinn og samnýta þær ferðir sem nauðsynlegar eru má draga töluvert úr eldsneytiseyðslu og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki vera bara úti að aka!

Gerum bílinn grænan

Gott viðhald bílsins og umgengni getur dregið verulega úr eldsneytisnotkun og gerir því aksturinn visthæfari. Fylgjumst með loftþrýsting í dekkjum. Lágur loftþrýstingur í dekkjum eykur eldsneytisnotkun og veggripið er lakara. 

  • Engan aukafarangur, öll viðbótarþyngd og aukahlutir sem auka loftmótstöðu ökutækisins eykur eldsneytiseyðslu. Farangursgrind á toppnum, sem ekki er í notkun, getur aukið eldsneytiseyðslu um 20 % að óþörfu. 
  • Engan lausagang, í nútímabílum þarf ekki að hita vélina áður en ekið er af. Vert er að athuga hvort nota megi hreyfilhitara. Allur lausagangur er óþarfa sóun á eldsneyti, ef biðin er meiri en mínúta borgar sig að drepa sig á vélinni. 
  • Nota loftkælinguna sparlega, hún er mjög orkufrek. 
  • Ekki nota nagladekk nema nauðsyn beri til. Nota má í staðinn loftbóludekk eða harðkornadekk og gott er að takmarka notkun vetrardekkja einsog hægt er. Notkun nagladekkja eykur á eyðingu yfirborðs gatna og þar með þörf á viðhaldi, viðhaldið veldur aukinni losun gróðurhúsalofttegunda og svifryk í lofti getur einnig valdið auknum gróðurhúsaáhrifum auk þess að hafa slæm áhrif á loftgæði.

Stundum vistvænni akstur

Með því að tileinka sér vistakstur sem er skynsamleg aksturstækni má draga umtalsvert úr eldsneytisnotkun, auka endingu ökutækja og draga þannig töluvert úr kostnaði vegna reksturs ökutækja.

Takmarka flugferðir

Flug krefst mikillar eldsneytisnotkunar og er sá ferðamáti sem veldur hvað mestum gróðurhúsaáhrifum á hvern kílómetra af ferðalagi.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira