Heima

Myndin sýnir opinn glugga með pottablóm á sólbekknumHeimilishald á Íslandi er frekar umhverfisvænt þökk sé góðum aðgangi að hreinu vatni, jarðvarmahitaveitu og endurnýjanlegum auðlindum til rafmagnsframleiðslu. En þó að við séum svo heppin að hafa aðgang að hreinum auðlindum þurfum við að vernda þær, tryggja sjálfbæra nýtingu og bera virðingu fyrir þeim. Vatnsafls- og jarðvarma virkjanir og raf- og hitaveitur hafa í för með sér bæði kostnað og umhverfisáhrif vegna framkvæmda og reksturs og er mikill óþarfi að sóa verðmætum auðlindum. Með tiltölulega einföldum aðgerðum til að bæta orkunýtingu heimilanna hefur verið áætlað að spara megi orku sem samsvarar framleiðslu 40MW vatnsaflsvirkjunar á ári, sem er um það bil jafnmikið og afl Ljósafoss- og Steingrímsstöðvar í Soginu til samans.

Innkaup á neysluvörum eru aftur á móti líklega sá þáttur heimilishaldsins sem hefur hvað mest gróðurhúsaáhrif. Vegna legu landsins, fámennis og veðurfars eru flestar vörur sem við neytum framleiddar erlendis og fluttar langar leiðir. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna þessa teljast ekki með í losunarbókhaldi Íslands vegna loftslagssamningsins en áhrifin eru hnattræn og á okkar ábyrgð samt sem áður. Breytum neyslumynstrinu úr því einstreymisferli hráefna í ruslahauginn sem hefur tíðkast of lengi og nýtum verðmætin betur. Drögum úr óþarfa neyslu, endurnýtum og endurvinnum! 

Munum forgangsröðina: Nota minna, endurnota, endurvinna!

Skynsamar neysluvenjur - Vertu klár neytandi

Þeim vörum sem við kaupum frá degi til dags fylgir oft umtalsverð losun gróðurhúsalofttegunda, hvort sem það er við framleiðslu, vinnslu, flutning, geymslu eða förgun. Draga má úr áhrifunum með skynsömum og vistvænni innkaupum. Við getum sjálf meðvitað dregið úr umfangi neyslu og efnanotkun eins og hægt er, valið frekar vörur úr endurunnum efnum, valið vörur með minni og endurvinnanlegum umbúðum og hugað að flutningsvegalengdum. Með meðvituðu vöruvali getum við sem neytendur haft áhrif á þróun markaðarins til sjálfbærari og visthæfari lausna. Úrgangurinn sem til fellur er svo oftar en ekki ónýttur og fluttur til förgunar. Samkvæmt mati á vistspori Íslands er einn stærsti þátturinn í umhverfisáhrifum vegna neyslu Íslendinga af völdum innfluttra raftækja. Mikil verðmæti liggja oft í því sem við köllum rusl og með því að nýta vel, endurnýta og endurvinna á skynsaman hátt má spara auðlindanotkun og umhverfisáhrif vegna framleiðslu nýrra vara.

Skynsemi í innkaupum

Hugsum okkur vandlega um áður en við kaupum, skoðum hvort raunveruleg þörf sé til staðar – oftar en ekki enda hlutir nánast ónotaðir inni í skápum eða jafnvel í ruslinu innan skamms. Talið er að árið 2008 hafi verðmæti matar sem hent var hér á landi verið um 3.4 milljarðar.

Kaupum endurunnið og umhverfismerkt

 Með því að velja endurunnar og endurvinnanlegar vörur hvetur þú til endurvinnslu og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda við frumframleiðslu hráefna. Umhverfismerkingar eru jákvæð og skilvirk leið til að stuðla að sjálfbærri framleiðslu og neyslu og til að aðstoða neytendur í að hafa áhrif á markaðinn. Þeim er ætlað að aðstoða neytendur við að velja umhverfishæfar vörur. Þetta á sérstaklega við um innfluttar vörur sem krefjast mikillar orku-, vatns- og landnotkunar.

Veljum minni og umhverfisvænni umbúðir

Veldu vörur sem hafa efnisminni umbúðir en samskonar vörur (td. velja stórar pakkningar fyrir vörur í mikilli notkun og áfyllingar í vistvænni umbúðum þar sem það er hægt). Takmörkum umbúðamagnið eftir bestu getu. Veljum einnig vörur í umbúðum sem auðvelt er að flokka og skila til endurvinnslu og sköpum þannig eftirspurn eftir slíkum vörum. Umbúðamerkingar geta aðstoðað við þetta val.

Veljum fjölnota

Með því að nýta hluti oftar sparar þú orku og auðlindir sem þarf til framleiða nýja. Auðveld leið er til dæmis að nota taupoka við innkaup í stað plastpoka, nýta umbúðir undan matvælum og nota til geymslu á afgöngum, nota áfyllanleg drykkjarílát og svo framvegis.

Nýtni og viðhald

Oft er hægt að gera upp gamla hluti með litlum tilkostnaði og fyrirhöfn til þess að lífga upp á heimilið og tilveruna. Að nýta vel og halda við því sem keypt hefur verið er bæði gott fyrir fjárhaginn og umhverfið. Ef það kostar jafnmikið að gera við og að kaupa nýtt er ekki spurning að það að gera við hluti er betra fyrir umhverfið og efnahagslífið í landinu.

Endurvinnum

Forðum nýtanlegum hlutum frá urðun og spörum losun gróðurhúsalofttegunda sem hljótast bæði af óþarfa förgun og af framleiðslu og flutningi nýrra vara. Það sem er gamalt fyrir þér getur orðið nýtt og flott fyrir aðra. Góði hirðirinn er nytjamarkaður Sorpu og líknarfélaga (ágóði starfsins rennur til góðgerðarmála) og þar má finna ýmsar gersemar á mjög hagstæðu verði. Ágóði af nytjamarkaðnum Sorpu hefur þrjátíufaldast síðustu 10 árin og fer um það bil einn gámur af nytjahlutum í umferð á hverjum degi. Verslun og skiptimarkaður með notaða hluti fer einnig fram á flóamarkaði Kolaportsins, gegnum smáauglýsingar dagblaðanna og á ýmsum vefsíðum. Setjið til dæmis inn í leitarvél leitarorðið smáauglýsingar og þá finnið þið helstu síðurnar. Margir íslenskir hönnuðir eru farnir að endurvinna efni og föt í hönnun sína auk þess sem verslun með ný og notuð föt frá gömlum tíma (enska: vintage) hefur notið mikilla vinsælda undanfarið. Kynnum okkur málið og endurvinnum!

Meira grænmeti

Framleiðslu á kjöti og mjólkuafurðum fylgir almennt meiri orkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda en ræktun á grænmeti. Með því að auka hlutfall grænmetis í fæðuvali getur þú dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Svo er það líka gott fyrir heilsuna.

Kaupum innlent og veljum eftir árstíðum

Flutningar, og þá sérstaklega á ferskvöru sem flutt er með flugi og vörubílum, standa oft fyrir stórum hluta losunar gróðurhúsalofttegunda sem verður vegna neyslu heimilisins. Loftslag á Íslandi hentar ekki til ræktunar á öllum matvörum og er þá gott að hafa í huga að velja frekar ferskvöru eftir árstíma í framleiðslulöndunum.

Draga úr neyslu á rauðu kjöti

Framleiðsla á rauðu kjöti, sérstaklega innfluttu hefur í för með sér talsverða losun gróðurlofttegunda. Framleiðsla á kjöti á heimsvísu er talið valda nær 20% af losun gróðurhúsalofttegunda, sérstaklega vegna orkufrekrar framleiðslu tilbúins áburðar og vegna metangasframleiðslu í þörmum jórturdýra.

Úrgangur er auðling á villigötum – Flokkum og skilum!

Neysla og lífsstíll hefur mikil áhrif á magn úrgangs og losun gróðurhúsalofttegunda. Eftir því sem neyslan er meiri þarf meira magn hráefna og orku. Tilheyrandi umhverfisáhrif hvers og eins verða meiri. Magn úrgangs á hvern íbúa er um 1500 -1800 kg á ári. Þó um helmingur af þessu magni sé endurnýtt á einhvern hátt eru í tunnunni oftar en ekki verðmæti á villigötum; málmar, plast, pappír, lífrænn úrgangur og orka sem má endurvinna. Þessi verðmæti fara til spillis þegar öllu er hent saman í einn hrærigraut og sent á urðunarstaði. Hægt er að flokka og endurvinna og koma þannig bæði í veg fyrir umhverfisáhrif vegna urðunar og vinnslu nýrra hráefna.

Meðhöndlun og förgun úrgangsins hefur einnig í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda; við flutning, brennslu og við niðurbrot á lífrænum úrgangi á urðunarstað. Hauggas, sem að mestu er blanda af metani og koldíoxíði, myndast við niðurbrot úrgangs, jafnvel mörgum árum eftir að urðun er hætt. Á Íslandi er almennur úrgangur urðaður og er áætlað að urðunarstaðir höfuðborgarsvæðisins, í Álfsnesi og Gufunesi hafi losað árið 2007 um 74.000 tonn CO2-ígildi. Hauggas frá urðunarstöðum eru ein af meginuppsprettum metans í heiminum en metan hefur 21 sinni meiri áhrif á hlýnun jarðar en koldíoxíð. Í Álfsnesi fer fram söfnun metangass sem er síðan nýtt sem eldsneyti á ökutæki og sparast þar með notkun annars eldsneytis.

Úrgangur sem ekki er flokkaður til endurnýtingar eða endurvinnslu er töpuð auðlind.

Koma í veg fyrir myndun úrgangs

Með því að takmarka myndun úrgangs næst mestur árangur í því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda vegna óþarfa auðlindavinnslu, flutninga og förgunar. Það má gera með því að kaupa skynsamlega inn, nýta vel og endurvinna.

Flokka úrgang

Að flokka rusl sem til fellur á heimilinu venst fljótt. Með því að flokka og skila til endurvinnslu minnkum við almennan úrgang sem fer til urðunnar og nýtum verðmæti. Í sumum sveitarfélögum veitir þetta möguleika á lækkun sorphirðugjalds. Grenndargámar þar sem hægt er að skila flokkuðum úrgangi svo sem blöðum, fernum og pappa má finna í flestum hverfum. Möguleikar á flokkun og skilum aukast jafnt og þétt. Sums staðar er hægt að fá flokkaðan úrgang sóttan heim. Reykjavíkurborg býður upp á bláu tunnuna og einnig er hægt að kaupa endurvinnslutunnuna og grænu tunnuna. Kannaðu möguleikana í þínu sveitarfélagi!

Gefa nothæfum hlutum framhaldslíf

Skila má nothæfum húsmunum á endurvinnslustöðvar Sorpu, þeir eru svo seldir á nytjamarkaðnum Góða Hirðinum og ágóðinn rennur til góðgerðamála. Verslun og skiptimarkaður með notaða hluti fer einnig fram á flóamarkaði Kolaportsins, gegnum smáauglýsingar dagblaðanna og á ýmsum vefsíðum. Setjið til dæmis inn í leitarvél leitarorðið smáauglýsingar og þá finnið þið helstu síðurnar. Gamalt fyrir þér, nýtt fyrir mér. Hendum ekki verðmætum á haugana að óþörfu!

Heimajarðgerð

Með því að jarðgera matarleifar og annan lífrænan úrgang sem fellur til í garðinum og á heimilinu getur þú dregið töluvert úr umfangi úrgangs frá heimilinu. Lífræn efni brotna tiltölulega fljótt niður við réttar aðstæður og úr verður góður lífrænn áburður til að nota í garðinum. Hér er að finna leiðbeiningar um heimajarðgerð og mikið úrval er til af tilbúnum safnkössum sem auðvelt er að nota.

DRAGA ÚR ORKUSÓUN

Flestir Íslendingar njóta góðs af jarðhita sem er nýttur til húshitunar og jafnvel sums staðar til framleiðslu rafmagns. Annars staðar er rafmagn framleitt með vatnsafli sem er einnig endurnýjanleg auðlind og umhverfisvæn. Orkuframleiðsla og húshitun, sem eru yfirleitt annars staðar í heiminum með stærri umhverfisþáttum í rekstri heimila, eru á Íslandi frekar umhverfisvænar. En öll virkjun þarfnast framkvæmda og reksturs og við þessa nýtingu eykst losun gróðurhúsalofttegunda. Með einföldum aðgerðum að bættri orkunýtingu á heimilinu getur þú bæði minnkað losun gróðurhúsalofttegunda og lækkað orkureikninginn. Áætlað hefur verið að ef öll heimili bættu orkunýtni sína með þessum einföldu ráðum mætti spara orku sem samsvarar framleiðslu 40MW vatnsaflsvirkjunar á ári, sem er um það bil jafnmikið og afl Ljósafoss- og Steingrímsstöðvar í Soginu til samans. Minni sóun á orku dregur ekki aðeins úr eftirspurn á álagstímum heldur opnar einnig á tækifæri til að nýta orkuna í annað, til dæmis rafsamgöngur.

Slökkva ljós

Ljós í mannlausum herbergjum er sóun á orku og peningum. Notum dagsbirtuna þegar hennar nýtur. Notkun útiljósa má auðveldlega stjórna með tíma- eða ljósnemastillingum.

Slökkva á raftækjum

Raftæki í biðstöðu geta eytt talsverðri orku að óþörfu, eða allt að 40 % af orkuþörf þeirra í venjulegri notkun. Gott er að nota millistykki með rofa þar sem mörg rafmagnstæki eru (sjónvörp og fl. ) svo hægt sé að slökkva á öllu í einu. Hleðslutæki sem ekki eru í notkun en eru látin standa í sambandi eyða einnig rafmagni að óþörfu.

Nota sparperur

Þær nota allt að 80% minna rafmagn og hafa lengri endingartíma.

Kaupa orkunýtin raftæki

Skylt er að merkja öll stærri heimilistæki með orkunýtnikvarða. Að kaupa raftæki með góða orkunýtni dregur úr sóun á orku og lækkar rafmagnsreikninginn. Nokkur umhverfismerki eru til sérstaklega fyrir rafmagnsvörur sem segja til umhverfishæfi tækjanna og orkunýtni. Innan Evrópusambandsins er skylda að merkja öll stærri heimilistæki með Orkumerki Evrópusambandsins.

Þvo á lágum hita

Enn sem komið er nota nær allar þvottavélar rafmagn til vatnshitunar og því sparast mikil orka við að þvo á sem lægstum hita. Mikil þróun hefur orðið í virkni þvottaefna á lágum hita og hafa þau verið aðlöguð að eðliseiginleikum vatnsins svo nota má minni skammta.

Hengja upp þvottinn

Þurrkarar nota mikið rafmagn og þvotturinn slitnar fyrr en ef hann er hengdur til þerris – notum þurrkara því hóflega. Þvottur sem er hengdur út til þerris á sumrin þornar mjög fljótt í þurru veðri og lyktar líka svo vel.

Stilla húshitun í hóf

Komum í veg fyrir óþarfa hitatap með góðri einangrun (mest hitatap er oftast um illa einangraða glugga, loft og kjallara). Spara má mikla orku með því að lækka hita á ofnum yfir sumartímann og þegar fjölskyldan er á ferðalagi. Á Íslandi er algengur innihiti um 23°C en rannsóknir sýna að með tilliti til heilsu og þæginda er æskilegur innihiti 20°C.

Mynd af einangrun

Stilla vatnsnotkun í hóf

Oft má draga úr notkun á vatni með því að nota frekar sturtu en bað. Gott er að venja sig á hóflegt rennsli við uppþvott. Þó að við séum svo heppin að eiga hreinar og umhverfisvænar vatnsauðlindir þurfum við ekki að láta þær renna beint í niðurfallið að óþörfu. Í flestum öðrum löndum þarf að hreinsa vatn og hita með miklum tilkostnaði og meðfylgjandi umhverfisáhrifum og því sérstaklega mikilvægt að fara sparlega með vatn erlendis.

Sóum ekki rafmagni í eldhúsinu

Með því að nota hellu sem passar pottinum eða pönnunni töpum við ekki orku, of stór hella hitar umhverfið að óþörfu. Setjum loka á potta, vatn sýður við lægra hitastig undir þrýstingi og þannig sparast orka. Nota ætti örbylgjuofninn (ef hann er til) við upphitun á mat, það krefst minni orku en upphitun í ofni.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira