Kerlingarfjöll

Umhverfisstofnun, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Kerlingarfjallavinir vinna nú að undirbúningi að friðlýsingu Kerlingarfjalla.

Kerlingarfjöll búa yfir stórbrotinni náttúru. Þau eru vel afmarkaður fjallaklasi á hálendinu með einstaka litadýrð. Þar eru fjölbreyttar og sérstæðar jarðmyndanir og merkilegt samspil jarðhita, íss og gróðurs. Svæðið er hálent og eru hæstu fjöll 1200-1500 m. há, og er Snækollur þeirra hæstur. Kerlingarfjöll draga nafn sitt af móbergsdranga, Kerlingu, sem rís upp úr líparítskriðu sunnan í Tindi í vestanverðum fjöllunum.

Kerlingarfjallasvæðið nýtur mjög vaxandi vinsælda fyrir hvers konar útivist. Áður var þar vinsælt skíðasvæði en nú heimsækja gestir svæðið fyrst og fremst til útivistar þar sem víðerni, óröskuð náttúra, kyrrð og ró er helsta aðdráttarafl svæðisins. Í Kerlingarfjöllum er vaxandi ferðaþjónusta.

Við undirbúning að friðlýsingu svæðisins er ætlunin að stuðla að því að starfsemi innan þess verði sem mest sjálfbær. Slíkt geti skapað svæðinu sérstöðu sem sjálfbær ferðamannastaður, skapað tengsl við nærsvæði á Suðurlandi og hugsanlega orðið til fyrirmyndar fyrir rekstur innan annarra friðlýstra svæða í framtíðinni.

Gert er ráð fyrir að ferðamennska á svæðinu aukist á komandi árum, en með friðlýsingunni er ætlunin að setja tímanlega reglur og skipulag fyrir svæðið og byggja upp nauðsynlega innviði til verndar náttúrunni.

Í samstarfshóp um undirbúning friðlýsingarinnar eiga sæti:

  • Hildur Vésteinsdóttir, Umhverfisstofnun
  • Íris Marelsdóttir, Kerlingarfjallavinir
  • Linda Guðmundsdóttir, Umhverfisstofnun
  • Ragnar Magnússon, Hrunamannahreppur
  • Sigþrúður Jónsdóttir, Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Frekari upplýsingar veitir Hildur Vésteinsdóttir, hildurv@umhverfisstofnun.is, s. 591-2000.

Tengt efni

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira