Andakíll

Verndarsvæði í Andakíl


Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnunar, landeigenda, umsjónaraðila svæðis og sveitarfélags unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir búsvæði fugla í Andakíl. Tillaga að áætluninni er hér með lögð fram til kynningar.

Svæðið var friðlýst sem búsvæði fugla árið 2011 og er einn af mikilvægustu áningarstöðum grænlenska blesgæsastofnsins á Íslandi. Árið 2013 var svæðið skráð á lista Ramsar-samningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Alls eiga fjórtán jarðir land innan verndarsvæðisins auk þess sem þéttbýlið Hvanneyri er innan þess. Verndun og skynsamleg nýting eru lykilhugtök í áætlun þessari í samræmi við áherslur Ramsar-samningsins.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir verndarsvæðið í Andakíl er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við sveitarfélag, landeigendur, íbúa og hagsmunaaðila og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um.

Hér að neðan má sjá tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir verndarsvæðið í Andakíl auk auglýsingar um friðlýsingu svæðisins sem gerð var árið 2011.

Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til og með 25. ágúst 2018. Hægt er að skila inn athugasemdum á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með því að senda tölvupóst til stofnunarinnar, ust@ust.is, eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Nánari upplýsingar veita Guðbjörg Gunnarsdóttir, gudbjorg@umhverfisstofnun.is og Hildur Vésteinsdóttir, hildurv@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.

Tengd skjöl

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira