Ingólfshöfði

Friðlandið í Ingólfshöfða

Umhverfisstofnun, í samráði við landeigendur, rekstraraðila og sveitarfélagið Hornafjörð, vinnur nú að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið í Ingólfshöfða.

Verður hér hægt að fylgjast með framvindu mála.

Ingólfshöfði var gerður að friðlandi 1974 eftir að heimamenn lögðu það til að höfðinn yrði friðlýstur í minningu landnámsins. Höfðinn er nefndur eftir Ingólfi Arnarsyni, sem sagt er að hafi haft þar vetursetu fyrsta veturinn sem hann var á Íslandi. Minnisvarði um dvöl Ingólfs og Hallveigar konu hans er í höfðanum. Í Ingólfshöfða er að finna einstakt fuglalíf og smádýralíf og á höfðanum er bæði að finna grasi gróin svæði en einnig hrjóstrugt land, urð og grjót. Mörk friðlandsins mynda ferhyrning sem ná í um 100 metra fjarlægð út frá ystu klettanösum höfðans og er stærð friðlandsins 90 ha.

Samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 er meðal hlutverka Umhverfisstofnunar að vinna stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir hvert friðlýst svæði. Í þeim er lögð fram stefnumótun til 10 ára ásamt aðgerðaáætlun til 5 ára. Í starfshóp sem vinnur að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Ingólfshöfða eiga sæti fulltrúi landeigenda, rekstraraðilar og Sveitarfélagið Hornafjörður.

Hér að neðan má sjá verk- og tímaáætlun fyrir vinnuna, ásamt samráðsáætlun.

Fólk er hvatt til að kynna sér verkefnið og senda inn athugasemdir og ábendingar.

Frekari upplýsingar gefur Þórdís Björt Sigþórsdóttir, thordiss@umhverfisstofnun.is eða í síma: 591-2000

Skjöl

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira