Kattarauga

Umhverfisstofnun, í samráði við landeiganda og Húnavatnshrepp, vinnur nú að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Kattarauga sem er friðlýst sem náttúruvætti. 
 
Kattarauga var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Tjörnin Kattarauga liggur innan jarðarinnar Kornsár 2 og er alldjúpur pyttur sem í eru tveir fljótandi hólmar sem reka undan vindi. Mikið og stöðugt rennsli er í gegnum tjörnina. Í botni tjarnarinnar er lindarauga sem glittir á þegar logn er og bjartur dagur. Af lindarauganu dregur tjörnin nafn sitt. Gróður á svæðinu er dæmigerður íslenskur mýrargróður. Stærð náttúruvættisins er 0,01 ha.
 
Samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 er meðal hlutverka Umhverfisstofnunar að vinna stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir hvert friðlýst svæði. Í þeim er lögð fram stefnumótun til 10 ára ásamt aðgerðaáætlun til 5 ára. Í starfshópi sem vinnur að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Kattarauga eiga sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, Húnavatnshrepps og landeiganda.
 
Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir náttúruvættið Kattarauga er ætlað að vera stefnumótandi skjal þar sem lögð er fram stefna um verndun svæðisins og hvernig skuli viðhalda verndargildi þess í sátt við landeigendur. Í áætluninni er lögð fram stefna til næstu 10 ára, ásamt aðgerðaáætlun til 5 ára.
 
Hér að neðan má sjá verk- og tímaáætlun fyrir vinnuna, ásamt samráðsáætlun.
 
Fólk er hvatt til að kynna sér verkefnið og senda inn athugasemdir og ábendingar.
 
Frekari upplýsingar veitir Ingibjörg Marta Bjarnadóttir, 
ingibjorg.bjarnadottir@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000
 
Tengt efni
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira