Inniloft

opinn gluggiÁ Vesturlöndum ver fólk um og yfir 90% af tíma sínum innandyra, svo sem á heimilum, í skóla og á vinnustöðum. Loftgæði innandyra hafa því mikil áhrif á líðan okkar og heilsu. Fyrir 40 - 50 árum síðan fór athygli manna víða um heim að beinast í auknum mæli að gæðum innilofts og tengslum þess við líðan og heilsu fólks. Nú hefur verið sýnt fram á að ýmsir mengandi þættir í innilofti geta valdið einkennum frá öndunarfærum, ofnæmi og ertingu. Viðkvæmir hópar eins og börn, aldraðir og sjúkir eru næmari fyrir mengun í innilofti en aðrir. 

Mörg efni sem valda vanlíðan geta verið í lofti innandyra. Í ryki í húsum er að finna húðfrumur, örverur, gró, dýrahár og fleiri agnir. Utan á rykagnirnar festast svo rökgjörn efni sem gufa frá byggingarefnum, innréttingum, húsgögnum, textilvöru og gólfteppum auk hreinsiefna, ilmefna og fleiri efna sem er að finna á heimilum í dag. Ef mikill raki er viðvarandi í húsum veldur það skemmdum á byggingarefni og húsmunum en auk þess skapast þá góð vaxtarskilyrði fyrir myglu og aðrar örverur, en það eru þættir sem hafa slæm áhrif á inniloft. 

Niðurstöður fjölda erlendra rannsókna hafa leitt í ljós að sjaldnast er hægt að benda á einn ákveðinn þátt í innilofti sem framkallar vanlíðan eða veikindi heldur virðist fremur vera um að ræða samspil margra þátta. Undantekning er þó ofnæmi sem hægt er að tengja við rykmaura og pelsdýr. Einkennin eru margs konar og einstaklingsbundin. Þannig finna margir ekki fyrir neinu meðan öðrum líður illa í sama umhverfi. Helstu einkenni sem slæmt inniloft getur framkallað er allt frá ertingu í augum og slímhimnu, flökurleika, svima, höfuðverks og óeðlilegrar þreytu til ósérhæfðra ofnæmisviðbragða.

Góð ráð

Loftræstu reglulega. Gott er að láta blása hressilega í stutta stund í einu til að fá hreint loft inn í rýmið. Ekki er mælt með því að hafa glugga opinn að staðaldri því slíkt er sóun á hita og þar með fjármunum.

Láttu lofta vel um nýja hluti fyrstu vikurnar. Rokgjörn efni gufa upp frá nýjum hlutum eins og húsgögnum og raftækjum. Forðast skal að hafa raftæki í svefnherbergjum.

Ekki loka inni raka. Raki af völdum leka, of lítillar loftræsingar eða vegna þess að verið er að þurrka þvott í íveruherbergjum skapar örverum góð vaxtarskilyrði sem getur leitt til þess að þær fara að mynda gró, ertandi efni  og jafnvel eitur. Mikill raki eykur einnig útgufun efna frá ýmsum hlutum.

Þrífðu reglulega. Ýmis efni leynast í rykinu sem ekki er æskilegt að anda að sér

Hugaðu vel að viðhaldi húsnæðisins. Mikilvægt er að koma í veg fyrir leka sbr. umfjöllun um raka hér að ofan. Þegar ráðist er í nýbyggingu, breytingar eða viðhald húsnæðis er rétt að skoða hvaða þættir í byggingu/breytingu húsnæðisins hafa áhrif á inniloft þess.

Upplýsingar um inniloft af heimasíðu Miljøstyrelsen í Danmörku. 

Loftmengun innanhús - yfirlitsmynd
Oftast er einfalt að viðhalda heilnæmu innilofti í híbýlum. Margt getur þó haft áhrif og mikilvægt er að huga að því hvernig hægt sé að viðhalda heilnæmu innilofti eða bæta það. Þannig má minnka líkur á að inniloft geti haft slæm áhrif á heilsu þeirra sem þar dvelja.

Umhverfisstofnun hefur gefið út leiðbeiningar um inniloft, raka og myglu, hvernig best sé að viðhalda og bæta heilnæmi innilofts og hvernig bregðast skuli við verði inniloftið óheilnæmt. Einnig er fjallað um eftirlit með húsnæði og ábyrgð eigenda og leigjenda húsnæðis. 

Í leiðbeiningunum er að finna upplýsingar og leiðbeiningar fyrir almenning um: 

 • inniloft 
 • raka 
 • myglu 
 • hreinsun myglu og úrbætur 
 • eftirlit og ábyrgð

Í fylgiskjali 1 er samantekt á gátlistum um ýmislegt er varðar innililoft, raka og myglu og gott getur verið að hafa við höndina þegar hugað er að þessum þáttum:

 • Gátlisti 1 – góð ráð fyrir heilnæmt inniloft 
 • Gátlisti 2 – mat á rakastigi 
 • Gátlisti 3 – ákjósanlegar aðstæður fyrir sýnatöku 
 • Gátlisti 4 – góð ráð til að varna of háu rakastigi 
 • Gátlisti 5 – hreinsun myglu 
 • Gátlisti 6 – fullnægjandi hreinsun 
 • Gátlisti 7 – úrbætur

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira