Brennsla úrgangs

sorpbrennslaBrennsla úrgangs hefur í för með sér hættu á mengun vatns og lofts og því er í sorpbrennslustöðvum gerð krafa um búnað til hreinsunar á útblæstri og frárennsli. Brennsla úrgangs í stöðvum sem uppfylla allar kröfur þykir dýr, borið saman við aðra leiðir, enda eru þær brennslur sem starfræktar eru hér á landi minni en víða annars staðar í Evrópu. Hlutfallslega lágt orkuverð hér á landi spilar þar að verulegu leyti inni.

Umhverfisstofnun tók saman skýrslu árið 2010 um losun ýmissa þrávirkra lífrænna efna þar sem m.a. kemur fram að dregið hefur úr heildarlosun díoxíns á Íslandi um 66% frá 1990 til ársins 2008 og um 82% í sorpbrennslu og úrgangsmeðhöndlun. Heildarlosun var 11,3 g I-TEQ (díoxinígildi) árið 1990 en 3,9 g I-TEQ árið 2008. Á árinu 2008 var losun frá áramótabrennum 1,8 g I-TEQ og frá sorpbrennslum og orkuiðnaði 0,6 g I-TEQ af díoxíni. Ástæðan fyrir því að heildarlosun hefur dregist saman er fyrst og fremst að mörgum opnum og eldri sorpbrennslum hefur verið lokað og reglur um sorpbrennslur hertar frá árinu 2003.

Árið 2003 voru innleiddar hertar reglur um sorpbrennslur í gegnum EES-samninginn en undanþága fengin af hálfu íslenskra stjórnvalda fyrir eldri sorpbrennslur sem þá voru starfandi. Eldri sorpbrennslum var veitt undanþága þannig að ekki voru sett mörk fyrir losun díoxíns frá þeim. Í undanþágunum var sett skilyrði um að eldri sorpbrennslur skyldu mæla díoxín einu sinni og var það gert 2007 og niðurstöður lágu fyrir 2008. Þar kom í ljós að díoxín mældist verulega yfir þeim mörkum sem gilda fyrir nýjar sorpbrennslur sem tóku til starfa eftir 2003. Við því var að búast enda eldri sorpbrennslur ekki með þann hreinsibúnað sem þarf til að draga úr losun díoxíns. Kveðið var á um í undanþáguákvæðunum að þau skyldi endurskoða að fimm árum liðnum og sendi Umhverfisstofnun umhverfisráðuneytinu árið 2008 upplýsingar um þær mælingar sem gerðar voru 2007 og tilkynnti ráðuneytinu að stofnunin mundi upplýsa Eftirlitsstofnun EFTA um þessar mæliniðurstöður.

Umhverfisstofnun lagði fram tillögu til umhverfisráðuneytisins í janúar 2011 um að eldri sorpbrennslustöðvar fái tvö ár til þess að uppfylla skilyrði sem gilda fyrir nýjar sorpbrennslur. Starfandi sorpbrennslum í Evrópusambandinu var veittur fimm ára aðlögunarfrestur við gildistöku tilskipunar um sorpbrennslum.

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira