Heimajarðgerð

Græðlingur teygir sig upp úr mold

Hvað er jarðgerð?

Við jarðgerð er lífrænum úrgangi umbreytt í moltu sem þykir besti jarðvegsbætir sem völ er á, gerir jarðveginn frjósamari og léttari.

Niðurbrot lífrænna efna gerist nokkuð hægt í náttúrunni en ferlinu má hins vegar flýta með því að skapa kjöraðstæður fyrir örverur og skordýr.

Allir geta stundað heimajarðgerð, en hún er ef til vill heppilegust fyrir þá sem eiga t.d. garðreit (mynd: istock).

    *1 kg lífrænn úrgangur ≈ 0,6 kg molta

Jarðgerð á svölum gæti þó hentað fyrir þá sem búa í fjölbýli og hafa mismunandi lausnir verið þróaðar fyrir jarðgerð á svölum erlendis.

Brúna tunnan og móttökustöðvar sorps gæti hentað þeim sem ekki hafa kost á heimajarðgerð en vilja flokka lífræna úrganginn frá sorpinu.

Það sem hafa ber í huga þegar farið er í heimajarðgerð:

 1. Veldu þér tunnu
 2. Veldu tunnunni stað
 3. Settu lífrænan úrgang í tunnuna
 4. Kíktu á góð ráð til að fá fína moltu
 5. Notaðu moltuna sem jarðvegsbæti 


Ítarefni má finna hér: UST Jarðgerð

Mynd: istock.com

Staðsetning og uppsetning

Það er best að koma tunnunni fyrir á stöðugu undirlagi. Neðsti hluti botnsins þarf að vera í nánu sambandi við undirlagið til að ormar, skordýr og önnur smádýr hafi greiðan aðgang að lífrænum efnum í tunnunni. Með því að staðsetja tunnuna ofan á hellu eða hafa fínriðið vírnet undir hafa mýs ekki aðgang að úrganginum.

Heppilegt er að hafa safntunnu í hæfilegri fjarlægð frá heimilinu, þó þannig að stutt sé að fara úr eldhúsi eða garði. Gera má ráð fyrir að flugur sæki í tunnuna af og til, sérstaklega ef í hana eru settar kjöt- og fiskleifar. Loks er gott að muna að þegar sólin skín á tunnuna myndast hiti sem hjálpar til við niðurbrot lífrænna efna.
mold

Einföld tunna

Jarðgerðartunna

 • Einfaldar tunnur eru hentugar fyrir jarðgerð úr blönduðum lífrænum úrgangi. Hægt er að smíða ílátið sjálf(ur), t.d. úr úrgangstimbri. Þessar tunnur eru oftast þriggja hólfa, þar sem efnið er flutt á milli hólfa einu sinni á ári (mynd: istock).

  Vinnslutími: á bilinu 36-48 mánuðir.


 • Einangraðar tunnur henta sérstaklega fyrir jarðgerðar úr matarleifum en þær eru nokkuð dýrari en einfaldar tunnur. Í einangraðri tunnu helst hiti betur en í einfaldri og því gengur niðurbrot hraðar fyrir sig (mynd: istock).

  Vinnslutíminn er: á bilinu 4 -12 mánuðir.

 

mold2

Einangruð tunna

 

 

Ýtarefni má finna hér: UST Jarðgerð

Mynd: istock.com

Hvað má fara í tunnuna:


Flestallur matarúrgangur s.s:

 • Ávextir
 • Grænmeti
 • Brauð
 • Eggjaskurn
 • Kjöt (þó eingöngu í einangraða tunnu)
 • Fiskur (þó eingöngu í einangraða tunnu)
 • Tepokar
 • Kaffikorgur

Flestallur annar lífrænn úrgangur s.s:

 • Pappírsþurrkur
 • Visnuð blóm og aðrar plöntur
 • Sag
 • Gras
 • Niðurklipptar runnagreinar
 • Trjákurl
 • Niðurrifin dagblöð

Eftirfarandi úrgang skal EKKI setja í safntunnu:

 • Efni skaðleg umhverfinu
 • Úrgang sem ekki brotnar niður s.s.drykkjarfernur, sígarettustubba og ösku af grillkolum.
 • Bein vegna hægvirks niðurbrots
 • Ryksugupoka
 • Timbur
 • Ösku
salat
 • Fiskur og kjöt: hafa magn hans í jarðgerðartunnu í hófi. Ef flugur sækja í miklum mæli í tunnuna og verða til vandræða hjálpar að setja þunnt lag af jarðvegi eða sagi ofan á rotmassann án þess að hræra.
 • Forðast að setja of mikið af einni tegund úrgangs í einu – byggja upp lög af misgrófum efnum.
 • Hægt er að nota hröðunarefni til að flýta fyrir vinnslu náttúrulegu efnanna og fæst í verslunum með garðvörur.
 • Hafa þarf í huga að pappír og pappi rotna fremur hægt. Flýta má fyrir með því að setja kjötmjöl, hrossatað eða nýslegið gras eða annan köfnunarefnisríkan og grófan úrgang saman við.
 • Ef ólykt kemur af jarðgerðinni er það vegna skorts á súrefni í niðurbrotinu og má þá gjarnan hræra rotmassanum með sérstökum loftunarstaf en einnig er hægt að nota prik eða járntein til að gera loftgöt.
 • Með því að stinga priki eða járnteini í rotmassann má fylgjast með ástandinu í safntunnunni. Ef prikið kemur upp tiltölulega hreint og er volgt fer niðurbrotið eðlilega fram. Ef prikið er kalt og við það loðir svört eðja er massinn of blautur og þá er hætta á gerjun.
 • „Þurrka” má massann upp með því að setja örþunnt lag af sagi eða jarðvegi ofaná og hræra. Einnig má nota til þess dolomítakalk, timburkurl, spæni, greinaafklippur, niðurrifin dagblöð eða pappa

Ýtarefni má finna hér: UST Jarðgerð

Mynd: istock.com 

salat2

Jarðgerðarferlið er í raun stöðugt í gangi í safntunnunni og erfitt að segja hvenær því er alveg lokið.

Vinnslutími og lokaafurð stjórnast mikið af þeim efnum sem sett eru í tunnuna, hversu vel er hugað að jarðgerðinni og hvort það er heitt eða kalt í veðri. Sumt rotnar hraðar en annað, t.d. rotna ávextir og grænmeti fljótt en t.d. brauð, kjöt, pappír og trjágreinar mun hægar.

Þegar taka á upp það efni sem er neðst í safntunnunni er ráðlagt að sigta grófu efnin úr og setja þau aftur efst í tunnuna. Fína efnið  er þá tilbúin molta, dökkbrún, laus í sér og nánast lyktarlaus.


Notkun moltu


Moltan getur verið misrík af næringarefnum eftir því hráefni sem jarðgert er úr. Tilbúin molta inniheldur oft mikið af næringarefnunum (fosfór og köfnunarefni) því er heppilegt að blanda moltu í venjulegan jarðveg eða dreifa þunnu lagi yfir moldarbeð. Í görðum þar sem eru tré og runnar er þó í lagi að dreifa þykkara moltulagi. Rætur trjánna ná langt niður í jörðina og taka upp næringu sem aðrar plöntur í garðinum ná ekki að nýta.
Mismunandi leiðir til að nota Moltu:

salat3
 1. Blanda saman við jarðveg
 2. Bera þunnt lag (1-2 sm) á beð
 3. Bera þykkt lag í trjá/runna beð

ATH: ekki er ráðlagt að nota óblandaða moltu við sáningu

Niðurbrot lífrænna efna heldur áfram eftir að búið er að dreifa moltunni á jarðveg og er það talið vera einn af meginkostum jarðgerðar, enda losna næringarefnin í henni hægt úr læðingi. Þannig endist næringargeta moltu mun lengur en tilbúins áburðar.

Ýtarefni má finna hér: UST Jarðgerð

Mynd: istock.com 

Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira