Efni í hlutum

  Til að tryggja örugga notkun efna og efnablandna skulu upplýsingar um hættu og varúð koma fram á umbúðum þeirra. Ef nota á efni og efnablöndur í atvinnuskyni skal söluaðili auk þess afhenda notandanum öryggisblöð með nánari upplýsingum. Um efni í hlutum gilda ekki sömu reglur um upplýsingagjöf og eru til dæmis ekki gerðar kröfur um lista yfir innihaldsefni á umbúðum þeirra. Þegar rætt er um hluti í þessu samhengi þá er átt við grip sem fær í framleiðsluferlinu sérstaka lögun, áferð eða útlit sem ræður meira um hlutverk hans en efnafræðileg samsetning hans. Dæmi um hluti eru fatnaður, leikföng, byggingarefni og raftæki. 

  Kemísk efni gefa hlutum ákveðna eiginleika. Mýkingarefnum er t.d. bætt í plast til að gera það mjúkt og eldtefjandi efnum er bætt í vefnaðarvöru til að koma í veg fyrir að kvikni í henni. Ef slíkt innihaldsefni hefur heilsu- og umhverfisskaðlega eiginleika og losnar frá hlutnum þá getur það haft neikvæð áhrif á heilsu manna og umhverfi. Dæmi um slík efni eru plastmýkingarefni, ákveðin eldvarnarefni, perflúoreruð efni og þungmálmar. 

   

  Heiti efnis Cas nr. Flokkur efna Finnst í
  Díbútýlþalat 84-74-2 Þalöt Mjúkum plasthlutum, t.d. leikföngum og regnfötum
  Antrasen 120-12-7 Fjölhringa arómatískt vetniskolefni (PAH) Hlutir úr gúmmíi
  Kadmíum 7440-43-9 Þungmálmur Litarefni í ýmsum vörum eins og plasti
  PFOA 335-67-1 Perflúorkolefni Gefur vörum þá eiginleika að hrinda frá sér vatni og óhreinindum
  Tris(2-klóretýl)fosfat (TCEP) 115-96-8 Eldtefjandi efni Leikföng

  Því miður er takmörkuð þekking á því hvernig efni losna úr hlutum og dreifast, og hvernig efni hafa áhrif á heilsu manna og umhverfi. Efnagreiningar eru afar kostnaðarsamar og auk þeirra þarf að mæla hvort efnið losnar úr hlutnum og meta þau áhrif á heilsu og umhverfi. Umhverfisstofnun Danmerkur hefur undanfarin ár unnið að metnaðarfullu starfi við efnagreiningar á ýmsum hlutum. Allar niðurstöður eru aðgengilegar á heimasíðu hennar, www.mst.dk, og þar er hægt að skoða niðurstöðurnar. Hægt er að leita í gagnabankanum og í niðurstöðum t.d. eftir tegund hlutar eða heiti efnis. 

  Kandídatslistinn 

  Efni sem flokkast sem sérlega hættuleg finnast á svokölluðum kandídatslista Efnastofnunar Evrópu og hefur neytandinn rétt á að krefjast upplýsinga um hvort hlutur innihaldi efni á þessum lista. Auk þess er hægt að spyrja framleiðandann um upplýsingar um efni sem ekki finnast á kandídatslistanum. Efnin á kandídatslistanum hafa skaðlega eiginleika og teljast því sérlega hættuleg. Þau geta til dæmis verið krabbameinsvaldandi, skaðað frjósemi eða verið skaðleg umhverfinu. Efnin kallast jafnan SVHC sem stendur fyrir Substances of Very High Concern. Sem dæmi má nefna þalötin DEHP, BBP og DBP og fjölhringa aromatíska vetniskolefnið Antracen. 

  Hvað getur neytandinn gert? 

  Ef grunur vaknar um óæskileg innihaldsefni í hlut þá getur neytandinn spurt í versluninni þar sem hluturinn var keyptur um hvort hluturinn innihaldi efni sem finnast á kandídatslistanum. Ef hluturinn inniheldur slíkt efni í styrk yfir 0,1%, reiknað sem þyngdarhlutfall, þá hefur neytandinn rétt á að fá að vita það og skal verslunin afhenda upplýsingar sem nægja til að nota megi hlutinn á öruggan hátt, að lágmarki heiti efnisins. Viðkomandi upplýsingar skulu afhentar án þess að gjald komi fyrir innan 45 daga frá því að tekið var við beiðni um upplýsingar. Söluaðilinn hefur rétt til að fá viðkomandi upplýsingar frá framleiðanda eða innflytjanda.

  Hvað getur fyrirtækið gert? 

  Fyrirtæki sem markaðssetur hlut sem inniheldur efni ber ábyrgð á því að hluturinn skaði ekki heilsu manna og umhverfi. Það er mikilvægt að fyrirtæki séu upplýst um efnainnihald í þeim vörum sem þau markaðssetja og krefjist upplýsinga um það hjá sínum birgjum. Því eru góð tengsl við birgja afar mikilvæg, því fyrirtækin þurfa að sækja sér upplýsingar, viðhalda varúð og skipta út hlutum sem innihalda hættuleg efni til að lágmarka áhættuna. Fyrirtæki þurfa að vera viðbúin því að geta svarað hinum almenna neytanda, ef hann spyr hvort ákveðinn hlutur innihaldi efni á kandídatslistanum.

  Mynd sem fylgir - Rauði listinn

  Rauði listinn

  Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
  Meira

  Vinsælar síður

  An exception occurred: Invalid column name 'orderby'.