2018

  Eftirlitsverkefni á áætlun 2018

   

  Norrænt eftirlitsverkefni um efni í hlutum sem gefnir eru almenningi í kynningarskyni 

  Eftirlit með merkingum og umbúðum stíflueyða

   Inngangur

   Verkefni þetta nær til stíflueyða sem eru á almennum markaði hér á landi og skylt er að merkja vegna þess að þeir innihalda hættuleg efni. Um merkingar á vörum sem innihalda hættuleg efni gildir reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablanda, en hún innleiðir hér á landi reglugerð (EB) nr. 1272/2008 sama efnis. Gerð er krafa um að merkingar vara sem heyra undir reglugerðina séu á íslensku. Jafnframt er gerð krafa um barnheld öryggislok og áþreifanlega viðvörun á umbúðum þeirra vara þar sem hættuflokkun gefur tilefni til og eru ætlaðar til almennra nota. Slíkt gildir m.a. um efnavörur með húðætandi eiginleika einsog stíflueyða. Stíflueyðar geta líka innihaldið yfirborðsvirk efni eða sápur og í þeim tilfellum falla þeir jafnframt undir skilyrði reglugerðar nr. 300/2014 um þvotta- og hreinsiefni sem innleiðir reglugerð EB nr. 648/2004 sama heitis.

   Tilgangur

   • Að athuga hvort fylgt sé ákvæðum reglugerða um merkingar og umbúðir stíflueyða sem eru á markaði hér á landi. 
   • Að upplýsa birgja og söluaðila um reglur sem gilda um merkingar á vörum sem innihalda hættuleg efni.
   • Að auka neytendavernd.


   Framkvæmd

   Farið var í eftirlit í nóvember 2018 til 14 birgja sem samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar eru að markaðssetja stíflueyða, eða á útsölustaði þar sem vörur þeirra voru til sölu. Í eftirlitinu var skoðaður 21 stíflueyðir sem settur er á markað í því skyni að athuga hvort fylgt væri ákvæðum ofangreindra reglugerða varðandi merkingar þeirra og umbúðir. 

   Niðurstöður

   Allar vörurnar sem skoðaðar voru reyndust vera með merkingar á íslensku og í öllum tilfellum voru barnheld öryggislok til staðar ef krafa var um slíkt. Alls voru 15 vörur (71%) með einhver frávik frá gildandi reglum en 6 vörur (29%) voru alveg frávikalausar. 

   Til þess að fá mynd af alvarleika frávikana voru þau flokkuð í þrjú stig eins og sýnt er í 1. töflu, þar sem 1. stig er minnst alvarlegt og 3. stig mest alvarlegt. Ef frávik við merkingar telst vera á 1. stigi þarf að senda Umhverfissstofnun tillögu að fullnægjandi úrbótum en ekki þarf að endurmerkja vörur sem þegar eru komnar í sölu. Við frávik á 2. stigi þarf líka að senda Umhverfisstofnun tillögu að fullnægjandi úrbótum og auk þess að endurmerkja allar vörur sem þegar eru í sölu í samræmi við þær. Falli frávik undir 3. stig krefst Umhverfisstofnun tímabundinar stöðvunar á markaðssetningu vörunnar sem um ræðir, þar til úrbætur hafa átt sér stað. 
   Í 2. töflu má sjá undir hvaða alvarleikastig vörur hjá hverjum og einum birgja lentu. Flestar vörurnar (67%) féllu undir að vera með 2. stigs frávik, hinar lentu í 1. stigi (33%) en engin vara reyndist vera með frávik  á 3. stigi.Í 3. töflu má sjá hvernig fjöldi frávika skiptist á mismundandi vörur hjá hverjum birgi. Af þeim vörum sem voru með frávik reyndust 7 vera með 1-2 frávik en 8 vörur með 3 frávik eða fleiri og telst það vera alvarlegt þegar um er að ræða vörur sem eru eins hættulegar og hér um ræðir.

   Algengustu frávikin voru þessi: 

   • orðalag hættu- og varnaðarsetninga var ekki í samræmi við reglugerð
   • viðvörunarorð vantaði eða var rangt
   • áþreifanlega viðvörun fyrir blinda og sjónskerta vantaði.

   Þeim birgjum sem báru ábyrgð á vörum með frávik var veittur þriggja vikna frestur til að verða við kröfum Umhverfisstofnunar um úrbætur. Brugðust þeir almennt við á fullnægjandi hátt innan frestsins en nokkrir fengu þó viðbótarfrest til þess að verða við kröfum. 

         

   Markaðseftirlit með merkingum á skoteldum

    Inngangur
    Vegna sprengihættu sem stafar af skoteldum ber að merkja þá í samræmi við reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablanda. Reglugerðin innleiðir hér á landi reglugerð (EB) nr. 1272/2008 með sama heiti, sem oft er kölluð CLP-reglugerðin, en CLP stendur fyrir „Classification, Labelling and Packaging of substances and mixtures”. 

    Skoteldar eiga samkvæmt þessum reglugerðum að bera hættumerkið „Sprengifimt“ ásamt stöðluðum hættu- og varnaðarsetningum á íslensku sem lýsa eðli hættunnar og leiðbeina um örugga notkun, geymslu og förgun. Sömuleiðis er krafa um að viðvörunarorð á íslensku komi fram á umbúðunum, annað hvort „Varúð“ eða „Hætta“ og lýsir hið síðarnefnda alvarlegri hættueiginleikum. 

    Um merkingar skotelda gilda jafnframt ákvæði reglugerðar nr. 414/2017 sem tekur einnig til atriða eins og markaðssetningar, samsetningar, öryggis og meðferðar og er Neytendastofu falið eftirlit samkvæmt henni.

    Tilgangur

    • Að athuga hvort fylgt sé ákvæðum reglugerðar nr. 415/2014 um merkingar á skoteldum sem eru á markaði hér á landi. 
    • Að fræða birgja og söluaðila um reglur sem gilda um þessar merkingar.
    • Að auka neytendavernd.


    Framkvæmd

    Í úrtaki eftirlitsins voru vörur frá þeim sex birgjum sem markaðsetja skotelda hér á landi samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Farið var í eftirlitsferðir á milli jóla og nýárs 2018 og skoðuð 4-5 sýnishorn af skoteldum á hverjum sölustað, sem voru eftir atvikum rakettur, skotkökur eða gos. Í 1. töflu má sjá má lista yfir birgja og þá sölustaði sem farið var á í eftirlitinu. 

    1. tafla. Birgjar og sölustaðir.

    Niðurstöður

    Frávik frá gildandi reglum komu fram á öllum þeim vörum sem lentu í úrtakinu. Í 13 tilfellum (52%) vantaði allar skyldubundnar merkingar og á 4 vörum (16%) voru aðeins merkingar á erlendum tungumálum. Hjá tveimur birgjum voru íslenskar merkingar til staðar á vörunum en viðvörunarorð, hættu- og varnaðarsetningar ekki fyllilega í samræmi við reglugerðina. Í 2. töflu má sjá hvernig frávikin dreifðust á mismunandi birgja og hlutfallslega dreifingu frávika samkvæmt niðurstöðu eftirlitsins.

    2. tafla. Yfirlit yfir fjölda vara í úrtaki og frávika hjá hverjum birgi

    Birgjum var veittur þriggja vikna frestur til að senda stofnuninni tillögur að réttri merkingu varanna í samræmi við ofangreindar reglugerðir og brugðust fjórir þeirra við innan frestsins á fullnægjandi hátt en tveimur aðilum gefinn viðbótarfrestur til að verða við kröfum um úrbætur. Jafnframt var bent á skyldur birgja að sjá til þess að réttar merkingar séu á sölueintökum skotelda sem þeir setja á markað og áréttað þessu verði komið í rétt horf á næsta sölutímabili um áramótin 2019-2020.

   Norrænt eftirlitsverkefni um flokkun og merkingu á nanó-efnum 

   Mánaðarlegt eftirlit með efnavörum á markaði með áherslu á merkingar 

    Inngangur

    Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með eftirliti á efnum, efnablöndum og hlutum sem innihalda efni, sbr. hlutverk stofnunarinnar með framkvæmd efnalaga nr. 61/2013. Markmið efnalaga er að tryggja að meðferð á efnum og efnablöndum valdi hvorki tjóni á heilsu manna né umhverfi, tryggja frjálst flæði á vörum á innri markaði ESB og koma í veg fyrir ólöglega markaðssetningu.

    Undir lok ársins 2017 var ráðist í eftirlitsverkefni sem nær til ýmissa efnavara í almennri sölu sem geta verið hættulegar heilsu og/eða umhverfi á einhvern hátt. Farið var samtals í 20 eftirlitsferðir á tímabilinu nóvember 2017 til desember 2018 og lentu vörur frá 30 birgjum í úrtaki. Skoðaðar voru vörur sem flokkast sem hættulegar samkvæmt reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna sbr. reglugerð (EB) nr. 1272/2008 sama efnis. Verslanir voru valdar miðað við það að hægt væri að skoða fjölbreytt vöruúrval frá sem flestum birgjum á hverjum stað. Stefnt  var að því fyrirfram að skoða allt að fimm vörur í fyrirfram ákveðnum vöruflokkum í hverri eftirlitsferð.

    Tilgangur og markmið 

    • Að athuga hvort ákvæðum reglugerða um merkingar og umbúðir á hættulegum efnavörum í sölu til almennings í því skyni að fá fram mynd af raunverulegri stöðu mála hvað þetta varðar hér á landi.
    • Að upplýsa birgja og söluaðila um reglur sem gilda um merkingar á vörum sem innihalda hættuleg efni.
    • Að auka neytendavernd.

    Framkvæmd og niðurstöður

    Til þess að tryggja að niðurstöður endurspegli raunveruleikan sem best voru vöruflokkarnir og vörurnar í úrtaki valdar af handahófi. Í hverri verslun var byrjað á því að finna til þær vörur sem féllu undir umfang eftirlitsins, þær númeraðar og svo valdar í úrtak af handahófi með aðstoð forrits sem býr til tilviljunarkenndar tölur. Í 1. töflu má  sjá þær verslanir sem farið var í eftirlit til ásamt vöruflokkum sem voru skoðaðir á hverjum stað.    Til þess að fá mynd af alvarleika frávikana voru þau flokkuð í þrjú s tig eins og sýnt er í 1. töflu, þar sem 1. stig er minnst alvarlegt og 3. stig mest alvarlegt. Ef frávik við merkingar telst vera á 1. stigi þarf að senda Umhverfissstofnun tillögu að fullnægjandi úrbótum en ekki þarf að endurmerkja vörur sem þegar eru komnar í sölu fyrr en við næstu miðaprentun. Við frávik á 2. stigi þarf sömuleiðis að senda Umhverfisstofnun tillögu að fullnægjandi úrbótum og auk þess að endurmerkja allar vörur sem þegar eru í sölu í samræmi við þær. Falli frávik undir 3. stig krefst Umhverfisstofnun tímabundinar stöðvunar á markaðssetningu vörunnar sem um ræðir, þar til úrbætur hafa átt sér stað. 


    Í heildina voru 102 vörur skoðaðar í eftirlitinu og 75 af þeim höfðu eitt eða fleir frávik frá gildandi reglum um merkingar, eða 74% þeirra (3. tafla). Út frá flokkunarskilyrðunum í 2. töflu féllu flestar vörur undir það að vera með frávik á 2. stigi, eða 47%, en fæstar með frávik á 3. stigi, eða 5%. Hjá 26% varanna fundust ekki frávik varðandi merkingar en 22% varanna reyndust vera með frávik á 1. stigi.. Á 1. mynd má sjá hlutfallslega skiptingu frávika og hlutfall frávikalausra vara.


    1. mynd  Hlutfallsleg skipting frávika

    Af vörunum sem voru skoðaðar vantaði íslenskar merkingar á 21 vöru sem gefur hlutfallið 21%. Vörur gátu haft frávik þrátt fyrir að vera merktar á íslensku, til dæmis gamlar og úreltar merkingar eða rangt orðalag á hættu- og varnaðarsetningum og/eða viðvörunarorðum.

    Eftirmálar

    Þeim birgjum sem báru ábyrgð á vörum með frávik var veittur þriggja vikna frestur til að verða við kröfum Umhverfisstofnunar um úrbætur. Brugðust þeir almennt við á fullnægjandi hátt, innan frestsins sem gefinn var, en nokkrir fengu þó viðbótarfrest til þess að verða við kröfum og hafa þeir nú orðið við þeim.

    Markaðseftirlit með sæfivörum með áherslu á flokkun og merkingu

     Fyrri hluti

     Formáli

     Markmið efnalaga nr. 61/2013 er að tryggja að meðferð á efnum og efnablöndum valdi hvorki tjóni á heilsu manna né umhverfi, tryggja frjálst flæði á vörum á innri markaði ESB og koma í veg fyrir ólöglega markaðssetningu efnavara. Eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar samkvæmt efnalögum er að hafa eftirlit með markaðssetningu efna og efnablanda sem falla undir lögin.

     Sæfivörur er stór hópur efnavara, sem skiptist í fjóra aðalflokka; sótthreinsiefni, rotvarnarefni, varnir gegn meindýrum og aðrar sæfivörur. Þessir aðalflokkar skiptast síðan í samtals 22 vöruflokka.

     Í þessu verkefni var farið í eftirlit með sæfivörum á markaði, sbr. hlutverk Umhverfisstofnunar með framkvæmd efnalaga og reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur. Sérstök áhersla var lögð á að skoða vörur sem tilheyra vöruflokkunum; viðarvarnarefni, gróðurhindrandi vörur, nagdýraeitur og skordýraeitur, mítlasæfar og vörur til að verjast öðrum liðdýrum, m.t.t. hvort vörurnar uppfylltu skilyrði um markaðsleyfi og hvort merkingar varanna væru í samræmi við gildandi reglur.

     Tilgangur og markmið

     Samkvæmt efnalögum er Umhverfisstofnun falið að hafa eftirlit með markaðssetningu sæfivara. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gert áætlun um áhættumat virkra efna til notkunar í sæfivörum. Áhættumati allra virkra efna á að vera lokið í árslok árið 2024. Í kjölfar áhættumats er virkt efni annað hvort leyft til notkunar í sæfivörum eða bannað. Ef sæfivara inniheldur virk efni sem hafa lokið áhættumati þarf hún markaðsleyfi á Íslandi svo að hún megi vera á markaði. Margar vörur eru nú þegar með markaðsleyfi og enn fleiri munu þurfa markaðsleyfi á komandi árum.

     Með hliðsjón að ofangreindu voru sett fram eftirfarandi markmið með eftirlitinu:

     • Að skoða hvort krafa um markaðsleyfi sé uppfyllt, sbr. 1, mgr. 17. gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012, ef við á.
     • Að skoða hvort kröfur um flokkun, pökkun og merkingu séu uppfylltar, sbr. 69. gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012, ef vara er með markaðsleyfi.
     • Að skoða hvort vara innihaldi, skv. innihaldslýsingu, bönnuð virk efni, sbr. 1. gr. reglugerðar 878/2014 ásamt breytingum
     • Að skoða hvort kröfur um merkingu og umbúðir séu uppfylltar, sbr. reglugerð nr. 415/2014 (CLP), ef vara þarf ekki að vera komin með markaðsleyfi þar sem áhættumati virka efnisins er ekki lokið.

     Framkvæmd
     Í þessum fyrri hluta verkefnisins fóru eftirlitsmenn Umhverfisstofnunar í eftirlit hjá 6 fyrirtækjum, sem setja sæfivörur á markað. Áætlað er að seinni hluti verkefnisins fari fram á árinu 2019 og þá verði farið í eftirlit hjá öðrum 6 fyrirtækjum. Eftirlitsþegar koma fram í meðfylgjandi töflu.


     Eftirfarandi eftirlitsþegar féllu undir umfang verkefnisins:

     Eftirlitsferðir fóru fram á tímabilinu 18. apríl 2018 til 24. ágúst 2018. Við komu á staðinn var eftirlitsþega afhent tilkynning um eftirlitið þar sem  verkefninu og markmiðum þess er lýst. Fulltrúi fyrirtækisins var viðstaddur og staðfesti með undirritun sinni að eftirlitið hafi farið fram.

     Niðurstöður

     Samtals voru skoðaðar 63 sæfivörur og þar af fundust eitt eða fleiri frávik við 41 þeirra, sem þýðir að tíðni frávika er 65%. Fjórar vörur uppfylltu ekki skilyrði um markaðsleyfi og þar af er beðið eftir staðfestingu um að sótt hafi verið um markaðsleyfi fyrir einni þeirra. Ein vara var tekin úr sölu að frumkvæði birgis og stofnuninni send staðfesting á förgun hennar. Markaðssetning hinna tveggja varanna var stöðvuð tímabundið og fyrirtækjunum veittur frestur til þess að sækja um markaðsleyfi. Sæki fyrirtæki ekki um markaðsleyfi innan tiltekins frests verður markaðssetning varanna stöðvuð varanlega. Í hvorugu tilvikinu er fresturinn liðinn en bæði fyrirtækin hafa þó upplýst nú þegar að ekki verði sótt um markaðsleyfi fyrir vörunum, svo þær munu hverfa af markaði.
     Frávik vegna ófullnægjandi merkinga fundust á 40 vörum sem skiptust þannig að  4 vörur með markaðsleyfi uppfylltu ekki kröfur um merkingu skv. reglugerð nr. 528/2012 um sæfivörur og 36 vörur sem bjóða má fram á markaði án markaðsleyfis uppfylltu ekki kröfur um merkingar skv. reglugerð nr. 415/2014 (CLP). Merkingar þriggja vara voru lagaðar áður en eftirlitsskýrsla var send út og tvær vörur voru teknar af markaði af birgi og send staðfesting  um förgun þeirra til Umhverfisstofnunar.
     Umhverfisstofnun óskaði eftir afriti af uppfærðum merkimiðum fyrir 32 vörur. Fyrirtækin hafa brugðist við og sent afrit af uppfærðum merkimiðum fyrir 23 vörum en af þeim reyndust einungis 15 vera fullnægjandi og því er beðið eftir endurbættum tillögum að merkingum fyrir 8 vörur. Þá eiga enn eftir að berast tilllögur að merkingum fyrir 6 vörum en frestir til að skila þeim eru ekki liðnir. Afrit af uppfærðum merkimiðum mun ekki berast vegna þriggja vara, sem hafa nú þegar verið teknar úr sölu.

      

    Plöntuverndarvörur á markaði 2018 

    Tilgangur og markmið:

    • Að ganga úr skugga um að plöntuverndarvörur sem eftirlitsþegi setur á markað séu með markaðsleyfi í gildi.
    • Að athuga hvort merkingar umbúða séu í samræmi við gildandi reglur þar um.

     

    Framkvæmd og helstu niðurstöður:

     

    Farið var í eftirlit þann 18. maí 2018 hjá fyrirtækjum sem setja plöntuverndarvörur á markað. Úrtakið í eftirlitinu náði til 49 mismunandi plöntuverndarvara í heild. Allar plöntuverndarvörur sem fundust í sölu hjá fyrirtækjunum voru kannaðar með tilliti til markaðsleyfa, sbr. reglugerð nr. 544/2015 um plöntuverndarvörur og merkinga á umbúðum varanna sbr. reglugerð nr 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna eða efnablandna, reglugerð nr. 544/2015 um plöntuverndarvörur og reglugerð nr. 1002/2014 um gagnkvæma viðurkenningu á tilteknum markaðsleyfum fyrir plöntuverndarvörum.

     

    Eftirfarandi eftirlitsþegar féllu undir umfang verkefnisins:

     

    Fyrirtæki:

    Starfsemi:

    Samhentir Kassagerð ehf.

    Innflutningur, heildsala

    Garðheimar Gróðurvörur ehf.

    Innflutningur, heildsala, smásala

    Kemi ehf.

    Innflutningur, heildsala

     

     

    Samtals voru skoðaðar 62 plöntuverndarvörum í eftirlitinu og þar af reyndust 25 vörur vera með eitt eða fleiri frávik þannig að tíðni frávika var um 40%. Gerðar voru kröfur um úrbætur vegna ófullnægjandi merkinga á þessum 25 vörum og hafa fyrirtækin brugðist við þeim og fullnægjandi hátt. Allar plöntuverndarvörurnar sem skoðaðar voru í eftirlitinu reyndust vera með leyfi til að vera á markaði.

    Úttekt á tollafgreiðslu plöntuverndarvara 2017

     Tilgangur og markmið:

     • Að nota upplýsingar um tollafgreiðslu til að leggja mat á það hve mikið af plöntuverndarvörum berast til landsins á hverju ári.
     • Að athuga hvort tollflokkun sé hugsanlega ábótavant, leiðrétta og leiðbeina hlutaðeigandi fyrirtækjum um tollflokkun þannig að upplýsingar um tollafgreiðslu plöntuverndarvara gefi raunsanna mynd af því hve mikið er sett af þessum vörum á markað hér á landi.

     Framkvæmd og helstu niðurstöður:
     Í úttektinni var athyglinni beint að plöntuverndarvörum í eftirfarandi tollflokkunum:

     • 3808.9100: Skordýraeyðir; Sveppaeyði
     • 3808.9300: Illgresiseyðir, spírunareyðir og efni til að stjórna plöntuvexti

     Gögn frá Tollstjóra um tollafgreiðslu ásamt gögnum frá Umhverfisstofnun um tolláritanir voru nýtt til að taka saman upplýsingar um það hve mikið af plöntuverndarvörum voru settar á markað á árinu 2017. Einnig var notast við upplýsingar úr eftirlitsverkefni Umhverfisstofnunar þar sem fylgst var með tollafgreiðslu undir ákveðnum tollskrárnúmerum, þar á meðal þeim sem plöntuverndarvörur falla undir. Samkvæmt úttektinni fengu 4 fyrirtæki tollafgreiddar plöntuverndarvörur á árinu sem skiptust niður á 54 sendingar.

     Alls voru tollafgreidd 11,6 tonn af plöntuverndarvörum á árinu 2017  og hefur magnið því dregist saman um 10% á milli áranna 2016 og 2017. Gögn sem Umhverfisstofnun hefur tekið saman um tollafgreiðslu á plöntuverndarvörum fyrir árin 2009-2017 sýna reyndar þá þróun að innflutningur þessara vara hefur dregist saman á tímabilinu og er nú aðeins um fjórðungur af því sem var 2009. Talsverðar sveiflur er þó milli ára, en megin ástæðan fyrir þeim er sú, að teknar eru inn stórar sendingar af vörum sem nokkur ár tekur að selja. Af plöntuverndarvörum sem fluttar voru inn árið 2017 reyndust 70% af þeim vera illgresiseyðar og 30% skordýra- og sveppaeyða þannig að illgresiseyðar eru því enn stærsti hluti plöntuverndarvara á markaði líkt og á fyrri árum.

     Samdráttur í framboði á plöntuverndarvörum á markaði hér á landi gæti átt sér nokkrar skýringar og eru þrjár þær líklegustu nefndar hér að neðan. Fyrst er þar til að taka að leyfum fyrir þessum vörum hefur fækkað umtalsvert frá því að efnalögin tóku gildi árið 2013 og nokkrar vörur því með öllu horfnar af markaði. Þá hefur það áhrif að bændur hafa í auknum mæli tekið upp líffræðilegar varnir eða aðrar aðgerðir í plöntuvernd, sem ekki byggjast á notkun efna. Loks kann skýringin að liggja í því að áhugi á notkun plöntuverndarvara hafi dregist saman sem afleiðing af aukinni umræðu um skaðsemi þeirra gagnvart heilsu og umhverfi. 

     Upplýsingar sem aflað er á þennan hátt nýtast til þess að reikna út áhættuvísa sem settir eru fram í Aðgerðaráætlun um notkun varnarefna 2016-2031. Samkvæmt aðgerðaráætluninni skal innflutningur á plöntuverndarvörum ekki nema meiru en 12 tonnum alls á ári og sýna niðurstöður verkefnisins að því markmiði var náð á árinu 2017.
     Líkt og í eftirlitsverkefnum fyrri ára kemur enn í ljós að nokkuð er um ranga tollflokkun á plöntuverndarvörum og þá algengast að sveppaeyðar séu settir í rangan flokk. Við úrvinnslu gagnanna var þetta leiðrétt í þeim tilfellum sem augljóst var að tollflokkunin væri röng og verða hlutaðeigandi fyrirtæki upplýst um málið.

    Söluskrár 2017 fyrir plöntuverndarvörur og útrýmingarefni til notkunar í atvinnuskyni 

     Tilgangur:

     • Að óska eftir söluskrám frá aðilum sem setja á markað plöntuverndarvörur og nagdýraeitur sem einungis eru ætluð til notkunar í atvinnuskyni, sbr. heimildir í 24. gr. efnalaga nr. 61/2013.
     • Að athuga hversu mikið magn af tilteknum varnarefnum var selt 2017 og hversu miklu magni af virkum efnum það samsvarar.
     • Að athuga hvort að þeir sem markaðssetja tiltekin varnarefni, sem eru eingöngu til notkunar í atvinnuskyni, afhendi aðeins þeim efnin sem hafa gild notendaleyfi frá Umhverfisstofnun, sbr. 24. gr. efnalaga nr. 61/2013.

      

     Framkvæmd og helstu niðurstöður:

     Verkefnið náði til allra plöntuverndarvara og nagdýraeiturs sem einungis eru ætlað til notkunar í atvinnuskyni. Umhverfisstofnun óskaði eftir skrám vegna sölu á þessum vörum á árinu 2017 þar sem fram kæmu eftirfarandi upplýsingar: vöruheiti, umbúðastærð, fjöldi seldra eða afhentra sölueininga af hverri umbúðastærð, dagsetning sölu, nafn og kennitala notendaleyfishafa, sem og nafn og kennitala fyrirtækis, ef við átti.

      

     Eftirfarandi fyrirtæki féllu undir umfang verkefnisins:

     • Frjó Umbúðasalan ehf. / Samhentir Kassagerð ehf.
     • Garðheimar Gróðurvörur ehf.
     • Kemi ehf.
     • Ráðtak, meindýr og varnir ehf.
     • Streymi heildverslun ehf.

      

     Á árinu 2017 reyndust 34 plöntuverndarvörur sem eingöngu eru ætlaðar til notkunar í atvinnuskyni vera á markaði hér á landi og nam salan á þeim alls 3148 kg, eða sem samsvarar 1058 kg af virku efni. Af nagdýraeitri voru 10 vörur á markaði og nam salan á þeim alls 9771. Það samsvarar einungis 0,49 kg af virku efni og þá á sér skýringu í því að styrkur virku efnanna í öllum þessum vörum er einungis 0,005%.

      

      

     Plöntuverndarvörur

     Nagdýraeitur

     Fjöldi vara í sölu

     34

     10

     Fjöldi virkra efna

     34

     2

     Sala alls af vörum

     3148 kg

     9771 kg

     Sala alls (sem magn af virku efni)

     1058 kg

     0,49 kg

      

     Eingöngu má afhenda tiltekin varnarefni sem ætluð eru til notkunar í atvinnuskyni til einstaklinga sem hafa gild notendaleyfi frá Umhverfisstofnun. Af 134 kaupendum plöntuverndaravara á árinu 2017 reyndust 88 vera með notendaleyfi í gildi, 10 með útrunnin leyfi og 36 kaupendur höfðu aldrei verðið með gilt notendaleyfi eða annað sambærilegt leyfi. Mun hærra hlutfall kaupenda að nagdýraeitri var með leyfi í gildi þegar kaupin áttu sér stað eða 76 af þeim 77 einstaklingum sem keyptu slíkar vörur, en einungis einn var með útrunnið leyfi við kaup.


      

     Notendaleyfi fyrir plöntuverndarvörur

     Notendaleyfi fyrir útrýmingarefnum

      

     Fjöldi

     %

     Fjöldi

     %

     Kaupandi með leyfi í gildi

     88

     66%

     76

     99%

     Kaupandi með útrunnið leyfi

     10

     7%

     1

     1%

     Kaupandi aldrei haft leyfi

     36

     27%

     0

     0%

     Kaupendur alls

     134

      

     77

      

     Líkt og í verkefnum fyrri ára kemur enn í ljós að hluti þeirra sem kaupa plöntuverndarvörur, til notkunar í atvinnuskyni, hafa ekki gild notendaleyfi við kaup. Það er á ábyrð þeirra sem markaðssetja vörurnar að afhenda þær eingöngu til einstaklinga sem hafa leyfin í gildi. Verða hlutaðeigandi fyrirtæki upplýst um málið, þeim bent á ábyrgð sína hvað þetta varðar og gerð krafa um úrbætur ef við á.

     

    Eftirlit með snyrtivörum sem upprunnar eru í löndum utan EES 

    Inngangur

    Hér á landi gildir reglugerð nr. 577/1013 um snyrtivörur sem innleiðir reglugerð (EB) nr. 1223/2009 sama heitis. Eitt af því sem kveðið er á um í reglugerðinni er að áður en snyrtivara er sett á markað innan Evrópska efnahagsvæðisins (EES) skal ábyrgðaraðili fyrir markaðssetningunni á svæðinu senda framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) upplýsingar um vöruna með rafrænum hætti í samræmi við kröfur reglugerðarinnar. Hefur framkvæmdstjórnin útbúið sérstaka snyrtivöruvefgátt (CPNP) til þess að taka við þessum upplýsingum. Ábyrgðaraðili snyrtivöru getur verið framleiðandi innan EES, aðili sem flytur snyrtivöru í fyrsta sinn inn á EES, aðili sem markaðssetur snyrtivöru undir sínu nafni eða vörumerki ellegar breytir vöru sem þegar hefur verið sett á markað.

     Tilgangur

    • Að kanna hvort húðsnyrtivörur markaðssettar hérlendis sem upprunnar eru frá löndum utan EES séu skráðar í snyrtivöruvefgátt ESB (CPNP).
    • Að kanna hvort vörurnar séu merktar í samræmi við kröfur ofangreindra reglugerða.
    • Að skoða út frá innihaldslýsingu varanna hvort þær innihaldi óleyfileg efni.
    • Að fræða birgja um ákvæði reglugerða sem gilda um snyrtivörur.
    • Að auka neytendavernd..

     Framkvæmd og niðurstöður

    Upplýsingar um birgja sem eru að markaðsetja snyrtivörur frá löndum utan EES hérlendis voru fengnar út frá upplýsingum Tollstjóra um tollafgreiðslur.  

    Í úrtakinu lentu alls níu birgjar og var farið í eftirlit til þeirra dagana 4., 6. og 12. júní 2018. Hjá hverjum birgi voru skoðaðar 2-4 vörur og teknar ljósmyndir af merkingum þeirra og innihaldslýsingu til nánari skoðunar. Kannað var hvort vörurnar væru skráðar í snyrtivöruvefgátt ESB en Umhverfisstofnun hefur aðgang að gáttinni sem lögbært yfirvald varðandi snyrtivörur hér á landi. Jafnframt var skoðað hvort merkingar varanna væru í samræmi við ofangreindar reglugerðir og, út frá innihaldslýsingu á umbúðum þeirra, hvort þær innihaldi einungis leyfileg efni samkvæmt viðaukum EB reglugerðar.

    Í eftirfarandi töflu koma fram birgjar sem lentu í úrtaki eftirlitsins, fjöldi vara sem skoðaðar voru hjá hverjum og fjöldi vara með frávik:

    Birgjar í úrtaki

    Fjöldi vara skoðaðar

    Fjöldi vara með frávik

    Adriana ehf.

    4

    4

    Artica ehf.

    4

    0

    Daría ehf.

    4

    1

    Fortia ehf.

    4

    3

    Nola ehf.

    4

    1

    Nu skin Íslandi ehf.

    4

    0

    Sigurborg ehf.

    4

    2

    Terma ehf.

    2

    0

    Top Toy Iceland ehf.

    2

    0

     

    32

    11

    Samtals voru skoðaðar 32 vörur og hjá 4 birgjum reyndust allar vörur sem skoðaðar voru frávikalausar en hjá hinum 5 fundust 1-4 vörur með frávik. Alls fundust 11 vörur, eða 34%, með frávik. 9 af þeim reyndust ekki vera skráðar í snyrtivöruvefgáttina og þar af vantaði upplýsingar um ábyrgðaraðila innan EES á umbúðir fyrir 4 vörur. Tvær vörur voru skráðar í gáttina en vantaði upplýsingar um ábyrgðaraðila innan EES á umbúðir.

    Merkingar allra varanna voru að öðru leyti í lagi og þær reyndust ekki innihalda óleyfileg efni samkvæmt innhaldslýsingu þeirra. Hins vegar kom í ljós að 4 vörur reyndust innihalda hýdroxýísóhexyl-3-sýklóhexene karboxaldehýð (HICC), en bannað verður að markaðssetja snyrtivörur með þessu innihaldsefni frá 23. ágúst 2019 innan EES og frá 23. ágúst 2021 tekur gildi algjört sölubann. Ábendingu hvað þetta varðar var komið á framfæri við viðkomandi birgja.

    Birgjar fengu sendar niðurstöður eftirlitsins í formi eftirlitsskýrslu og bréfs þar sem fram komu kröfur Umhverfisstofnunar um úrbætur innan tiltekins frests, en birgjar sem höfðu engin frávik fengu sent málslokabréf.

    Niðurstöður eftirlitsins eru teknar saman hér að neðan:

    Umfang

    Fjöldi vara skoðaðar

    Vörur með frávik

     

    Vörur án frávika

    Húðsnyrtivörur frá löndum utan EES

    32

    11(34%)

     21 (66%)

     

    Greining frávika

    Fjöldi vara 

    Skráning í snyrtivöruvefgátt ESB (CPNP) ekki til staðar og upplýsingar um ábyrgðaraðila innan EES ekki tilgreindar á umbúðum

    4 (12%)

    Skráning í snyrtivöruvefgátt ESB (CPNP) ekki til staðar en upplýsingar um ábyrgðaraðila innan EES tilgreindar á umbúðum

    5 (16%)

    Upplýsingar um ábyrgðaraðila innan EES ekki tilgreindar á umbúðum en skráning í snyrtivöruvefgátt ESB (CPNP) til staðar

     2 (6%)

    Innflutningur kælimiðla í hópi flúoraðra gróðurhúsalofttegunda 

    Losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu eldsneytis 

    Er markmiðum um að draga úr brennisteinsinnihaldi í skipaeldsneyti fylgt eftir?

  Mynd sem fylgir - Rauði listinn

  Rauði listinn

  Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
  Meira

  Vinsælar síður

  An exception occurred: Invalid column name 'orderby'.