Flokkun

  Flokkun efna byggist á hættueiginleikum þeirra hvort sem það eru eðliseiginleikar (t.d. eld- og sprengifimi, sýrustig, stöðugleiki) eða eiginleikar sem eru skaðlegir heilsu eða umhverfinu. Sýnt er fram á hættueiginleika efna með prófunum. Um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna gildir reglugerð nr. 415/2014, sem innleiðir reglugerð Evrópusambandsins nr. 1272/2008 (CLP). Í CLP reglugerðinni og viðaukum hennar má finna upplýsingar og leiðbeiningar um það hvernig skal flokka og merkja efni og efnablöndur. 

  Efni má eingöngu markaðssetja ef búið er að flokka það samkvæmt CLP eða staðfesta að efnið sé ekki hættulegt, en þá á flokkun ekki við. Flokka skal öll efni sem fara á markað og hafa eiginleika sem gera þau hættuleg. Efni sem flokkuð hafa verið sem hættuleg eru birt á lista 3.2. í VI. viðauka í CLP reglugerð (sjá efnalistar). Hættuleg efni sem eru ekki á lista yfir slík efni skal flokka samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir og tilkynningum frá framleiðendum og innflytjendum efna í flokkunar- og merkingaskrá Efnastofnunar Evrópu.

  Flokkun efna og efnablandna samkvæmt CLP

  Með reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna (CLP) urðu nokkrar mikilvægar breytingar varðandi flokkun:

  • Ábyrgð með flokkun efna færist frá yfirvöldum til atvinnulífsins. Áhrifin eru þó aðallega þau að flokkun efna mun framvegis koma fram í flokkunar- og merkingaskrá Efnastofnunar Evrópu í Helsinki sem byggir á tilkynningum frá framleiðendum og innflytjendum efna.
  • Efnablöndur skal flokka eftir eiginleikum blöndunnar sjálfrar, fremur en einstakra innihaldsefna, hafi þeir verið prófaðir á annað borð. Þá er heimilt að flokka blöndur út frá líkindum við aðrar blöndur eins og lýst er í I. viðauka.
  • Flokkun nýrra efna og efnablandna skal byggja á fyrirliggjandi upplýsingum ef kostur er svo að ekki þurfi að framkvæma ónauðsynlegar tilraunir á dýrum.
  • Flokkun nær til fleiri eiginleika en áður. Þar ber helst að nefna að lofttegundir undir þrýstingi eru nú sérstakur flokkur.
  • Samræmd flokkun efna (opinberi listinn) er birtur í lista 3.1. í VI. viðauka við CLP reglugerð en einnig í flokkunar- og merkingaskrá Efnastofnunar Evrópu. Hingað til hefur samræmd flokkun efna birst með reglugerð en framvegis munu aðeins bætast á opinbera listann efni sem hafa alvarlegustu hættueiginleikana (valda krabbameini, stökkbreytingum, eru skaðleg æxlun eða valda næmi í öndunarfærum) auk virkra efna í sæfivörum og plöntuverndarvörum. Hafi efni eða efnablanda verið flokkuð samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 236/1990 er heimilt að nota flýtileið til endurflokkunar með því að styðjast við töflu í VII viðauka. Við flokkun þarf að styðjast við CLP reglugerð Evrópusambandsins.

  Tilkynning í flokkunar- og merkingaskrá

  Þeir sem ábyrgir eru fyrir markaðssetningu efna (þ.m.t. efnum í blöndum) skulu flokka efnin eins og lýst er í II. kafla í CLP reglugerð og 2.-5. hluta í I. viðauka. Þeir eru jafnframt ábyrgir fyrir tilkynningu í flokkunar- og merkingaskrá Efnastofnunar Evrópu (ECHA), en hana má framkvæma beint í gegnum heimasíðu ECHA.

  Þeir sem eiga að tilkynna í flokkunar- og merkingarskrá Efnastofnunar Evrópu eru:

  • Framleiðendur hreinna efna
  • Innflytjendur hreinna efna frá löndum utan EES
  • Framleiðendur efnablandna sem flytja inn hráefni frá löndum utan EES
  • Innflytjendur efnablandna frá löndum utan EES.
  Mynd sem fylgir - Rauði listinn

  Rauði listinn

  Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
  Meira

  Vinsælar síður

  An exception occurred: Invalid column name 'orderby'.