Hvað þarf ég að vita

  Með innleiðingu reglugerðar (ESB) nr. 528/2012 um sæfivörur varð regluverkið í kringum sæfivörur mun flóknara en áður og ekki er alltaf auðvelt  að átta sig á því hvort reglurnar gildi um tiltekna vöru sem fyrirhugað er að setja á markað eða nota hér á landi.

  Umhverfisstofnun hefur tekið saman upplýsingar fyrir framleiðendur, innflytjendur og notendur sæfivara til leiðsagnar þegar metið er hvort vara teljist vera sæfivara eður ei og hvaða skyldur fylgi því að setja á markað og nota slíkar vörur á Íslandi. Einnig er í leiðbeiningunum að finna upplýsingar varðandi notkun á sæfivörum, bæði fyrir fagmenn og almenning, um geymslu og förgun þeirra og upplýsingar um vörur sem hafa verið meðhöndlaðar með sæfivörum. Auk þess er fjallað í stuttu máli um alla fjóra aðalflokka sæfivara, þ.e.a.s. sótthreinsiefni, rotvarnarefni, varnir gegn meindýrum og aðrar sæfivörur.

  Ef frekari upplýsingar vantar er velkomið að hafa samband við sérfræðing Umhverfisstofnunar í síma 591-2000 eða senda fyrirspurn á ust@ust.is.

  Hvernig veistu hvort varan þín er sæfivara?

  Sæfivörur er samheiti yfir vörur sem notaðar eru í því skyni að vernda fólk, dýr, vatn, yfirborð, efni og vörur fyrir skaðvöldum, t.d. meindýrum, bakteríum, sveppum eða öðrum óæskilegum lífverum. Sæfivara drepur, fælir frá eða laðar að sér lifandi skaðvalda vegna þess að hún inniheldur tiltekin virk efni, sem hafa þessi áhrif. Sæfivörur eru notaðar til ýmissa daglegra þarfa, bæði á heimilum og í atvinnulífinu, s.s. iðnaði og þjónustu. 

  Það er líklegt að varan þín flokkist sem sæfivara ef hún er notuð:

  til sótthreinsunar fyrir menn, dýr og yfirborð,
  til að rotverja og lengja líftíma vöru,
  til að koma í veg fyrir vonda lykt,
  til að takmarka útbreiðslu baktería,
  til útrýmingar meindýra,
  sem gróðurhindrandi efni.

  Sæfivörur skiptast í 22 vöruflokka og sjá má yfirlit yfir þá hér.

  Löggjöfin um sæfivörur snertir stöðugt fleiri vörur vegna þess hvernig fyrirkomulagið við framkvæmd er. Það felst annars vegar í því að dreifa áhættumati á virkum efnum á mörg ár og hins vegar að ekki má setja sæfivöru á markað án þess að búið sé að veita henni markaðsleyfi, ef áhættumati á virku efnunum sem hún inniheldur er lokið. Inn í þetta spilar líka að hluti af þessum vörum féll ekki undir neinar reglur áður. Núgildandi löggjöf hefur því í för með sér að mun fleiri atvinnugreinar en áður þurfa að sjá til þess að vörurnar sem verið er að nota eða bjóða til sölu uppfylli kröfur reglugerðar 528/2012 um sæfivörur.

  Vörur sem falla undir sæfivörureglugerðina

  Sæfivörureglugerðin fjallar um sæfivörur, virk efni og meðhöndlaðar vörur.

  Sæfivara

  Vara, sem flokkast sem sæfivara, hefur það sem aðalmarkmið að vernda fólk, dýr, vatn, yfirborð, efni og vörur fyrir skaðvöldum. Sæfivara inniheldur tiltekin virk efni sem drepa, fæla frá eða laða að sér lifandi skaðvalda eins og bakteríur, þörunga, sveppi eða meindýr.
  Þetta eru t.d. vörur sem við notum til sótthreinsunar á allskyns efnum og búnaði, til að rotverja allskonar efni og vörur, til að útrýma bæði smærri og stærri meindýrum, ellegar fæla þau frá eða laða að, sem viðarvörn, til að hindra að gróður setjist á ýmiskonar yfirborð og til uppstoppunar eða líksmurningar.

  Sjá nánar í yfirliti yfir 22 vöruflokka sæfivara.

  Virk efni

  Virkt efni er það innihald sem framleiðendur nota í sæfivöru eða meðhöndlaða vöru. Virkt efni í sæfivörum hefur sæfandi eiginleika, sem virkar gegn lifandi skaðvöldum og kemur í veg fyrir tjón af völdum þeirra.
  Dæmi um virk efni í sæfivörum eru joð, etanól, klór, permetrín, brómadíolón og kopar.

  Vörur meðhöndlaðar með sæfivöru

  Við tölum um meðhöndlaðar vörur þegar í þær hefur annaðhvort verið bætt virkum efnum með sæfandi eiginleika eða þær meðhöndlaðar með sæfivörum, í þeim tilgangi að verja þær fyrir lykt, rotnun eða öðru tjóni af völdum baktería, þörunga, myglu (sveppa), skordýra eða annarra meindýra.
  Meðhöndlaðar vörur geta t.d. verið málning, lökk, fatnaður, skór, gólfteppi eða sturtuhengi, svo eitthvað sé nefnt.

  Vörur sem ekki heyra undir sæfivörureglugerðina

  Nokkrar vörur sem í fljótu bragði gætu virst vera sæfivörur, vegna þess að þær innihalda virk efni með sæfandi eiginleikum, falla ekki undir sæfivörureglugerðina og helgast það af notkunarsviði þeirra. Þetta á t.d. við um:
  Rotvarnarefni sem notuð eru í snyrtivörum.
  Rotvarnarefni í matvælum og fóðri.
  Sæfandi efni sem notuð eru til sótthreinsunar lækningatækja.
  Lyf sem notuð eru til að meðhöndla sjúkdóma hjá fólki og dýrum.
   
  Sæfivörulöggjöfin nær heldur ekki yfir vörur, sem notaðar eru til að koma í veg fyrir eða hemja skaðvalda með hindrunum eða vélrænum hætti og án þess að nota efni.

   

  Upplýsingar um hvaða löggjöf gildir um þessar vörur er að finna hjá viðeigandi stjórnvöldum.
  Ef þú ert framleiðandi, innflutningsaðili eða seljandi vöru sem inniheldur efni, getur þú fundið viðeigandi löggjöf undir málaflokknum „Efni“ hér á síðunni.

  Sjá nánar um mismunandi vöruflokka í bransaleiðbeiningum:

  Þurfa sæfivörur markaðsleyfi ?

  Ef þú vilt flytja inn, framleiða, selja eða nota sæfivöru á Íslandi þarftu markaðsleyfi frá Umhverfisstofnun í samræmi við ákvæði í efnalögum og viðeigandi reglugerða sem undir þau heyra. Mikilvægur þáttur við leyfisveitinguna er að ganga úr skugga um að nægjanleg þekking sé fyrir hendi um áhættuna af vörunni þannig að hægt sé að dæma um hvort hún teljist örugg í venjulegri notkun, sé hún notuð rétt og gripið til viðeigandi varúðarráðstafana eftir því sem við á. Við leyfisveitinguna er virkni vörunnar einnig skoðuð.
   
  Sjá einnig :
  Hér eru upplýsingar um helstu kröfur sem sæfivara þarf að uppfylla ef fyrirhugað er að bjóða hana fram til sölu eða notkunar á Íslandi.

  Á síðunni um löggjöfina eru gagnlegar upplýsingar, t.d. varðandi það hvernig sæfivörur eru skilgreindar og gildissvið reglugerðarinnar um sæfivörur, sem auðvelda þér að ákveða hvort varan er sæfivara eða ekki.

  Vöruflokkarnir, sem sæfivörur tilheyra eru 22  og ná yfir sótthreinsiefni , rotvarnarefni,  varnir gegn meindýrum og aðrar sérstakar sæfivörur s.s. gróðurhindrandi vörur, vörur vegna uppstoppunar dýra og vörur sem notaðar eru við líksmurningu. Sæfivörur geta fengið markaðsleyfi þegar virku efnin í þeim hafa verið áhættumetin og samþykkt. Sjá nánar á síðunum um virk efni og markaðsleyfi.

  Hvað þarftu að gera ef þú vilt bjóða fram sæfivöru á Íslandi ?

  Hver er staða virka efnisins ?

  Áður en þú setur sæfivöru á markað á Íslandi þarftu að ganga úr skugga um að virka efnið, sem sæfivaran inniheldur, uppfylli eitt af eftirfarandi skilyrðum:
  • Sé samþykkt fyrir vöruflokkinn, sem varan tilheyrir
  • Sé í áhættumati fyrir vöruflokkinn, sem varan tilheyrir.
  • Sé á listanum í I. viðauka við sæfivörureglugerðina, en það er skrá yfir virk efni sem nota má í vörur sem hæfar eru til einfaldaðrar málsmeðferðar við leyfisveitingu.

  Hægt er að fletta upp upplýsingum um stöðu virka efnisins á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu. 

   
  Ef virka efnið í vörunni þinni uppfyllir ekki eitt af þessum skilyrðum getur þú ekki boðið vöruna fram á markaði sem stendur. Þess í stað þarft þú að tilkynna virka efnið í áhættumat þannig að það komist inn í samþykktarferli reglugerðarinnar eða leggja fram umsókn um breytingar á I. viðauka  og síðan þarf varan að fá markaðsleyfi áður en þú getur boðið hana fram til sölu eða notkunar sem sæfivöru.

   Virka efnið í vörunni þinni hefur verið samþykkt fyrir vöruflokkinn sem um ræðir

  Ef virka efnið hefur verið samþykkt fyrir vöruflokkinn, sem á við um vöruna þína, þarf hún markaðsleyfi á Íslandi áður en hægt er að bjóða hana fram til sölu eða notkunar.
   

  Virka efnið í vörunni hefur verið samþykkt fyrir vöruflokkinn sem um ræðir, en samþykktardagsetningin er ekki runnin upp

  Virku efnin sem eru samþykkt

  Ef sæfivaran þín inniheldur virkt efni sem búið er í áhættumati og er samþykkt fyrir þann vöruflokk, sem um ræðir, samkvæmt framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnar ESB, þarft þú að sækja um markaðsleyfi fyrir vörunni áður en samþykktardagsetning virka efnisins rennur upp. Þá dagsetningu er að finna í framkvæmdareglugerðinni sem birt er í EES viðbætinum við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, sjá lista yfir samþykkt virk hér og hér.

   

  Í samræmi við umbreytingaráðstafanir sem fram koma í 89. gr. sæfivörureglugerðarinnar má bjóða fram vörur án markaðsleyfis fram að því að öll virku efnin í vörunni hafa fengið samþykktardagsetningu. Til þess að varan megi vera á markaði á Íslandi eftir að samþykktardagsetning síðasta virka efnisins rennur upp, þarf umsókn um markaðsleyfi fyrir vörunni hér á landi að liggja fyrir eigi síðar en á þeim degi.
  Ef ekki er sótt um markaðsleyfi fyrir samþykktardagsetninguna eða ef umsókn er hafnað má ekki lengur bjóða sæfivöruna fram til sölu frá og með 180 dögum eftir upphafsdag samþykkisins fyrir virka efninu. Allri notkun vörunnar skal síðan hætt og öllum fyrirliggjandi birgðum af henni skal hafa verið fargað 365 dögum eftir upphafsdag samþykkisins fyrir virka efninu.
   

  Nýtt virkt efni

  Ef sæfivaran þín inniheldur nýtt virkt efni og búið er að birta samþykki þess með framkvæmdareglugerð framkvæmdastjórnar ESB fyrir þann vöruflokk, sem varan þín tilheyrir, þarftu að sækja um markaðsleyfi fyrir vörunni áður en þú getur boðið hana fram til sölu eða notkunar. Ákvæði 89. gr. sæfivörureglugerðarinnar gilda ekki um slíkar vörur.
   

  Virka efnið í vörunni þinni er enn í áhættumati fyrir vöruflokkinn sem um ræðir

  Í samræmi við umbreytingaráðstafanir sem fram koma í 89. gr. sæfivörureglugerðarinnar má bjóða fram vörur án markaðsleyfis fram að því að öll virku efnin í vörunni hafa fengið samþykktardagsetningu. Markaðsleyfi þarf eftir að sú samþykktardagsetning sem er síðust rennur upp. Til þess að varan megi vera á markaði á Íslandi eftir að sú dagsetning rennur upp þarf umsókn um markaðsleyfi fyrir vörunni hér á landi að liggja fyrir eigi síðar en á þeim degi.
  Ef ekki er sótt um markaðsleyfi fyrir samþykktardagsetningu eða ef umsókn er hafnað má ekki lengur bjóða sæfivöruna fram til sölu frá og með 180 dögum eftir upphafsdag samþykkisins fyrir virka efninu og 365 dögum eftir upphafsdag samþykkisins fyrir virka efninu skal fyrirliggjandi birgðum af sæfivörunni hafa verið fargað og notkun hennar hætt.
   

  Virka efnið í vörunni þinni er í I. viðauka við sæfivörureglugerðina sem er skrá yfir virku efnin sem nota má í vörur sem hæfar eru til einfaldaðrar málsmeðferðar við leyfisveitingu

  Ef virka efnið í vörunni þinni er í I. viðauka við sæfivörureglugerðina, þ.e.skránni yfir virku efnin sem nota má í vörur sem hæfar eru til einfaldaðrar málsmeðferðar við leyfisveitingu, er hægt að sækja um markaðsleyfi í samræmi við einfaldaða málsmeðferð við leyfisveitingu ef öll eftirfarandi atriði eru uppfyllt:
  • Öll virku efnin í sæfivörunni eru tilgreind í I. viðauka og fullnægja öllum takmörkunum sem tilgreindar eru í þeim viðauka,
  • Sæfivaran inniheldur engin efni sem gefa tilefni til áhyggna,
  • Sæfivaran inniheldur engin nanóefni,
  • Sæfivaran er nægilega virk og
  • meðhöndlun sæfivörunnar og fyrirhuguð notkun hennar útheimtir ekki persónuhlífar.

  Heimilt er að bjóða sæfivöru, sem er leyfð í samræmi við einfaldaða málsmeðferð, fram á markaði í öllum aðildarríkjum EES án þess að þörf sé á gagnkvæmri viðurkenningu. Nauðsynlegt er þó að tilkynna það til Umhverfisstofnunar a.m.k. 30 dögum áður en sæfivara sem þetta á við um, er boðin til sölu eða notkunar hér á landi.

  Ef Umhverfisstofnun telur að sæfivara, sem hefur verið leyfð í samræmi við einfaldaða málsmeðferð, fullnægi ekki skilyrðunum um slíkt leyfi, er stofnuninni heimilt að vísa því máli til samræmingarhóps. Umhverfisstofnun er heimilt að takmarka eða banna til bráðabirgða að varan verði boðin fram til sölu eða notkunar á Íslandi á meðan ákvörðun hefur ekki verið tekin um málið.
   

  Virka efnið í vörunni þinni er ekki samþykkt, er ekki í áhættumati og er ekki skráð í I. viðauka við sæfivörureglugerðina.

  Ef virka efnið í vörunni þinni uppfyllir ekki eitt af eftirfarandi skilyrðum:
  • Er samþykkt fyrir vöruflokkinn, sem varan tilheyrir,
  • er í áhættumati fyrir vöruflokkinn, sem varan tilheyrir, eða
  • er á listanum í I. viðauka við sæfivörureglugerðina, þ.e. skrá yfir virku efnin sem nota má í vörur sem hæfar eru til einfaldaðrar málsmeðferðar við leyfisveitingu, 
  getur þú ekki boðið vöruna fram á markaði, sem stendur. Þú verður að tilkynna virka efnið í áhættumat þannig að það komist inn í samþykktarferli reglugerðarinnar eða leggja fram umsókn um breytingar á I. viðauka og síðan þarf varan að fá leyfi áður en þú getur boðið hana fram til sölu eða notkunar sem sæfivöru.
   
  Sjá einnig :
  Ef þú ætlar að flytja til landsins og setja á markað sæfivöru verður hún að uppfylla kröfur í viðeigandi löggjöf. Það sama á við ef þú hyggst flytja út sæfivöru frá Íslandi, til markaðsetningar og notkunar á innri markaði Evrópusambandsins, sem Ísland hefur aðgang að í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). 

  Um sæfivörur gildir reglugerð (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra, sem innleidd er í íslenska löggjöf með reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur. 

  Ef þú ert ekki viss um hvort varan sem þú vilt flytja inn eða út er sæfivara ættir þú að skoða vefsíðuna Er varan sæfivara? og upplýsingar um löggjöfina á síðunni Sæfivörur.

  Innflutningur á sæfivörum

  Flutningur sæfivöru inn á Evrópska efnahagssvæðið telst vera "markaðssetning vöru" samkvæmt sæfivörureglugerðinni, þegar ætlunin er að sæfivörunni verði dreift eða hún notuð innan EES. Þú verður að sjá til þess að sæfivaran, sem þú ætlar að flytja til Íslands, uppfylli kröfur sæfivörureglugerðarinnar og aðra viðeigandi löggjöf áður en hún er sett á markað eða notuð hér á landi.
  Nánari upplýsingar um hvað þú þarft að gera er að finna á síðunni um að bjóða fram og nota sæfivöru á Íslandi.

  Það er skilningur Umhverfisstofnunar að flutningur sæfivöru inn á sameiginlegt markaðsvæði EES, með það að markmiði að flytja hana þaðan út aftur, sé ekki talin markaðssetning, svo framarlega sem sæfivaran hafi ekki verið í dreifingu eða notkun innan þess. Þetta á þá t.d. við um vöru sem geymd er í vöruhúsi birgis á svæði fyrir vörur sem ætlaðar eru til flutnings út úr EES, en hvorki settar í dreifingu né notkun innan svæðisins. 

  Athugið að reglugerð nr. 888/2015 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH) kann einnig að gilda um innflutning á vörunni, einkum getur það átt við um önnur efni í vörunni en sjálf virku efnin. Nánari upplýsingar um það er að finna á vefsíðunni um REACH.

  Innflutningur á meðhöndluðum vörum

  Flutningur á meðhöndluðum vörum inn á Evrópska efnahagssvæðið er flokkuð sem "markaðssetning vöru" samkvæmt sæfivörureglugerðinni, ef ætlunin er að dreifa eða nota meðhöndluðu vöruna innan EES. Þú verður að sjá til þess að meðhöndlaða varan, sem þú ætlar að setja á markað eða nota hér á landi, uppfylli kröfur sæfivörureglugerðarinnar áður en hún er notuð eða sett á markað.

  Nánari upplýsingar um það hvað þú þarft að gera er að finna á vefsíðunni um meðhöndlaðar vörur.
   
  Það er skilningur Umhverfisstofnunar að flutningur meðhöndlaðrar vöru inn á sameiginlegt markaðsvæði EES, með það að markmiði að flytja hana þaðan út aftur, sé ekki talin markaðssetning, svo framarlega sem meðhöndlaða varan hafi ekki verið í dreifingu eða notkun innan þess. Þetta á þá t.d. við um meðhöndlaða vöru sem geymd er í vöruhúsi birgis á svæði fyrir vörur sem ætlaðar eru til flutnings út af EES en hvorki settar í dreifingu né notkun innan svæðisins. 
   
  Athugið að reglugerð nr. 888/2015 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH) kann einnig að gilda um innflutning á meðhöndluðum vörum. Nánari upplýsingar um það er að finna á vefsíðunni um REACH.

  Útflutningur á sæfivörum eða meðhöndluðum vörum

  Ef þú ert að flytja út sæfivöru eða meðhöndlaða vöru frá Íslandi til lands á Evrópska efnahagssvæðinu, verður hún að uppfylla reglur Evrópu¬sambandsins, sem og aðra löggjöf í móttökulandinu eftir því sem við á. Athugaðu að á Íslandi gilda ekki allar reglur ESB um efni, heldur eingöngu þær sem hafa verið teknar inn í EES-samninginn og því er mikilvægt að kynna sér hvað gildir í móttökulandinu, af því að þar geta verið sérreglur í gildi, sem varða sæfivörur og meðhöndlaðar vörur.

  Ef þú ert að flytja sæfivöru eða meðhöndlaða vörur beint frá Íslandi til lands utan EES  gilda kröfur sæfivörureglugerðarinnar ekki, en þar kann að vera til staðar hliðstæð löggjöf sem þarf að uppfylla og mikilvægt að kanna það.

  Til þess að vara sé undanþegin kröfum sæfivörureglugerðarinnar má engin afhending vörunnar (dreifing eða notkun) eiga sér stað innan Íslands eða annars lands þar sem sæfivörureglugerðin gildir áður en varan er flutt út. 

  Sjá einnig :

   
  Sæfivörur eru notaðar af starfsmönnum og fagfólki á vinnustöðum og af almenningi á heimilum.

  Sæfivörur eru notaðar til að verjast hættulegum eða óæskilegum lífverum á mjög víðu sviði og mikilvægt er að sjá til þess að þær séu notaðar á öruggan hátt, án þess að valda tjóni á heilsu eða umhverfi.

  Hver sá sem notar sæfivöru er ábyrgur fyrir því að nota hana rétt og á áhrifaríkan hátt.

  Hvernig verjumst við án þess að nota sæfivörur

  Það eru til margar leiðir til að hafa stjórn á skaðlegum lífverum án þess að sæfivörur komi við sögu, allt eftir því hvaða vanda er verið að glíma við. Hér eru nokkur dæmi:
  • Nota gildrur til að veiða meindýr í stað útrýmingarefna.
  • Koma í veg fyrir að lífverurnar komist inn í hús með því að loka aðkomuleiðum.
  • Sjá til þess að viðhald sé gott og svæðum sé haldið hreinum og þurrum.
  • Nota hita til að verjast óæskilegum lífverum, t.d. gufu til sótthreinsunar eða frystingu til að farga veggjalús.

  Almenningur sem notandi

  Sæfivörur til notkunar af almenning inni á heimilum eru leyfðar sérstaklega til þess, sem þýðir að sá sem notar slíkar vörur þarf enga sérstaka þjálfun. Þetta felur þó í sér að fylgja þarf upplýsingum og leiðbeiningum á merkingum vörunnar til þess að hún sé notuð á öruggan og áhrifaríkan hátt. Þú verður alltaf að lesa leiðbeiningarnar á miðanum og ganga úr skugga um að þú hafir skilið þær og fylgt til hins ítrasta við notkun vörunnar.

  Margar sæfivörur eru eingöngu ætlaðar fyrir fagmenn til að nota í iðnaði og þá þarf viðkomandi að hafa fengið þjálfun og fræðslu til að nota vöruna. Fyrir sumar vörur eins og t.d. í vöruflokknum varnir gegn meindýrum þarf viðkomandi fagmaður að hafa sótt sérstök námskeið og fengið útgefið leyfi til að kaupa og nota sæfivörurnar. Almenningur á aldrei að nota sæfivörur sem eingöngu eru leyfðar fyrir notkun fagmanna.

  Notkun í atvinnuskyni og fagmenn

  Fagmenn eða þeir sem eru notendur í atvinnuskyni, eru þeir sem nota sæfivörur í starfi sínu og hafa fengið sérstaka þjálfun og fræðslu í notkun þeirra.

  Fræðslan þarf m.a. að ná til atriða eins og löggjafar sem gildir um sæfivörur, réttrar notkunar og hvernig eigi að meta áhættu við notkun þeirra. Sá sem notar sæfivöru í atvinnuskyni ber skylda til að skipuleggja notkunina,  leggja mat á áhættu samfara notkuninni og hvort hægt sé að leysa vandamálið með aðferðum sem ekki byggjast á notkun efna.

  Einstaklingar sem nota varnarefni í atvinnuskyni vegna starfa sinna við eyðingu meindýra þurfa notendaleyfi fyrir útrýmingarefnum frá Umhverfisstofnun. Skilyrði fyrir útgáfu notendaleyfis er m.a. að viðkomandi hafi lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um meðferð útrýmingarefna og staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans. Dreifingaraðili sem markaðssetur útrýmingarefni til notkunar í atvinnuskyni skal tilgreina ábyrgðaraðila innan fyrirtækisins, sem skal vera til taks þegar sala fer fram og veita viðskiptavinum fullnægjandi upplýsingar um notkun efnanna og áhættu fyrir heilbrigði og umhverfið. Nafngreindur ábyrgðaraðili skal hafa lokið námi eða námskeiði sem Umhverfisstofnun metur gilt.

  Ýmsir ráðgjafar og þjónustuaðilar í fræðslustarfsemi eru til þess bærir að bjóða upp á námskeið og fræðslu fyrir fagmenn. 

  Bestu starfsvenjur

  Áður en þú kaupir sæfivörur ættir þú alltaf að velta þessum atriðum fyrir þér:
  • Er vandamálið þess eðlis að ég þurfi að bregðast við?
  • Get ég leyst vandamálið án þess að nota efni?
  • Á ég nú þegar til einhverja sæfivöru sem ég get notað og sloppið þannig við að kaupa nýja?
  • Ef ég þarf að kaupa nýja vöru, þá á ég ekki að kaupa meira en ég þarf að nota.

  Er varan leyfð?

  Það er mikilvægt að skoða hvort vara hafi verið leyfð áður en hún er notuð. Upplýsingar um leyfðar vörur er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar. 

  Hvaða upplýsingar finnur þú á merkimiðanum?

  Miðinn inniheldur upplýsingar og leiðbeiningar sem þarf að fylgja þannig að hægt sé að nota sæfivöruna á öruggan og áhrifaríkan hátt. Þú verður alltaf að lesa á miðann og ganga úr skugga um að þú hafir skilið leiðbeiningarnar áður en notkun hefst og fylgja þeim svo vandlega.

  Miðinn á að innihalda eftirfarandi upplýsingar:

  • Leyfisnúmer, sem lögbært yfirvald eða framkvæmdastjórnin úthlutar fyrir sæfivöruna (IS-XXXXXXX-ZZZZ). Þú ættir að skrá hjá þér leyfisnúmerið og heiti virku efnanna í vörunni og hafa tiltækt til að geta fengið sem besta aðstoð ef slys verður eða eitthvað ber útaf við notkunina.
  • Fyrir hvaða notkun sæfivaran er leyfð, t.d. eingöngu ætlað til notkunar sem viðarvörn. Sæfivöru má aldrei nota í öðrum tilgangi en þeim sem hún hefur verið leyfð fyrir.
  • Upplýsingar um fyrir hvaða notendur varan er leyfð, t.d.
           o Varan er leyfð fyrir notkun almennings.
           o Varan er ætluð til notkunar fagmanna. Þá er átt við að notkun sé eingöngu í höndum fagmanna sem noti vöruna í starfi sínu og sem hafa fengið til þess viðeigandi þjálfun og fræðslu svo varan sé notuð á öruggan hátt.
  • Hvort möguleg hætta geti stafað af vörunni eða notkun hennar.
  • Upplýsingar um hvort nota þurfi persónuhlífar eða sérstök tæki eða tól við notkun hennar.
  • Hvernig nota eigi vöruna þannig að hún valdi ekki þér sem notanda, öðru fólki, dýrum eða umhverfinu tjóni.
  • Hvort takmarka þurfi aðgengi að því svæði þar sem varan hefur verið notuð.
  • Hvernig nota eigi sæfivöruna þannig að notkun hennar beri tilætlaðan árangur.
  • Hvernig farga eigi vörunni og umbúðum hennar.

  Sé leiðbeiningum á vörunni fylgt, ætti ekki að stafa hætta af henni. Ef þér líður illa eftir að hafa notað sæfivöru ættirðu að leita til læknis eða Eitrunarmiðstöðvar LSH.

  Geymsla

  Sæfivörur á alltaf að geyma í upprunalegum ílátum, ekki bara vegna þess að það sé öruggara heldur líka vegna þess að þannig eru kröfur regluverksins uppfylltar.
  Þegar þú hefur lokið notkun sæfivöru þarftu að ganga úr skugga um að pakkningum sé lokað vandlega þannig að ekki leki úr þeim. Sæfivörur á að geyma á öruggum stað þar sem börn og gæludýr ná ekki til. Vörur sem ætlaðar eru til útrýmingar meindýra og eingöngu leyfðar til notkunar í atvinnuskyni, á að geyma í læstum hirslum eða rými sem eru greinilega auðkennd með viðeigandi varnaðarorðum eins og „Varúð“, „Eitur“.

  Förgun

  Ef þú notar sæfivörur berð þú ábyrgð á að umbúðum og leifum af þeim sé fargað á viðeigandi hátt. Skoðaðu merkimiðann varðandi ráð um förgun vörunnar og umbúða hennar. Ef þú ert ekki viss um hvernig á að farga sæfivöruúrgangi, getur þú fengið ráð hjá endurvinnslu eða móttökustöð í þínu sveitarfélagi.
  Fagmenn þurfa að kynna sér hjá viðkomandi móttökuaðilum hvernig farga á leifum af sæfivörum og tómum ílátum.
   
  Sjá einnig :
  Sæfivörureglugerðin fjallar ekki bara um sæfivörur heldur líka um allar vörur sem hafa verið meðhöndlaðar með eða innihalda sæfivörur. Vörur má einungis meðhöndla með virkum efnum sem hafa verið samþykkt til notkunar í sæfivörum. Þetta þarf sérstaklega að hafa í huga þegar vara er flutt inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem þær vörur hafa hugsanlega verið meðhöndlaðar með virkum efnum sem ekki eru leyfð samkvæmt sæfivörureglugerðinni. 
    
  Sá sem flytur meðhöndlaða vöru inn á EES eða framleiðir slíka vöru, sem ætlunin er að bjóða fram og nota innan EES, er ábyrgur fyrir því að varan sé hvorki hættuleg heilsu manna né umhverfinu. Jafnframt er hann ábyrgur fyrir því að merking vörunnar sé rétt og í samræmi við kröfur sæfivörureglugerðarinnar. 
    

  Hvað er meðhöndluð vara og hvernig veistu hvort varan er meðhöndluð vara eða sæfivara? 

  Meðhöndluð vara (e. treated article) er í sæfivörureglugerðinni skilgreind sem sérhvert efni, blanda eða vara, sem hefur verið meðhöndluð með einni eða fleiri sæfivörum eða sem inniheldur af ásettu ráði eina eða fleiri sæfivörur. Tilgangurinn er að verja vöruna fyrir lykt, rotnun eða óæskilegum breytingum af völdum baktería, sveppa, þörunga eða meindýra. 
   
   
  Dæmi: 
   Flokkast gámur, sem notaður er til geymslu og flutninga, sem meðhöndluð vara ef hann hefur verið meðhöndlaður með sótthreinsiefni?  
  • Nei, þar sem sótthreinsiefninu er ætlað að virka gegn óþrifum á því augnabliki sem það er notað en ekki í þeim tilgangi að breyta hlutverki gámsins, flokkast hann ekki sem meðhöndluð vara. 
   Flokkast sófi sem meðhöndluð vara ef viðargrind sófans hefur verið meðhöndluð með rotvarnarefni, sem fellur undir sæfivörureglugerðina? 
  •  Já, jafnvel þó einungis einn þáttur í samsettri vöru eins og sófa innihaldi sæfivöru flokkast hann sem meðhöndluð vara.  
    
  Vara telst ýmist vera sæfivara eða meðhöndluð vara eftir því hvort eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:   
  • Ef sæfivaran, sem varan er meðhöndluð með, er notuð til að ná fram ákveðinni virkni sem er frumtilgangur vörunnar telst hún vera sæfivara. 
  •  Ef sæfivaran, sem varan er meðhöndluð með, er notuð til að ná fram ákveðinni virkni sem er ekki eiginlegur tilgangur vörunnar, telst hún vera meðhöndluð vara, t.d. málning, lakk, fatnaður, skór, teppi eða sturtuhengi. 
   Taflan hér að neðan sýnir dæmi um hvernig Umhverfisstofnun túlkar hvað er meðhöndluð vara og hvað er sæfivara. 
   
   
   

  Hvaða kröfur eru gerðar til meðhöndlaðrar vöru?  

   Kröfurnar sem gerðar eru til meðhöndlaðrar vöru koma fram í 58 gr. reglugerðar (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra, og eiga við um meðhöndlaðar vörur sem ekki teljast sjálfar vera sæfivörur. Sé meðhöndlaða varan sjálf sæfivara, þ.e. fyrst og fremst með sæfandi hlutverk, þá þarf hún að uppfylla kröfurnar sem eiga við um sæfivörur, sjá nánari upplýsingar um hvað þú þarft að gera á síðunni um að bjóða fram og nota sæfivöru. (Krækja í skjalið „Sala sæfivöru“, sem fylgir í viðhengi) 
   
  Sæfivörureglugerðin bannar að settar séu á markað aðrar meðhöndlaðar vörur en þær sem innihalda virk efni sem hafa verið samþykkt í viðkomandi vöruflokki og notkun þeirra þarf að vera í samræmi við þau skilyrði og takmarkanir sem gilda um virka efnið. 
   
  Framleiðendur, innflytjendur og aðrir sem setja meðhöndlaða vöru á markað eru ábyrgir fyrir því að á merkingum komi fram viðeigandi upplýsingar í samræmi við fullyrðingar framleiðanda um sæfandi eiginleika vörunnar og þau skilyrði sem samþykki virka efnisins er háð.  
    
  Auk þess að merkja vöruna, skal birgir meðhöndlaðrar vöru veita neytanda upplýsingar um meðhöndlun vörunnar með sæfivöru innan 45 daga frá því að eftir því var óskað, honum að kostnaðarlausu. 
   

  Merkingar á meðhöndluðum vörum, hvenær á að merkja og hvaða upplýsingar eiga að koma fram 

  Framleiðendur, innflytjendur og aðrir sem setja meðhöndlaða vöru á markað eiga að merkja hana sem slíka ef: 
   Þeir fullyrða að varan hafi sæfandi eiginleika.
  • Skilyrði fyrir samþykki virka efnisins (efnanna) sem notuð eru til að meðhöndla vöruna krefjast sérstakrar merkingar til að vernda heilsu manna eða umhverfið. 
   Eftirfarandi upplýsingar eiga að koma fram á meðhöndluðu vörunni:  
   
  a) Yfirlýsing um að varan innihaldi sæfivörur.  
  b) Sæfandi eiginleikar sem vörunni eru eignaðir, ef færð eru rök fyrir þeim.  
  c) Heiti allra virku efnanna í sæfivörunni, sem varan var meðhöndluð með.  
  d) Heiti allra nanóefna í sæfivörunni, sem varan var meðhöndluð með ásamt orðinu „nanó“ í sviga á eftir.  
  e) Allar viðeigandi notkunarleiðbeiningar, þ.m.t. allar varúðarráðstafanir sem gera þarf vegna sæfivaranna sem varan var meðhöndluð með eða sem hún inniheldur. 
   

  Hver á að merkja meðhöndlaða vöru? 

  Sá sem setur meðhöndlaða vöru á markað er ábyrgur fyrir réttri merkingu hennar og almenni skilningurinn er, að sá sem fyrst markaðssetur vöruna sé ábyrgur fyrir merkingu hennar. Ef meðhöndluð vara er síðan notuð í flóknari vöru, t.d. viðargrind með viðvarvörn notuð til að framleiða sófa, þá er fyrirtækið sem markaðssetur flóknari vöruna (sófann) ábyrgt fyrir því að vara þess uppfylli kröfurnar um merkingu. 
   

  Hver er staða virku efnanna í þinni vöru? 

  Áður en þú setur meðhöndlaða vöru á markað á Íslandi þarftu að ganga úr skugga um að virka efnið sé annað hvort samþykkt fyrir viðkomandi vöruflokk eða í áhættumati fyrir hann. Hægt er að fletta upp upplýsingum um stöðu virka efnisins á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu
    

  Nánari leiðbeiningar um meðhöndlaða vöru 

   
  Evrópusambandið hefur gefið út mjög góðar leiðbeiningar þar sem farið er nánar í þau atriði sem varða meðhöndlaðar vörur. Þar eru útskýrð atriði eins og hvert sé hlutverk vörunnar og nánar farið í þau atriði sem varða merkingar hennar. 
   

  Sjá einnig :

   Dæmi um virk efni í meðhöndluðum vörum 

   
   

  Sæfivörur til sótthreinsunar þurfa markaðsleyfi!

  Sæfivörur (biocides) eru efnavörur sem innihalda eitt eða fleiri virk efni sem ætlað er að eyða skaðlegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar með efna- eða líffræðilegum aðferðum. Sótthreinsiefni, sem eru boðin til sölu eða notuð á Íslandi, mega nú eingöngu innihalda virk efni, sem eru í áhættumati eða hafa verið samþykkt fyrir þann vöruflokk sem um ræðir (sjá yfirlit yfir vöruflokka). Þegar öll virk efni í vörunni hafa verið samþykkt fyrir þann vöruflokk sem hún fellur í þarf að sækja um markaðsleyfi fyrir vöruna. 

  Fyrstu virku efnin fyrir þennan vöruflokk voru samþykkt árið 2014 og áætlað er að áhættumati allra virkra efna, sem falla undir hann, verði lokið árið 2019. Eftir því sem fleiri virk efni eru samþykkt, þurfa fleiri sæfivörur markaðsleyfi og því eru þessar reglur smám saman að hafa meiri áhrif á markaðssetningu vörutegunda á Íslandi.  

  Nú þegar þurfa margar sæfivörur, sem falla í aðalflokk 1, sótthreinsiefni, markaðsleyfi en áætlað er að árið 2021 eigi allar þessar vörur að vera komnar með markaðsleyfi. Þegar virkt efni til notkunar í sæfivörum hefur verið samþykkt, skal sækja um markaðsleyfi fyrir þeim vörum sem innihalda umrætt virkt efni eða að öðrum kosti, að taka þær úr sölu og hætta notkun þeirra.

  Sæfivörur skiptast í 4 aðalflokka; sótthreinsiefni, rotvarnarefni, sæfivörur til að nota við varnir gegn meindýrum og aðrar sæfivörur.
  Undir aðalflokk 1, sótthreinsiefni, falla 5 vöruflokkar sem eru:

  1. Hreinlætisvörur fyrir fólk.
  2. Sótthreinsiefni og þörungaeyðar sem ekki eru ætluð til þess að bera beint á menn eða dýr.
  3. Vörur sem notaðar eru til hreinlætis fyrir dýr.
  4. Vörur sem notaðar eru við sótthreinsun svæða fyrir matvæli og fóður.
  5. Vörur sem notaðar eru við sótthreinsun drykkjarvatns.

  Sæfivörureglugerðin hefur einnig í för með sér að birgjar sem selja virk efni til framleiðslu á sótthreinsivörum þurfa að vera á lista ESB yfir birgja sem eru samþykktir fyrir virk efni innan þess vöruflokks sem sótthreinsiefnið tilheyrir.

  Reglugerð um sæfivörur er hluti af því regluverki sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og er því innleidd í heild sinni hér á landi. Ísland er lítið markaðssvæði og því viðbúið að þessar breytingar muni hafa talsverð áhrif á vöruúrval hér á landi.

  Samþykkt virk efni og vörur með markaðsleyfi

  Listi yfir samþykkt virk efni:
  Listi ECHA yfir samþykkt virk efni, sjá hér og hér
  Listi yfir vörur með markaðsleyfi 
  Listi ECHA yfir vörur með markaðsleyfi 

  Bönnuð virk efni:

  Listi yfir bönnuð virk efni.
  Listi ECHA yfir bönnuð virk efni, sjá hér og hér

   Sjá einnig :

   

  Sæfivörur notaðar til að rotverja þurfa markaðsleyfi!

  Sæfivörur (biocides) eru efnavörur sem innihalda eitt eða fleiri virk efni, sem ætlað er að eyða skaðlegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar með efna- eða líffræðilegum aðferðum. Rotvarnarefni, sem eru boðin til sölu eða notuð á Íslandi, mega nú eingöngu innihalda virk efni, sem eru í áhættumati eða hafa verið samþykkt fyrir þann vöruflokk sem um ræðir (sjá yfirlit yfir vöruflokka). Þegar öll virk efni í vörunni hafa verið samþykkt fyrir vöruflokkinn sem hún fellur í, þarf að sækja um markaðsleyfi fyrir henni.  

  Fyrstu virku efnin fyrir þennan vöruflokk voru samþykkt árið 2009 og áætlað er að áhættumati allra virkra efna, sem falla undir hann, verði lokið árið 2024. Eftir því sem fleiri virk efni eru samþykkt, þurfa fleiri sæfivörur markaðsleyfi og því eru þessar reglur smám saman að hafa meiri áhrif á markaðssetningu vörutegunda á Íslandi.   

  Nú þegar þurfa margar sæfivörur, sem falla í aðalflokk 2, rotvarnarefni, markaðsleyfi en áætlað er að árið 2025 eigi allar þessar vörur að vera komnar með markaðsleyfi ásamt vörum í aðalflokki 4, aðrar sæfivörur. Þegar virkt efni til notkunar í sæfivörum hefur verið samþykkt, skal sækja um markaðsleyfi fyrir þeim vörum sem innihalda umrætt virkt efni eða að öðrum kosti, að taka þær úr sölu og hætta notkun þeirra. 
   
  Sæfivörur skiptast í 4 aðalflokka; sótthreinsiefni, rotvarnarefni, varnir gegn meindýrum og aðrar sæfivörur.
   

  Undir aðalflokk 2, rotvarnarefni, falla 8 vöruflokkar sem eru: 

  6. Rotvarnarefni fyrir vörur á meðan á geymslu stendur.
  7. Rotvarnarefni fyrir yfirborðsfilmu.
  8. Viðarvarnarefni.
  9. Rotvarnarefni fyrir trefjar, leður, gúmmí og fjölliðuð efni.
  10. Rotvarnarefni fyrir byggingarefni.
  11. Rotvarnarefni fyrir vökvakæli- og vinnslukerfi. 
  12. Slímvarnarefni.
  13. Rotvarnarefni fyrir vökva sem eru notaðir við vinnslu eða skurð.

  Undir aðalflokk 4, aðrar sæfivörur, falla 2 vöruflokkar sem eru:

  21. Gróðurhindrandi vörur
  22. Vökvar til notkunar við líksmurningu og uppstoppun.

  Sæfivörureglugerðin hefur einnig í för með sér að birgjar sem selja virk efni til framleiðslu á rotvörðum vörum þurfa að vera á lista ESB yfir birgja sem eru samþykktir fyrir virk efni innan þess vöruflokks sem hin rotvarða vara tilheyrir.
   
  Reglugerð um sæfivörur er hluti af því regluverki sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og er því innleidd í heild sinni hér á landi. Ísland er lítið markaðssvæði og því viðbúið að þessar breytingar muni hafa áhrif á vöruúrval hér á landi.

  Samþykkt virk efni og vörur með markaðsleyfi

  Listi yfir samþykkt virk efni:

  Listi ECHA yfir samþykkt virk efni, sjá hér og hér
   

  Bönnuð virk efni

  Listi yfir bönnuð virk efni:
   
  Listi ECHA yfir bönnuð virk efni, sjá hér og hér  )
   

  Sjá einnig :

   

  Sæfivörur notaðar við varnir gegn meindýrum þurfa markaðsleyfi!

  Sæfivörur (biocides) eru efnavörur sem innihalda eitt eða fleiri virk efni sem ætlað er að eyða skaðlegum lífverum, bægja þeim frá eða gera þær skaðlausar með efna- eða líffræðilegum aðferðum. Sæfivörur sem ætlaðar eru til varna gegn meindýrum, sem eru boðin til sölu eða notuð á Íslandi, mega nú eingöngu innihalda virk efni, sem eru í áhættumati eða hafa verið samþykkt fyrir þann vöruflokk sem um ræðir (sjá yfirlit yfir vöruflokka). Þegar öll virk efni í vörunni hafa verið samþykkt fyrir vöruflokkinn sem hún fellur í, þarf að sækja um markaðsleyfi fyrir henni.  
  Fyrstu virku efnin fyrir þennan vöruflokk voru samþykkt árið 2009 og áætlað er að áhættumati allra virkra efna, sem falla undir hann, verði lokið árið 2024. Eftir því sem fleiri virk efni eru samþykkt þurfa fleiri sæfivörur markaðsleyfi og því eru þessar reglur smám saman að hafa meiri áhrif á markaðssetningu vörutegunda á Íslandi.   

  Nú þegar þurfa margar sæfivörur, sem falla í flokkinn varnir gegn meindýrum, markaðsleyfi en áætlað er að árið 2025 eigi allar þessar vörur að vera komnar með markaðsleyfi. Þegar virkt efni til notkunar í sæfivörum hefur verið samþykkt, skal sækja um markaðsleyfi fyrir þeim vörum sem innihalda umrætt virkt efni eða að öðrum kosti, að taka þær úr sölu og hætta notkun þeirra. 

  Sæfivörur skiptast í 4 aðalflokka; sótthreinsiefni, rotvarnarefni, varnir gegn meindýrum og aðrar sæfivörur.

  Undir aðalflokk 3, varnir gegn meindýrum, falla 7 vöruflokkar sem eru:

  14. Nagdýraeitur.
  15. Fuglasæfar.
  16. Lindýraeitur, ormaeitur og vörur til að verjast öðrum hryggleysingjum.
  17. Fiskisæfar.
  18. Skordýraeitur, mítlasæfar og vörur til að verjast öðrum liðdýrum.
  19. Fæliefni og löðunarefni.
  20. Vörn gegn öðrum hryggdýrum.

  Sæfivörureglugerðin hefur einnig í för með sér að birgjar sem selja virk efni til framleiðslu á vörum til varna gegn meindýrum þurfa að vera á lista ESB yfir birgja sem eru samþykktir fyrir virk efni innan þeirrar vörutegundar sem varan tilheyrir.

  Reglugerð um sæfivörur er hluti af því regluverki sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og er því innleidd í heild sinni hér á landi. Ísland er lítið markaðssvæði og því viðbúið að þessar breytingar muni hafa talsverð áhrif á vöruúrval hér á landi.

  Samþykkt virk efni og vörur með markaðsleyfi

  Listi yfir samþykkt virk efni:
  Listi ECHA yfir samþykkt virk efni, sjá hér og hér
  Listi yfir vörur með markaðsleyfi 
  Listi ECHA yfir vörur með markaðsleyfi 

  Listi yfir bönnuð virk efni:
  Listi ECHA yfir bönnuð virk efni, sjá hér og hér 

  Sjá einnig :

   
  Mynd sem fylgir - Rauði listinn

  Rauði listinn

  Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
  Meira

  Vinsælar síður

  An exception occurred: Invalid column name 'orderby'.