Umhverfistofnun - Logo

Garðaúðun

Í byrjun sumars á hverju ári fer að bera á hinum ýmsu skordýrum í görðum landsmanna og í flestum tilfellum eru þau gagnleg, en geta þó stundum verið skaðleg og valdið skemmdum á gróðri. Þá geta ýmsir sveppasjúkdómar og í sumum tilfellum bakteríur herjað á garðagróður og einnig valdið skemmdum á honum og þar eru ryðsveppir á víði og ösp m.a. áberandi.

Ákveðnar plöntutegundir eru einnig í vissum tilfellum taldar óæskilegar, ekki endilega vegna þess að þær valdi beinum skemmdum á öðrum garðagróðri, heldur vaxa þær í samkeppni við hann og keppa hann um pláss, næringu og birtu. Þetta köllum við illgresi og finnst það einfaldlega ekki eiga heima á ákveðnum stöðum og má þar nefna arfa í beðum, fífla eða annan gróður í hellulögnum og gangstéttum og jafnvel gras er talið illgresi við þessar að stæður. 

Margir garðeigendur spyrja sig: Þarf ég að láta „eitra“ hjá mér? Hér eru nokkur atriði sem garðeigandinn getur haft til hliðsjónar til þess að stuðla að því að sem minnst röskun verði á lífríki garðsins og jafnframt að viðkvæmur gróður sé varinn fyrir  skemmdum af völdum skaðvaldanna. 

Mikilvægt er að átta sig á því að skordýraeyðar drepa öll skordýr sem þeir lenda á, hvort sem þau eru skaðleg eða gagnleg. Hin gagnlegu skordýr lifa oft á tíðum á meindýrunum sem eru að hrjá plönturnar okkar og leggja okkur því lið í baráttunni gegn þeim, auk þess sem þau geta sjálf verið fæða fyrir önnur dýr. Mörg skordýr eru mikilvæg fæða fyrir garðfugla og með því að úða gegn þeim erum við að draga úr fæðuframboði fyrir fuglana sem við viljum gjarnan hafa í kringum okkur. 

Svipaða sögu má segja af illgresiseyðum, en margir þeirra drepa einnig annan gróður heldur en þann sem ætlað er að útrýma. Þannig getur úðun haft neikvæð áhrif á þann gróður sem við viljum hafa í garðinum. Þó eru til sérvirkir illgresiseyðar og þarf því að vanda vel val á illgresiseyðum ef gripið er til notkunar á þeim. Lífríki garðsins er þannig samofið og með úðun erum við að grípa óþyrmilega inn í gang náttúrunnar. 

Margar trjá- og runnategundir sem verða fyrir skemmdum af völdum meindýra ná sér aftur á strik þótt ekkert sé úðað vegna þess að ný laufblöð vaxa fram og fela þau sem hafa skemmst. Þetta á til dæmis við um birki. Aðrar tegundir geta aftur á móti orðið fyrir miklum skemmdum af völdum meindýra sem þær ráða ekki við að lagfæra og því reynist í vissum tilfellum nauðsynlegt að beita úðun til að verja þær. Mikilvægt er þá að úða einungis þær tegundir sem bera meindýr eða sjúkdóma til þess að raska sem minnst vistkerfi garðsins. 
Í sumum tilfellum getur verið gagnslaust að úða þó svo að meindýrin séu sýnileg vegna þess að þau geta vafið sig inn í laufblöð og sum þeirra lifa inni í laufblöðum og hola þau að innan eins og t.d. birkikemba og birkiþéla sem herja á birki. Ef um er að ræða sveppasjúkdóma getur oft á tíðum reynst erfitt að beita úðun með sveppaeyðum vegna þess að sveppirnir lifa oft inn í plöntuhlutum eða laufblöðum og verða ekki sýnilegir fyrr en seint á lífsferli sínum t.d. eins og ryðsveppir í ösp og víði og mjöldögg á ýmsum tegundum af toppum. 
Á undanförnum árum hafa ný meindýr verið að skjóta upp kollinum hér á landi og verið að valda skemmdum á gróðri í görðum. Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands og Skógræktarinnar má finna ítarefni um hin ýmsu skordýr og skaðvalda.

Pödduvefur Náttúrufræðistofnunar Íslands
Skaðvaldavefur Skógræktarinnar

Hvernig á að bregðast við þegar garðaúðarinn birtist og býður þjónustu sína?

  • Kanna hvort viðkomandi sé með leyfi til garðaúðunar og geti framvísað gildu notendaleyfi frá Umhverfisstofnun.
  • Meta þörf fyrir úðun áður en hafist er handa. Garðeigandinn ætti sjálfur að fara út í garðinn og taka þátt í matinu þannig að hann upplifi ástandið í eigin persónu.
  • Ef skoðun leiðir í ljós skemmdir á gróðri en lítið sem ekkert sést af skaðvöldum, þá er orðið of seint að úða og í raun og veru hreinlega skaðlegt vegna þess að með því er verið að drepa saklaus nytjadýr, auk þess sem laufblöðin á plöntunum láta oft á sjá eftir úðun.
  • Ef hvorki sjást skemmdir né skaðvaldar á gróðri er sömuleiðis gangslaust að úða, þá hefur e.t.v. maðkurinn enn ekki klakist út og virka efnið nær því ekki til hans. Rétti tíminn til þess að bregðast við er því mjög skammur og mikilvægt að fylgjast vel með og grípa til aðgerða á hárréttum tíma.

Til hvaða aðgerða er hægt að grípa sem gyggjast ekki á notkun efna?

  •  Í baráttunni við illgresið er handhægast að nota ýmis verkfæri til að uppræta það eða einfaldlega reita með handafli.
  • Sum skordýr eru þannig að mögulegt er að tína þau af plöntunum t.d. lirfum á berjarunnum, en önnur allt of lítil til þess að það sé hægt, t.d. blaðlýs.
  • Til varnargegn sveppasjúkdómum er mikilvægt að velja réttan efnavið því sumar tegundir plantna hafa myndað ákveðið þol gegn sjúkdómum. Eins skiptir hreinlæti mjög miklu máli ef notuð eru áhöld í garðverkin.
  • Sumir sveppasjúkdómar þurfa að nýta sér fleiri en eina plöntutegund sem hýsil til þess að vaxa og í þeim tilfellum er ekki ráðlegt að hafa þær plöntutegundir saman í garðinum. Á þetta við t.d. lerki og ösp þar sem ryðsveppurinn þarf á báðum þessum tegundum að halda fyrir lífsferil sinn.

Látum náttúruna njóta vafans og notum skordýraeitur bara þegar nauðsyn ber til!