Umhverfistofnun - Logo

Börn

Allt í kringum okkur eru ýmis efni og verðum við fyrir mismunandi áhrifum vegna þeirra. Börn eru mun næmari fyrir efnum í umhverfinu en fullorðnir og því getur verið mikilvægt að varast skaðleg efni á meðgöngu. Því miður geta vörur fyrir börn innihaldið efni sem geta verið skaðleg heilsu og umhverfi og því er best að kynna sér innihaldsefni og læra að þekkja þau sem á að varast. Auk þess skal ekki hika við að spyrja starfsfólk verslana um umhverfisvottaðar vörur.

  • Notaðu eins lítið af snyrtivörum og kremi og hægt er, til að forðast efni sem geta valdið ofnæmi eða hormónaröskunum.
  • Slepptu ilmvatninu og reyndu að nota ilmefnalausar vörur, til að forðast ofnæmisvaka.
  • Kauptu umhverfisvottaðar vörur þegar slíkt er í boði. Þegar þú kaupir umhverfismerkta vöru getur þú verið viss um góð gæði og einnig að varan skaði hvorki þig né barnið þitt. Svanurinn og Evrópublómið eru umhverfismerki sem má finna á vörum og þýðir að varan er framleidd með tilliti til umhverfis og heilsu.
  • Ekki lita hárið, þannig getur þú forðast ofnæmisvaldandi efni.
  • Forðastu að nota vörur í úðabrúsum og málningu vegna þess að þú getur andað að þér efnisögnum sem geta verið skaðleg.

Bleyjur og blautklútar

Áætlað hefur verið að hvert barn noti að meðaltali um 5000 bleyjur á fyrstu árum ævinnar. Því er eðlilegt að foreldrar skoði hvað er best fyrir barnið en um leið hvað er gott val fyrir umhverfið og fjárhaginn. Notkun á bæði einnota pappírsbleyjum og margnota taubleyjum hefur í för með sér neikvæð umhverfisáhrif.

Áhrif pappírsbleyja á umhverfið má rekja til notkunar auðlinda við framleiðslu þeirra og þess úrgangs sem fellur til við notkun þeirra. Pappírsbleyjur eru samsettar úr rakadrægu efni að innan og þunnu, vatnsheldu ytra lagi úr plasti. Mörg efni eru notuð við framleiðslu þeirra eins og t.d. sellulósakvoða, bómull, plastefni, lím, ilm- og litarefni.

Umhverfisáhrif taubleyja eru hins vegar einkum að finna í vatns- og rafmagnsnotkun og losun mengandi efna í vatn. Ef umhverfisáhrifin eru skoðuð út frá Íslandi eru þau mun minni þar sem raforkan okkar telst græn. Ef síðan taubleyjur eru þvegnar á réttan hátt og umhverfisvottað þvottaefni notað þá er auk þess hægt að minnka umhverfisáhrif taubleyja umtalsvert.

Margar blautþurrkur innihalda bæði ilm- og rotvarnarefni. Rotvarnarefnin paraben geta haft hormónaraskandi áhrif og ýmis ilmefni geta valdið ofnæmi. Svansmerktar blautþurrkur innihalda hvorki paraben né ilmefni.

Snuð, pelar og naghringir geta innihaldið þalöt og Bisfenól-A sem geta valdið röskun á hormónajafnvægi líkamans og haft þannig áhrif á kynþroska og frjósemi. Því er mikilvægt að sneiða hjá slíkum vörum og spyrja afgreiðslufólk.