Umhverfistofnun - Logo

Þalöt

Þalöt (e. phthalates) er hópur efna sem einkum hafa verið notuð til að gefa plasthlutum mýkt. Þau er að finna í mörgum vörutegundum sem við notum daglega.

Af hverju eru þau hættuleg?

Þalöt geta haft skaðleg áhrif á frjósemi og skaðað fóstur. Skaðsemi þalatanna díbútýlþalats (DBP) og bis(2-etýlhexýl)þalats (DEHP) á frjósemi manna hefur verið kunn um áratugaskeið og eru fóstur og nýfædd börn viðkvæmust fyrir þessum efnum. Konur á barneignaraldri sem fá þalöt í líkama sinn, bera það í ófætt barn sitt og getur það skaðað þroska þess. Það á líka við um lítil börn sem eiga eftir að taka út mikinn þroska. Þalöt hafa fundist í brjóstamjólk.

Í hvað eru þau notuð?

  • Plast, PVC (t.d. byggingarefni, gólfefni, fatnað, poka)
  • Gúmmí (t.d. í skóm)
  • Málningu
  • Lím

Styrkur þalatanna BBP, DBP, DEHP, DINP, DIDP og DNOP má ekki vera meiri en sem nemur 0,1% af massa viðkomandi plastefnis í leikföngum og vörum til nota við umönnun barna.

Þalöt brotna misvel niður í umhverfinu. Þau hafa mælst víða og getur lífríkinu á sumum stöðum stafað hætta af þeim. Vegna útbreiddrar notkunar þalata geta þau verið í örlitlu magni í innanhússlofti og eru því alltaf til staðar í líkama manna þó í mjög litlu magni sé.