Umhverfistofnun - Logo

Fatnaður

Vart er hægt að hugsa sér daglegt líf án notkunar vefnaðarvara. Heimili okkar er fullt af allskonar vefnaðarvörum, s.s. fatnaðinum sem við klæðumst, handklæði og rúmföt sem við notum daglega.

Fyrirtæki sem framleiða og flytja inn vefnaðarvörur bera ábyrgð á að vörurnar séu öruggar og valdi ekki skaða, hvorki á heilsu manna eða umhverfi. Þrátt fyrir það er við framleiðslu vefnaðarvara notaður fjöldi efna, hvort sem er við framleiðslu hráefnis eða vöruna sjálfra. Við framleiðslu hráefnisins t.d. bómull eru oft notuð varnarefni, til að koma í veg fyrir skemmdir á plöntunni. Við meðhöndlun hráefnis til framleiðslu nýrra þráða og tilbúinnar vefnaðarvörur eru notuð efni eins og bleikingaefni, litarefni, mýkingaefni og þvottaefni. Áður en varan er send á markað er hún einnig oft meðhöndluð með efnum til að koma í veg fyrir myglu og skemmdir af völdum meindýra.

Það eru ákveðnar reglur í gildi við notkun efna í en þrátt fyrir það eru ennþá notuð efni í vefnaðarvörum sem geta verið hættuleg, og þess vegna er áfram unnið við frekari takmarkanir á notkun slíkra efna við framleiðslu og markaðssetningu vefnaðarvara.

En hvað er vefnaðarvara?

Vefnaðarvörur eru þræðir úr allskonar efnum svo sem ull, bómull og viskósa en einnig tilbúnum trefjum og plastefnum sem hægt er að spinna í þræði. Síðan er vefnaðurinn notaður í allskyns vörur; fatnað, skó, rúmföt, gluggatjöld, garn, gólfteppi, húsgagnaáklæði og tjöld svo eitthvað sé nefnt.

Við framleiðslu þráðanna er notaður fjöldi mismunandi efna til að bæta og breyta eiginleikum vefnaðarins. Þetta eru eiginleikar eins og áferð, mýkt og vatnsfráhrindandi eiginleikar. Þræðirnir geta einnig verið meðhöndlaðir með mismunandi efnum, bæði við framleiðslu þráðanna og seinna við sjálfa vefnaðarframleiðsluna.

Leifar þessara efna geta komist í snertingu við húð þegar við notum vöruna eða þegar við öndum að okkur ryki eða lykt frá vörunni. Einnig geta efnin borist í umhverfið við framleiðslu vefnaðarvaranna og þegar við þvoum þær. Það skiptir því máli fyrir heilsu og umhverfi hvaða efni eru notuð við framleiðslu vefnaðarvörunnar og hvaða efnaleifar eru í hinni tilbúnu vöru.

Fatasóun

Í dag er framleitt gríðarlega mikið af fatnaði. Framleiðslan er ódýr vegna þess að meðal annars er umhverfiskostnaður ekki tekinn inn í verðið við framleiðsluna. Heilmikið af efnavöru og auðlindum þarf til framleiðslu á vefnaði eins og ræktarland, notkun á vatni, skordýraeitri og ýmsu fleiru.

Mikil ofneysla er á fatnaði á Íslandi og öðrum Vesturlöndum og mikið er framleitt af endingarlitlum fatnaði. Hver Íslendingur kaupir rúmlega 17 kg af vefnaðarvöru árlega, sem er um þrisvar sinnum meira en meðal-jarðarbúi. Á hverju ári eru framleiddar um 150 milljarðar flíka sem svarar til 20 flíkum á hvert mannsbarn í heiminum árlega.

En hvert fer allur þessi fatnaður? Hafa þarf í huga að vefnaðarvara er auðlind sem á ekki heima í urðun. Í dag er þó um 60% hent í ruslið og endar annað hvort með því að vera brenndur eða urðaður. Aðeins 40% fer í endurnotkun og endurnýtingu. Næstum allur notaður textíll sem safnast á Íslandi er sendur í flokkunarstöðvar erlendis þaðan sem honum er svo dreift til endursöluaðila eða settur í endurnýtingu. Endurnýting felur í sér að aðrar vefnaðarvörur af verri gæðum eru unnar úr textílnum, svo sem tuskur.  

Nokkur góð ráð

  • Draga úr fatakaupum
  • Kaupa endingarbetri flíkur bæði hvað varðar gæði og hönnun
  • Fá lánað og gefins föt sem aðrir eru hættir að nota
  • Gefa föt til annarra
  • Fara með allan textíl, líka það sem er ónýtt, blettótt eða með götum í endurvinnslu
  • Æskilegt er að þvo allan fatnað og heimilisvefnað fyrir notkun í fyrsta skipti