Sjálfbærnivísar

Framleiðsla vöru og neysla hennar leiða af sér úrgang. Magn úrgangs hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum, en eftir efnahagshrunið 2008 virðist sú þróun hafa stöðvast eða snúist við, alla vega í bili. Almennt endurspeglast þó fólksfjölgun og hagvöxtur með beinum hætti í aukningu úrgangs. Þannig jókst heildarmagn úrgangs á hvern Íslending úr tæpum 1,5 tonnum árið 1995 í rúm 1,8 tonn árið 2007.

Í raun er úrgangur ekkert annað en hráefni á villigötum, þe.a.s. hráefni sem ekki tekst að nýta frekar. Sé þessu hráefni fargað þarf að vinna nýtt hráefni í staðinn, með tilheyrandi álagi á umhverfið, m.a. í formi óþarfrar orku- og efnanotkunar. Á síðustu árum hefur fólk vaknað til vitundar um þetta, og því hafa endurnotkun og endurnýting sótt í sig veðrið. Breytingar í löggjöf og gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs hafa stutt við þessa þróun.

Meðhöndlun úrgangs er eitt af helstu viðfangsefnum Umhverfisstofnunar. Stofnunin fylgir eftir lögum og reglugerðum í þessum málaflokki og gefur reglulega út endurskoðaða landsáætlun um meðhöndlun úrgangs. Markvisst er stefnt að því að draga úr magni þess úrgangs sem mynast, en sá úrgangur sem myndast engu að síður og ekki tekst að endurnota eða endurnýta fer að lokum til endanlegrar förgunar, þ.e. í urðun eða brennslu. Þessi förgun þarf að eiga sér stað á ábyrgan hátt, þannig að óæskileg áhrif á umhverfið séu sem minnst. Tiltölulega auðvelt er að fylgjast með því hvernig miðar í úrgangsmálum, en tölur um heildarmagnið sem fellur til eru þó ekki alltaf eins aðgengilegar og ætla mætti. Gildir það jafnt um Ísland sem nágrannalöndin.

Markmið

  • Gera upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar almenningi og hagsmunaaðilum og gera þeim þannig kleift að hafa áhrif á umhverfi sitt
  • Draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans

Sjálfbærnivísar

  • Heildarmagn úrgangs
  • Meðferð og förgun úrgangs