Vatnamál

Vatn er forsenda alls lífs á jörðinni, því allt líf þarf á vatni að halda. Vatn er lykilþáttur í mótun landslags og er eitt af grunnþörfum okkar. Við notum það inni á heimilum, við ýmiskonar iðnað og framleiðslu s.s. ræktun, landbúnað og fiskiðnað, og til rafmagnsframleiðslu (vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir). Auk þess nýtum við að stórum hluta ár, stöðuvötn og fjörur til útivistar og ferðamennsku og ekki má gleyma drykkjarvatninu góða.

Ástand vatns á Íslandi

Ísland er auðugt af vatni og almennt talið að ástand vatns sé gott. Miklu máli skiptir fyrir viðskipti, ímynd og umhverfisgæði landsins að geta sýnt fram á að svo sé þar sem hér á landi er ýmis starfsemi sem getur valdið álagi á vatn. Síðan 2011 og áfram næstu árin fer fram greining á því hver staðan er í raun og grundvallast sú vinna á aðferðarfræði sem er sambærileg milli landa Evrópu. Vinnan stuðlar að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar.

Stöðuskýrsla fyrir vatnasvæði Íslands er fyrsta skrefið í gerð heildstæðrar vatnaáætlunar. Í henni er fjallað um skiptingu vatns í vatnshlot og gerðir, þætti sem geta valdið álagi á vatn og hvort hætta sé á að vatnshlot standist ekki umhverfismarkmið um gott ástand.