Vatnamál

Vatn er forsenda alls lífs á jörðinni, því allt líf þarf á vatni að halda. Vatn er lykilþáttur í mótun landslags og er eitt af grunnþörfum okkar. Vatn kemur við sögu á hverjum degi í mismunandi birtingarmyndum, allt frá kaffibollanum á morgnaanna til sundlauganna sem við syndum í. Við notum það inni á heimilum, við ýmiskonar iðnað og framleiðslu s.s. ræktun, landbúnað og fiskiðnað, og til rafmagnsframleiðslu (vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir). Auk þess nýtum við  ár, stöðuvötn og fjörur til útivistar og ferðamennsku og ekki má gleyma drykkjarvatninu góða.

Vegna þess hve dýrmætt vatnið er og mikilvægt að vernda það hefur Ísland innleitt vatnatilskipun Evrópusambandsins þar sem krafa er gerð um rannsóknir, eftirlit og aðgerðir til að viðhalda gæðum vatns, allt frá fjallendi til sjávar.