Svæði í Þjórsárdal

Áform um friðlýsingu svæðis í Þjórsárdal

Umhverfisstofnun ásamt Skeiða- og Gnúpverjahreppi, kynnir hér með áform um friðlýsingu svæðis í Þjórsárdal sem nær til m.a. Gjárinnar og Háafoss og nágrennis, í samræmi við lög nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Þjórsárdalur liggur á milli Búrfells við Þjórsá í austri og Skriðufells í vestri. Dalurinn er nokkuð sléttlendur og vikurborinn eftir endurtekin eldgos í Heklu. Í Þjórsárdal eru t.d. Stöng, Gjáin, Háifoss, Þjóðveldisbærinn og Vegghamrar. Skiptist Þjórsárdalur í tvo dalbotna um Rauðukamba, þar sem Fossá rennur í austari dalbotninum og Bergólfsstaðaá (framar Sandá) í hinum vestari. Sérstaða svæðisins felst fyrst og fremst í einstæðri náttúru og menningarminjum.

Gjáin hefur verið vinsæll ferðamannastaður og er helsta aðdráttaraflið óröskuð náttúra og friðsæld. Háifoss, Granni og Stöng eru einnig fjölsóttir ferðamannastaðir í Þjórsárdal. Friðlýsing svæðis í Þjórsárdal, og þá sérstaklega Gjárinnar er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. 

Tillaga að friðlýsingarmörkum miðast við hnitsett mörk sbr. meðfylgjandi kort:

Þjórsárdalur – kort af svæðinu
Þjórsárdalur - hnitaskrá

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skulu kynnt sérstaklega. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir við áformin og skilar til umhverfis- og auðlindaráðherra. Að þeim tíma liðnum mun skipaður samstarfshópur vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Að því loknu mun stofnunin auglýsa fyrirhugaða friðlýsingu í þrjá mánuði þar sem öllum gefst kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu. 

Friðlýsingin skal miða að því að varðveita sérkenni og einkenni landslagsins, fagurfræðilegt og menningarlegt gildi þess. Ef um er að ræða svæði þar sem hefðbundnar nytjar eru forsenda fyrir því að varðveita einkenni landslagsins skal friðlýsingin jafnframt miða að því að tryggja að þeim verði haldið við. Jafnframt er m.a. heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni, m.a. á umferðarrétti, notkun veiðiréttar og framkvæmdum. Þá er jafnframt heimilt að ákveða að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.

Frestur til að skila athugasemdum við áform um friðlýsingu er til og með 18. febrúar 2019. Athugasemdum má skila hér að neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Frekari upplýsingar veita Ingibjörg Marta Bjarnadóttir (ingibjorg.bjarnadottir@ust.is) og Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.