Á Íslandi

Tegundafjölbreytni á Íslandi telst ekki mikil og er talið að flestar innlendar tegundir eigi rætur sínar að rekja til Evrópu. Ljóst er að mjög margar tegundir hafa borist hingað til lands af manna völdum og er nú að finna a.m.k. 135 framandi tegundir í náttúru landsins, þar af eru 7 ágengar framandi tegundir hér á landi skv. gagnagrunni NOBANIS verkefnisins og 18 mögulega ágengar. Þær sem nú þegar hafa verið skilgreindar sem ágengar eru hæruburst, alaskalúpína, skógarkerfill, búrasnigill, spánarsnigill, húshumla og minkur.

Minkurinn var fyrst fluttur til Íslands árið 1931 til ræktunar vegna skinna. Hann slapp fljótlega úr haldi, breiddist hratt út og um 1975 hafði hann numið láglendissvæði um allt land. Minkurinn var af sömu ástæðu fluttur til margra Evrópulanda og lifir nú villtur í flestum löndum Norður-Evrópu. Minkurinn er talinn meðal 100 verstu ágengu tegunda Evrópu og einn af fjórum verstu ágengu spendýrategundum álfunnar.

Alaskalúpína var fyrst flutt hingað til lands árið 1895 og hefur verið notuð í landgræðslu frá því um miðja 20. öld. Hún er mjög útbreidd á Íslandi og finnst víða á láglendi þar sem land er friðað eða sauðfjárbeit lítil. Vísbendingar eru um að fræ alaskalúpínu geti borist langar vegalengdir með vatni, sterkum vindum og fuglum, en aðaldreifingarleiðin hefur hingað til verið sáning manna.

Skógarkerfill barst fyrst hingað til lands árið 1927 sem garðplanta. Hann finnst víða á landinu en virðist ekki hafa orðið ágengur fyrr en tiltölulega nýlega. Skógarkerfillinn hefur að mestu dreifst hér á landi af manna völdum.

Spánarsnigill fannst fyrst hér á landi árið 2003 og eru taldar líkur á að hann hafi borist hingað með innflutningi plantna eða jarðvegs. Hann er á lista yfir 100 verstu ágengu tegundir Evrópu og getur fjölgað sér gríðarlega hratt. Helsta dreifingarleið hans er með mönnum þar sem hann getur ekki ferðast sjálfur langar vegalengdir.

Hæruburst fannst fyrst hér á landi árið 1983 og hefur breiðst hratt út og finnst nú bæði á norður og suðurlandi. Hún er líkt og minkur og spánarsnigill á lista yfir 100 verstu ágengu framandi tegundir Evrópu.

Húshumla fannst fyrst hér á landið árið 1979 en hefur dreifst hratt um landið og finnst nú á öllu láglendi og allt upp í 600 m hæð.

Búrabobbi er talinn hafa borist fyrst út í íslenska náttúru undir lok áttunda áratugarins og fannst fyrst í Fossvogslæk, en á þeim tíma var vatni frá heimilum veitt út í lækinn. Erlendis hefur hann margoft borist úr fiskabúrum og hugsanlegt er að það sama hafi átt sér stað hér á landi.

Grjótkrabbi (Cancer irroratus) er framandi tegund sem hefur tekið sér bólfestu hérlendis. Hann hefur verið skráður á lista NOBANIS sem hugsanlega ágeng tegund. Grjótkrabbi er tiltölulega stórvaxin tífætla (Decapoda), en hann getur orðið allt að 15 cm á skjaldarbreidd. Náttúruleg heimkynni þessarar tegundar eru við austurströnd Norður-Ameríku, frá Flórída í suðri að Labrador í norðri.Grjótkrabbi fannst fyrst hér við land í Hvalfirði árið 2006 og er Ísland nyrsti þekkti fundarstaður krabbans til þessa. Talið er sennilegast að tegundin hafi borist hingað til lands á lirfustigi í kjölfestuvatni skipa.

Flundra (Platichthys flesus) er einnig framandi tegund sem hefur nýlega tekið sér bólfestu hér við land. Hún er flatfiskur af kolaætt sem getur orðið allt að 60 cm að lengd en er þó sjaldan lengri en 30 cm. Flundra lifir á sjávarbotni, frá fjöruborði niður á 100 m dýpi. Hún hrygnir ávallt í sjó en vaxtarskeið fisksins fer fram á ósasvæðum og í ferskvatni. Náttúruleg heimkynni flundru eru strandsvæði Evrópu, allt frá Svartahafi og Miðjarðarhafi í suðri að Kólaskaga í norðri. Hrogn og smáseiði flundrunnar eru sviflæg og kann hún að hafa borist hingað með kjölfestuvatni. Talið er sennilegast miðað við útbreiðslusvæði flundru að hingað hafi hún borist frá Evrópu, hugsanlega frá Færeyjum. Flundra veiddist fyrst við Ísland í september 1999, en breiðist núna hratt út við landið

Sandrækja (Crangon crangon) fannst í fyrsta sinn hér við land svo vitað sé árið 2003. Hún er botnlæg og er búsvæði hennar aðallega í fjörum og á grunnsævi (0 -50 m) með sendnum eða leirkenndum botni. Hún er gráleit með svörtum eða dökkbrúnum þverröndum en breytir auðveldlega um lit og lagar sig að botngerðinni. Sandrækja er algeng með allri strönd meginlands Evrópu, allt frá ströndum Noregs að strönd Finnlands í Eystrasalti og suður í Miðjarðarhaf og Svartahaf. Þar sem sandrækja finnst við Norður-Noreg er ekki hægt að rekja fund hennar hér við land til hlýnunar sjávar, enda er sviflægt lirfustig of stutt til að hún berist með straumum frá Skotlandi eða Noregi til Íslands. Líklegast er að lirfur hafi borist hingað með kjölfestuvatni.