Almennt

Framandi tegundir eru tegundir sem flytjast til nýrra heimkynna og breiðast þar út. Sumar þessara framandi tegunda verða ágengar og hefur samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni skilgreint ágengar framandi tegundir sem tegundir sem flytjast til nýrra heimkynna, breiðast þar út og ógna því lífríki sem fyrir er.

Tegundir sem flytjast milli svæða gera það ýmist af manna völdum eða á náttúrulegan hátt. Flutningur tegunda milli svæða af manna völdum hefur tíðkast frá örófi alda, en í kjölfar iðnbyltingarinnar og með bættum samgöngum, flutningi fólks, ferðalögum og verslun hefur flutningur tegunda milli svæða aukist verulega. Einnig eru fjölmörg dæmi um að tegundir flytjist á milli svæða og út fyrir sín náttúrulegu heimkynni á náttúrulegan hátt, t.d. með vindum, straumum og dýrum. Oft koma þó náttúrulegar hindranir í veg fyrir þennan náttúrulega flutning, t.d. mismunandi loftslag, úthöf, fjallgarðar, eyðimerkur o.s.frv. Með hnattvæðingunni breyttist hegðun manna með þeim hætti að nytjategundir voru fluttar verulegar vegalengdir milli svæða og þannig fluttust tegundir til svæða sem áður voru þeim lokuð af líffræðilegum eða landfræðilegum orsökum.

Við flutning tegunda er ekki sjálfgefið að tegundir nái fótfestu á nýju svæði. Dæmin hafa sýnt að u.þ.b. tíunda hver tegund (5-20%) sem sleppur út í náttúruna á nýju svæði nái fótfestu, og u.þ.b. tíunda hver þessara tegunda (5-20%) verði ágeng. Margar undantekningar eru á þessari reglu, en hryggdýr, sérstaklega spendýr, virðast vera líklegri en aðrir hópar lífvera til að verða ágeng. Þær tegundir sem ná að verða ágengar geta haft gríðarleg áhrif. Þær geta valdið verulegum breytingum á starfsemi vistkerfa, t.d. með afráni, samkeppni eða kynblöndun, borið með sér sjúkdóma, breytt búsvæðum og raskað jafnvægi tegunda sem fyrir eru. Þegar náttúrulegir óvinir eru ekki lengur til staðar geta þær auðveldlega orðið ofan á í samkeppni við þær tegundir sem fyrir eru. Það eru þó ekki bara innfluttar tegundir sem geta orðið ágengar, heldur geta upprunalegar tegundir líka orðið ágengar ef aðstæður breytast þeim í hag. Með hlýnandi loftslagi á norðurslóðum má reikna með að hegðun tegunda breytist og að sumar tegundir gætu gerst ágengar þó að þær hafi ekki áður sýnt merki um slíkt.

Oft getur reynst verulega erfitt að koma í veg fyrir þá þróun sem ágengar tegundir valda. Í Þúsaldarmati Sameinuðu þjóðanna eru ágengar tegundir taldar á meðal helstu ógna við líffræðilega fjölbreytni í heiminum í dag og á alþjóðlegum vettvangi hafa framandi tegundir, og þá sér í lagi þær sem eru þekktar fyrir að vera ágengar, fengið sífellt meiri athygli. Þá hefur athygli manna einnig í auknum mæli beinst að fjárhagslegu tjóni vegna ágengra framandi tegunda, sem getur á tíðum orðið umtalsvert.

Þegar ágengra tegunda verður vart í náttúrunni er mjög mikilvægt að bregðast skjótt við í því skyni að lágmarka tjón á lífríki og kostnað við aðgerðir vegna þessara tegunda. Í flestum tilvikum er auðveldast að útrýma tegundum á fyrstu stigum útbreiðslu þeirra, en sé það ekki gert er hætta á því að neikvæð áhrif ágengra tegunda á vistkerfi verði óafturkræf. Annað gildir um útbreiðslu framandi tegunda í hafinu, en því sem næst ómögulegt getur verið að hindra útbreiðslu framandi tegunda sem náð hafa fótfestu í nýjum heimkynnum í hafinu. Í hafinu er því auðveldara að koma í veg fyrir að tegundir berist á milli svæða heldur en að stöðva útbreiðslu þeirra. Það er hins vegar ekki einfalt mál og hefur verið verkefni alþjóðasamfélagsins í mörg ár. Því var mikilvægum áfanga náð þegar samstaða náðist um nýjan alþjóðlegan samning um kjölfestuvatn árið 2004. Samningurinn hefur ekki enn öðlast gildi á alþjóðavísu en allnokkur ríki hafa sett takmarkanir á losun á óhreinsuðu kjölfestuvatni á sínum hafsvæðum, þ.m.t. Ísland.

Lengi vel var innflutningur lífvera í kjölfestuvatni hér við land ekki talinn vandamál. Lítið var um að skip kæmu hingað tóm og auk þess voru flest skipin að koma frá næstu strandríkjum og frá umtalsvert hlýrri sjó. Með vaxandi alheimsvæðingu, aukinni iðnaðarstarfsemi hér á landi og vegna hlýnunar sjávar, hafa aukist líkur á því að hingað sigli skip frá fjarlægum heimshlutum og losi kjölfestuvatn með lífverur sem geta dafnað hér. Til að koma í veg fyrir að nýjar framandi lífverur, svo sem þörungar, krabbadýr, þari og bakteríur, berist með kjölfestuvatni til hafsvæða og stranda umhverfis Ísland var árið 2011 sett reglugerð sem takmarkar losun kjölfestuvatns á íslensku hafsvæði.

Hagsmunir Íslendinga af verndun lífríkis sjávar eru miklir, en við strendur Íslands hafa að minnsta kosti þrjár nýjar tegundir numið land á undanförnum árum. Þetta eru tegundirnar flundra, sandrækja og grjótkrabbi.