Umhverfistofnun - Logo

Borgarvogur í Borgarbyggð

Mynd: Þorleifur Geirsson

Mynd: Þorleifur Geirsson

Umhverfisstofnun, ásamt landeigendum og sveitarfélaginu Borgarbyggð, kynnir hér með áform um friðlýsingu Borgarvogs sem friðland í samræmi við 49. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. 

Náttúruperlan Borgarvogur er eitt af mikilvægari fuglasvæðum Vesturlands. Borgarvogur er á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði og er svæði nr. 239. á núverandi náttúruminjaskrá, þ.e. vogurinn allur ásamt fjörum, leirum og fitjum, auk þess að vera hluti af stærri tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands (Mýrar-Löngufjörur) sem svæði á framkvæmdaáætlun (B-hluta) náttúruminjaskrár í samræmi við lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. 

Fuglalíf á svæðinu er ríkt og dreift. Vogurinn er bæði mikilvægur vegna lífríkis í voginum sjálfum og mikilvægur fyrir fugla sem nýta Borgarvog og fleiri svæði í nágrenninu. Yfir 20 fuglategundir hafa fundist á svæðinu. Borgarvogur hefur því bæði mikið staðbundið verndargildi og mikið verndargildi sem hluti af stærra svæði, þ.e. mikilvægu fuglasvæði. Votlendi, leirur og fitjar njóta einnig sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013. 

Vogurinn geymir fallega víðáttumikla leiru  sem flokkuð er sem gulþörungaleira, sú stærsta af þessari vistgerð hér á landi (svo vitað sé) sem eykur enn á verndargildi svæðisins. Leiran er óvenjuleg að því leyti að hún nær allt frá stórstraumsfjöru og upp að sjávarfitjum við mörk háflóðs. Lífríki gulþörungaleira einkennist af þörungaskán á yfirborði og miklum þéttleika ána (Oligochaeta), sem eru smávaxnir hryggleysingjar. Þar er einnig að finna önnur smádýr, s.s. burstaorma (Polychaeta) og rykmýslirfur (Insecta). Leirur eiga ennfremur þátt í að takmarka gróðurhúsaáhrif og önnur neikvæð áhrif loftslagsvárinnar en leira bindur gróðurhúsaloftegundir og er binding á flatareiningu mikil. 
Rannsókna– og fræðslugildi svæðisins er jafnframt hátt og vogurinn hentar vel til fuglaskoðunar.

Með áformum um friðlýsingu svæðisins er horft til þess að vernda til framtíðar náttúrulegt ástand Borgarvogs og líffræðilega fjölbreytni svæðisins þannig að fái þróast samkvæmt náttúrulegum lögmálum og á eigin forsendum. Jafnframt að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins sem og að almenningur fái notið svæðisins til náttúruskoðunar og fræðslu. 
Tillaga að friðlýsingarmörkum miðast við hnitsett mörk skv. hnitaskrá og eru birt á korti:

Áform þessi eru kynnt í samræmi við málsmeðferðarreglur 2. og 3. mgr. 36. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár sé kynnt sérstaklega.  Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, landeigenda, sveitarfélagsins Borgarbyggðar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð friðlýsing mun að því búnu verða auglýst opinberlega og öllum gefinn kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.

Frestur til að skila athugasemdum er til og með 21. febrúar 2021. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila, sé þess óskað, í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.

Frekari upplýsingar veita Eva Sólan (evasolan@ust.is) og Hildur Vésteinsdóttir  (hildurv@ust.is) eða í síma 591-2000.

Tengd skjöl:
Borgarvogur – hnitaskrá
Borgarvogur - kort

 

Senda ábendingu

Upplýsingar

Skrár